Sveitarfélög eflist með aukinni samvinnu og fleiri verkefnum
Nauðsynlegt er að efla sveitastjórnarstigið með því að færa ýmsa nærþjónustu frá ríki til sveitarfélaga og gera verður sveitarstjórnum kleift að taka við fleiri verkefnum og veita nýja þjónustu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt Stjórnsýsluráðgjafar ehf. um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Úttektin var unnin fyrir samgönguráðuneytið og stýrði Sigurður Tómas Björgvinsson henni og kynnti hana á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nýverið.
Í skýrslunni er fjallað um átak til eflingar sveitarstjórnarstiginu sem stjórnvöld og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu fyrir á árunum 2003-2006 og náði hámarki með
sameiningarkosningum í 66 sveitarfélögum 8. október 2005. Markmið verkefnisins var annars vegar að gera úttekt á framkvæmd og áhrifum átaksins og hins vegar að leggja fram ábendingar um þau atriði sem ráðgjafar telja að hafa beri í huga við endurskoðun á stefnu stjórnvalda og hagsmunaaðila varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins í framtíðinni.
Meðal þess sem skýrsluhöfundar telja er að ekki sé skynsamlegt að leggja út í átaksverkefni svipað því sem fram fór árin 1993 til 2005. Nauðsynlegt sé að efla sveitastjórnarstigið með því að færa ýmsa nærþjónustu frá ríki til sveitarfélaga og gera verði sveitarstjórnum kleift að taka við fleiri verkefnum og veita nýja þjónustu. Í viðhorftskönnun, sem framkvæmd var meðal sveitarstjórnarfulltrúa, sveitarstjóra og alþingismanna, kemur fram að ein þeirra leiða sem færar eru til að efla sveitarstjórnarstigið sé að hækka lágmarksíbúafjölda samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Í skýrslunni eru kynntar fjórar leiðir til eflingar sveitarstjórnarstigsins. Ein þeirra er hækkun lágmarksíbúafjölda. Önnur leggur áherslu á skilgreiningu þjónustusvæða samhliða flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga, þar sem sveitarfélögunum verði falið að útfæra framkvæmdina óháð frekari sameiningum. Þriðja leiðin leggur einnig áherslu á myndun þjónustusvæða,
en þar er kallað eftir stýringu stjórnvalda að ofan og formlegum tillögum um stærð og mörk þjónustueininga. Í fjórða lagi er talað um hefðbundin og ný samstarfsform án inngrips stjórnvalda.
Skýrsluhöfundar benda á að hægt sé að blanda öllum þessum leiðum saman, þannig að samtímis framlagningu frumvarps um hækkun lágmarksíbúafjölda verði kynntar aðrar aðgerðir þar sem þjónustusvæði verði skilgreind og skýrar tillögur lagðar fram um verkefnaflutning, tekjustofna, endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs, sem og aðrar nauðsynlegar stuðningsaðgerðir kynntar. Líkur eru á því að sátt náist um slíkar hugmyndir verði sérleiðir sniðnar að þörfum sveitarfélaga og sérkennum svæða á landinu.