Nr. 230/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 2. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 230/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20040031
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 28. apríl 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Alsír (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. apríl 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Þess er aðallega krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla með vísan til 78. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. apríl 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 10. mars 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. apríl 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. apríl 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 8. maí 2020. Þá bárust viðbótarathugasemdir við greinargerð kæranda þann 1. júlí 2020.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til viðtals hjá Útlendingastofnun þar sem hann kveði ástæður flótta hans frá heimaríki vera vegna þess að hann hafi átt í ástarsambandi við stúlku og þau ætlað að ganga í hjónaband. Faðir stúlkunnar hafi verið háttsettur og áhrifamikill yfirmaður hjá lögreglunni í heimaborg hans. Kærandi kveði að hann sé spilltur og stundi jafnframt ólögleg fíkniefna- og vopnaviðskipti. Kærandi hafi beðið fjölskyldu sína að ræða við fjölskyldu stúlkunnar og biðja um hönd hennar. Þegar þau hafi komið að heimili stúlkunnar hafi faðir hennar reiðst, ýtt föður kæranda í jörðina og slegið móður hans þegar þau hafi borið upp erindið auk þess sem hann hafi hótað að fangelsa þau. Faðir stúlkunnar hafi svo bannað þeim að hittast en þau hafi haldið áfram að hittast í leyni. Faðir stúlkunnar hafi þó komist að því og ráðist á hann í eitt skipti þegar hann hafi komið til að hitta hana og látið höggin dynja á kæranda þar til honum hafi blætt. Kærandi og stúlkan hafi svo ákveðið að flýja en faðir hennar komist að þeim áformum og hótað þeim báðum lífláti. Kærandi hafi komið heim eitt skipti eftir vinnu og þá hafi fjölskylda hans tjáð honum að vopnaðir gengjameðlimir hafi komið að heimilinu og leitað hans. Kærandi hafi þá ákveðið að flýja heimaríki og koma til Íslands þar sem frændi hans búi. Kærandi kveðst ekki geta leitað eftir vernd í heimaríki vegna stöðu föður stúlkunnar auk þess sem lögregluyfirvöld i landinu séu spillt og hann óttist fangelsisrefsingu.
Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um aðstæður í Alsír og ástand mannréttindamála. Vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna þar sem m.a. komi fram að vel þekkist að lögreglumenn og opinberir embættismenn beiti óhóflegu valdi og jafnvel pyndingum gegn grunuðum. Refsileysi lögreglu og embættismanna sé vandamál, en stjórnvöld gefi sjaldan upplýsingar um eða aðhafist nokkuð þegar opinberir starfsmenn séu sakaðir um refsiverða háttsemi.
Aðalkrafa kæranda er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda sæti hann ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi muni sæta ofbeldi í heimaríki verði honum gert að snúa aftur til landsins. Hann hafi orðið fyrir ofsóknum, s.s. líflátshótunum og ofbeldi, af hálfu föður stúlkunnar sem hann hugðist giftast og gengjameðlima á hans vegum sem leiti kæranda í heimaríki til þess að myrða hann. Kærandi vísar til þess að ofsóknir á grundvelli aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi í d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísi einkum til fólks sem hafi áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega stöðu eða hafi sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir. Þá komi fram í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að ekki sé til endanlegur listi yfir þá hópa sem falli undir skilgreininguna og hugtakið skuli túlka vítt. Í leiðbeiningarreglunum sé tekið dæmi um glæpastarfsemi gengja. Þar komi fram að gengjaofbeldi geti verið útbreitt og haft áhrif á alla anga samfélagsins, einkum ef löggæsla og innviðir eru veik fyrir. Með hliðsjón af framangreindri frásögn kæranda hafi hann því ástæðuríkan ótta við að hann muni verða ofsóttur vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi kveði að hann sé að flýja heimaríki vegna ofsókna af hálfu þeirra sem falli undir a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og sé því ekki raunhæft að hann geti leitað ásjár yfirvalda þar í landi.
Til vara gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu að verða fyrir illri og ómannúðlegri meðferð af hálfu föður stúlkunnar og gengjameðlima á hans vegum í heimaríki. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu telji kærandi að hann uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis.
Til þrautavara er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísi til greinargerðar með frumvarpi til laga um útlendinga þar sem fram komi að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé vísað til þess hvort útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti er vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sérstaklega tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá komi fram að heildarmat skuli fara fram á öllum aðstæðum í máli áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skuli veitt. Í ljósi framangreindrar frásagnar kæranda séu almennar aðstæður hans afar erfiðar þar sem yfirvöld muni ekki veita honum nokkra vernd gegn þeim aðilum sem hann hafi flúið frá í heimaríki.
Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísi til þess að hann búi hjá föðurbróður og eiginkonu hans hér á landi, en samband þeirra og kæranda sé afar náið og kærandi líti á föðurbróður sinn sem föður.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.AuðkenniVið fyrri málsmeðferð kæranda hjá kærunefnd útlendingamála lagði kærandi fram alsírskt vegabréf sitt til að sanna á sér deili. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé ríkisborgari Alsír.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Alsír m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Algeria: Crime situation, including organized crime; police and state response, including effectiveness; state protection for witnesses and victims of crime (Immigration and Refugee Board of Canada, ágúst 2017);
- Algeria 2019 Crime & Safety Report (U.S. Overseas Security Advisory Council, 14. mars 2019);
- World Report 2020 – Algeria. Events of 2019 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020);
- Algeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- BTI 2018 Country Report Algeria (Bertelsmanns Stiftung, 1. janúar 2018);
- Freedom in the World 2020 – Algeria (Freedom House, 4. mars 2020);
- Terrorism in Africa. A Quantitative Analysis (Totalförsvarets Forskningsinstitut, 1. janúar 2017);
- The World Factbook - Algeria (CIA, 2. júní 2020);
- Country Policy and Information Note - Algeria: Background information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2017);
- Country Policy and Information Note - Algeria: Fear of Islamic terrorist groups (UK Home Office, 29. ágúst 2017);
- Algerie: Sikkerhet og terrorisme (Landinfo, 9. desember 2015) og
- Country of Origin Information Report – Algeria (UK Home Office, 17. janúar 2013).
Samkvæmt ofangreindum gögnum er Alsír fjölflokka lýðveldi með rúmlega 42 milljónir íbúa. Alsír lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi árið 1962 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum sama ár. Ríkið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 1963, mannréttindasáttmála Afríku árið 1987 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1989. Árið 1989 gerðist ríkið jafnframt aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
Fyrrgreindar skýrslur gefa til kynna að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að takmörkunum á funda, fjölmiðla- og félagafrelsi, skorti á sjálfstæði dómsvaldsins, óhóflegri valdbeitingu lögreglu, útbreiddri spillingu og refsileysi opinberra starfsmanna. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að þrátt fyrir að handahófskenndar handtökur séu refsiverðar samkvæmt lögum séu dæmi um að stjórnvöld noti óljós lagaákvæði eða löggjöf gegn hryðjuverkum til að þagga niður í eða handtaka einstaklinga sem gagnrýni stjórnvöld landsins opinberlega. Stjórnarskrá ríkisins kveði á um að allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og að gengið sé út frá því að einstaklingur sé talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Þar að auki sé sjálfstæði dómstóla tryggt í stjórnarskrá landsins. Fram kemur í skýrslu Freedom House frá 4. mars 2020 að dómstólaráð, sem leitt sé af forseta landsins, skipi dómara og saksóknara og að dómstólar verði gjarnan fyrir þrýstingi frá stjórnvöldum. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að dómstólar séu ekki í öllum tilvikum hlutlausir og séu jafnvel spilltir. Lögum samkvæmt liggi allt að tíu ára fangelsisvist við spillingu í opinberu starfi en stjórnvöld fylgi lögunum ekki eftir með fullnægjandi hætti og refsileysi stjórnvalda sé vandamál í landinu.
Í skýrslu flóttamannaráðs Kanada frá ágúst 2017 kemur fram að nokkuð sé um skipulagða glæpastarfsemi í Alsír. Sú starfsemi lúti einkum að viðskiptum með fíkniefni, vopn og stolin ökutæki, fjársvikum og fjárkúgun. Stjórnvöld berjist ötullega gegn uppgangi skipulagðra glæpahópa og hafi meðal annars verið sett lög til þess að verja uppljóstrara og sérfræðivitni gegn ofsóknum þessara hópa. Nokkuð hafi áunnist í þessari baráttu síðustu ár. Fram kemur í skýrslu Landinfo frá 9. desember 2015 að nokkuð sé um vopnahópa í Alsír, þ.á m. samtökin Al-Qaida í íslamska Maghreb (AQIM). Markmið samtakanna sé að stofna íslamskt ríki í Alsír og hafi samtökin gerst sek um þó nokkrar árásir í Alsír á árunum fyrir gerð skýrslunnar sem hafi flestar beinst að hermönnum og lögreglumönnum. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins, Fear of Islamic terrorist groups, frá ágúst 2017 kemur fram að öflugar varnir gegn hryðjuverkum og hernaðaraðgerðir hafi þó gert það að verkum að starfsemi vopnahópa sé að miklu leyti takmörkuð. Jafnframt kemur fram í skýrslu Freedom House frá 4. mars 2020 að hryðjuverkaárásir séu orðnar sjaldgæfari í Alsír og engar hryðjuverkjaárásir hafi verið gerðar á árinu 2019. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins, Background information, including actors of protection and internal relocation, að Alsír hafi öflugasta her í Norður-Afríku. Þá hafi yfirvöld almennt séð stjórn yfir öryggissveitum landsins. Í skýrslu öryggisráðs bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að lögreglan sé almennt fagmannleg og bregðist fljótt við beiðnum um aðstoð.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir: Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi hefur borið fyrir sig að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki sem hafi falist í líflátshótunum og ofbeldi af hálfu föður stúlku sem kærandi hugðist giftast og gengjameðlima á hans vegum sem kærandi kveði að vilji myrða hann. Jafnframt hafi kærandi ekki möguleika á að leita aðstoðar lögreglu þar sem faðir stúlkunnar sé háttsettur yfirmaður hjá lögregluyfirvöldum í heimabæ hans.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa farið að heimili stúlkunnar með fjölskyldu hans til að biðja föður stúlkunnar um hönd hennar. Þá greindi kærandi jafnframt frá því að allir í heimabæ hans óttuðust föður stúlkunnar. Í sama viðtali var kærandi spurður um nafn föður stúlkunnar en hann kvaðst ekki vita nafn hans. Þá kvaðst hann ekki vita eftirnafn stúlkunnar sem hann hugðist giftast þrátt fyrir að þau hafi verið í sambandi í einhverja mánuði og að sögn kæranda hafi faðir hennar verið vel þekktur í heimabæ hans. Að mati kærunefndar dregur þessi ónákvæmni í frásögn kæranda að mestu leyti úr trúverðugleika framburðar hans. Kærunefnd óskaði með tölvupósti dags. 29. júní eftir frekari upplýsingum varðandi stúlkuna og föður hennar. Þann 1. júlí bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda þar sem kom fram að hann hafi ekki nein frekari gögn í höndunum sem sýni fram á samband hans við stúlkuna. Hann hafi týnt síma sínum á flótta frá heimaríki sem hafi innihaldið öll samskipti þeirra og ljósmyndir af henni. Þá sé hann ekki í samskiptum við hana í dag og hann geti ekki haft samband við hana eða aflað neinna slíkra gagna. Jafnframt kveði hann að ómögulegt sé að afla frekari gagna um stöðu föður hennar í heimaríki þar sem hann viti ekki raunverulegt nafn hans. Er það mat kærunefndar að Þrátt fyrir áskoranir þess efnis hafi kærandi engin gögn fært fram, t.a.m. um stúlkuna sem hann kveðst hafa verið ástfanginn af, tengsl föður stúlkunnar við lögreglu eða stjórnvöld í heimaríki, sem stutt gætu við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd og telur kærunefnd framangreindar skýringar kæranda á því ótrúverðugar. Að mati kærunefndar er ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn sem renni stoðum undir frásögn hans um að hann hann hafi átt í sambandi við stúlku í heimaríki og að faðir hennar sé hátt settur í lögreglunni. Það er því mat kærunefndar að frásögn kæranda af atburðum og ástæðum flótta teljist ótrúverðug í heild sinni. Frásögn kæranda verður því ekki lögð til grundvallar í máli þessu.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Alsír sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Alsír geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi hefur greint frá því að hann sé í hættu á að búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem hann megi ætla að yfirvöld muni ekki veita honum vernd gegn þeim aðilum sem hann flúði frá í heimaríki. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að unnt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi sé almennt við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga
Kærandi gerir þá kröfu til þrautaþrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Tekur kærunefnd fram að úrskurður þessi lýtur einungis að því hvort kærandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 37. gr. laga um útlendinga, eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. og 6. mgr. 37. gr. sömu laga, en ekki rétti kæranda til dvalarleyfis á grundvelli annarra ákvæða laga um útlendinga. Telji kærandi sig eiga rétt á dvalarleyfi hér á landi, svo sem á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, getur hann lagt fram umsókn þess efnis hjá Útlendingastofnun. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til slíkrar umsóknar.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 8. apríl 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 656/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. ágúst 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg I. Jónsdóttir