Hoppa yfir valmynd
15. maí 2024

Sameining þriggja stofnana í nýja Náttúrufræðistofnun orðin að lögum

Fréttapóstar vegna breytinga á stofnanaskipulagi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eru eingöngu sendir á starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess.

Alþingi samþykkti í gær frumvarp um nýja Náttúrufræðistofnun. Með staðfestingu laganna verða Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fær heitið Náttúrufræðistofnun.

Ný Náttúrufræðistofnun fer með þau hlutverk og verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafa í dag. Ný stofnun á að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna, mælinga, kortlagningar og vöktunar á náttúru Íslands, sem og að tryggja markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með góðu aðgengi að gögnum og áreiðanlegum rauntímamælingum. Þá er áhersla lögð á öflugar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir sem verða m.a. unnar á grundvelli samráðs milli stofnana.

„Það er ánægjuefni að sjá nýja Náttúrufræðistofnun verða að veruleika. Stofnuninni er ætlað að  hafa skýra og greinargóða yfirsýn yfir náttúru Íslands á hverjum tíma, búa yfir áreiðanlegum gögnum og vera öflug í miðlun og fræðslu. Starfsmenn hinnar nýju stofnunar verða um 80 talsins með starfsstöðvar víða um land. Ég legg sérstaka áherslu á að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun í nýju stofnuninni. Einnig legg ég áhersla á að fjölga störfum á landsbyggðinni í kjörnum sem dreifast um landið,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur

Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun í þinglegri meðferð

Lögin sem samþykkt voru í gær eru liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur unnið að ásamt undirstofnunum frá miðju ári 2022. Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að í stað átta af stofnunum ráðuneytisins verði til þrjár öflugri og stærri stofnanir. Eru frumvörp um Náttúruverndar- og minjastofnun (Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun Íslands) og Umhverfis- og orkustofnun (Orkustofnun og Umhverfisstofnun (umhverfis- og loftslagsmál)) nú til umfjöllunar hjá þinginu. Auk þess er unnið að því að færa Stofnun Vilhjálms Stefánssonar undir Háskólann á Akureyri.

Annað

Spurningum og ábendingum starfsmanna um stofnanabreytingarnar sem óskað er eftir að koma á framfæri skal beint til mannauðstjóra/forstöðumanna stofnananna, sem eru í góðu sambandi við ráðuneytið. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar beint til mannauðsstjóra ráðuneytisins [email protected], sem safnar þeim saman og sendir spurningar og svör til stofnana sem þau geta dreift til starfsfólks. 

Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta