Samningur um lögfræðiráðgjöf við innflytjendur
Velferðarráðuneytið og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa gert með sér samning um lögfræðiráðgjöf við innflytjendur þeim að kostnaðarlausu. Mannréttindaskrifstofan annast þjónustuna og veitir velferðarráðuneytið fjórar milljónir króna til verkefnisins.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands undirrituðu samninginn síðastliðinn föstudag.
Markmið samningsins er að styrkja lögfræðilega ráðgjöf Mannréttindaskrifstofu Íslands við fólk af erlendum uppruna um allt land. Verkefnið skal unnið í nánu samstarfi við Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem veitir ráðgjöf og aðstoð við túlkun þegar þess er þörf.
Mannréttindaskrifstofa Íslands mun taka saman skýrslu um framkvæmd lögfræðiráðgjafarinnar þar sem gerð verður grein fyrir ráðstöfun þess fjár sem veitt er til verkefnisins með upplýsingum um fjölda þeirra sem fá þjónustu, greiningu á erindum og helstu viðfangsefnum lögfræðiráðgjafarinnar. Skýrslan skal liggja fyrir eigi síðar en 1. ágúst 2012.