Ný reglugerð vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2016
Innanríkisráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2016. Reglugerðin er sett á grundvelli 13 gr. a. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 með síðari breytingum.
Reglugerðin er nr. 179/2016 og gilda ákvæði hennar frá 1. janúar 2016. Fallið hefur úr gildi reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, nr. 631/2015 vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2015.
Helstu breytingar sem fram koma í nýrri reglugerð er að í b. lið 1. mgr. 1 gr. reglugerðarinnar er fjallað um auknar tekjur ríkissjóðs sem rekja má til samkomulags ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustu við fatlað fólk frá því í desember á síðasta ári.
Meðal annarra breytinga sem fram koma í nýrri reglugerð er að áætluðum rekstarartekjum Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk skal skipta með eftirfarandi hætti:
a. 85% skiptast hlutfallslega miðað við niðurstöður mælinga á útgjaldaþörf,
b. 14% skiptast hlutfallsega miðað við áætlaðan útsvarsstofn sveitarfélaga 2016,
c. 1% skiptast hlutfallslega miðað við fjarlægðir innan þjónustusvæða og að teknu tilliti til fjölda sveitarfélaga innan svæða.
Í reglugerð nr. 631/2015 var skiptingin með þeim hætti að 80% skiptust hlutfallslega miðað við niðurstöður mælinga á útgjaldaþörf og 20% skiptust hlutfallslega miðað við áætlaðan útsvarsstofn 2015. Mæling vegna fjarlægða er nýtt viðmið í útreikningum framlaganna 2016.