Elín Pálsdóttir sæmd heiðursmerki Sambands íslenskra sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga heiðraði í gær Elínu Pálsdóttur, fráfarandi forstöðumann Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, fyrir langt og farsælt starf hennar að sveitarstjórnarmálum. Var henni veitt heiðursmerki sambandsins og afhenti Halldór Halldórsson formaður Elínu merkið á fjármálaráðstefnu sambandsins sem lauk í Reykjavík í dag.
Halldór Halldórsson og Karl Björnsson afhentu Elínu Pálsdóttur heiðursmerki sambandsins og blómvönd.
Halldór kvaddi sér hljóðs við lok fyrri ráðstefnudagsins og sagði sveitarstjórnarstigið standa á sérstökum tímamótum sem ástæða væri til að huga að. Rifjaði hann upp að þegar regluverki Jöfnunarsjóðs var breytt árið 1990 og jöfnunarhlutverk hans aukið hefði verið ákveðið að ráða starfsmann í fullt starf til að sinna verkefnum sjóðsins. Halldór sagði samskiptin við Elínu ávallt hafa verið með miklum ágætum. ,,Elín hefur á þessum 27 árum haft hagsmuni sveitarfélaganna að leiðarljósi, en um leið gætt að hag Jöfnunarsjóðsins, sem hefur staðið vel á starfstíma hennar hjá sjóðnum. Elín er búin ríkri réttlætiskennd og mikilli staðfestu – eiginleikum sem hafa gagnast vel í öllum samskiptum hennar við sveitarstjórnarmenn og ekki síður við þá ráðherra sem hafa farið með málefni Jöfnunarsjóðsins á hverjum tíma frá árinu 1990,“ sagði formaðurinn einnig.
Elín Pálsdóttir þakkaði fyrir þann heiður sem henni hefði verið sýndur og risu fundarmenn úr sætum og klöppuðu henni lof í lófa fyrir framlag hennar um árabil.
Sjö einstaklingar hafa fengið heiðursmerki sambandsins. Það eru fjórir fyrrverandi formenn sambandsins: Jón G. Tómasson, Björn Friðfinnsson, Sigurgeir Sigurðsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Einnig tveir fyrrverandi starfsmenn sambandsins, þeir Unnar Stefánsson ritstjóri sem starfaði hjá sambandinu í 45 ár og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri. Þá hefur einum manni utan sambandsins verið veitt heiðursmerkið sem er Húnbogi Þorsteinsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Borgarnesi, fyrrverandi skrifstofustjóri og ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu og formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs um árbil.