Hoppa yfir valmynd
14. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Nauðungarvinna barna færist í aukana

Úgandastúlka á akrinum. Ljósm. gunnisal - mynd

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) vakti athygli á því í vikunni að 152 milljónir barna eru fórnarlömb barnaþrælkunar. Helmingur þeirra vinnur hættuleg störf við heilsuspillandi aðstæður sem geta leitt til slysa og jafnvel dauða. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAOI) benti á þá óheillaþróun að barnaþrælkun í landbúnaði fer aftur vaxandi eftir að dregið hafði úr henni í rúmlega tíu ár samfleytt. Nú er talið að 108 milljónir barna neyðist til að vinna landbúnaðarstörf. Alþjóðadagur gegn barnaþrælkun var haldinn í vikunni.

Alþjóðadagurinn var að þessu sinni ekki aðeins helgaður baráttunni gegn barnaþrælkun heldur einnig samtengdur öðrum alþjóðadegi fyrir öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi. Þannig var athyglinni bæði beint að hættulegum störfum sem börn eru í vaxandi mæli látin vinna við vondar aðstæður og almennt um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. (Sjá meðfylgjandi myndband frá ILO).

Fjallað er um þessi atriði í tveimur undirmarkmiðum Heimsmarkmiðs nr. 8 þar sem segir: „Gerðar verði tafarlausar og árangursríkar ráðstafanir til þess að útrýma nauðungarvinnu, endir bundinn á nútímaþrælahald og mansal og tryggt verði bann við og afnám barnaþrælkunar, meðal annars nýliðunar og notkunar barnahermanna, og eigi síðar en árið 2025 verði bundinn endir á nauðungarvinnu barna í öllum myndum.“ … og „réttindi á vinnumarkaði verði vernduð og stuðlað að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk, meðal annars farandlaunþega, einkum konur sem eru á faraldsfæti, og þá sem hafa ótrygga atvinnu.

Samkvæmt skýrslu ILO er tæplega helming barna í nauðungarvinnu að finna í Afríku annars vegar og í Asíu- og Kyrrahafsríkjum hins vegar. Hlutfallslega flest vinnandi börn er að finna í Afríku sunnan Sahara. Í skýrslunni kemur fram að börnin séu sett til vinnu sex eða sjö ára að aldri og vinnuaðstæðurnar verði hættulegri eftir því sem þau eldast. Um 70% hættulegra starfa barna tengjast landbúnaði, en einnig eru slík störf í námagreftri, byggingariðnaði og á heimilum.

Guy Rider framkvæmdastjóri ILO segir heiminn standa frammi fyrir faraldri vinnuslysa og atvinnusjúkdóma. Hann segir í viðtali við VOA fréttaveituna að 2,78 milljónir dauðsfalla megi árlega rekja til vinnuslysa, 374 milljónir slasist við störf eða veikist. Væru þetta fórnarlömb í stríði væri umræðan hávær. Hann segir að börn og ungir starfsmenn séu í meiri hættu en aðrir og að afleiðingarnar séu oft langvinnari.

Á alþjóðadegi gegn barnaþrælkun beindi Reuters-fréttastofan sjónum að aukinni barnaþrælkun meðal sýrlenskra flóttabarna í flóttamannabúðum í Líbanon.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta