Mál nr. 8/1997
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 8/1997
Á fundi kærunefndar jafnréttismála mánudaginn 15. desember 1997 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
Með bréfi dags. 22. júní 1997 óskaði A, sérkennari, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann í Borgarnesi bryti gegn ákvæðum l. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislög).
Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram:
1. Kæra dags. 22. júní 1997, ásamt greinargerð kæranda, úrklippu úr Morgunblaðinu þar sem umrætt starf er auglýst laust til umsóknar og umsókn kæranda um starfið ásamt þeim gögnum sem umsókninni fylgdi.
2. Svarbréf bæjarritara Borgarbyggðar, dags. 17. júlí 1997 ásamt afriti af umsókn þess sem ráðinn var og fylgigögnum með umsókn.
3. Bréf frá skólastjóra Grunnskóla Borgarness, dags. 13. júlí 1997.
4. Fundargerð frá fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 11. júní 1997.
5. Afstaða kæranda til svarbréfs bæjarritara, dags. 19. ágúst 1997.
6. Yfirlit frá kæranda yfir launamun milli sérkennara og aðstoðarskólastjóra, skv. kjarasamningi frá 1. mars 1995 til des. 1996.
7. Bréf bæjarritara til kærunefndar dags. 12. nóvember 1997.
Á fund kærunefndar 6. nóvember 1997 mættu kærandi ásamt lögmanni sínum og fulltrúar bæjarstjórnar Borgarbyggðar, forseti bæjarstjórnar og bæjarritari og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins.
M Á L A V E X T I R
Staða aðstoðarskólastjóra Grunnskólans í Borgarnesi var auglýst laus til umsóknar í Morgunblaðinu 10. maí 1997. Umsækjendur voru þrír, kærandi, B og C. Fjallað var um umsóknirnar á fundi skólanefndar 3. júní 1997 og mælti skólastjóri grunnskólans með öðrum tveggja heimamanna, B eða C. Í fundargerð frá fundinum kemur fram að bæjarritara hafi verið falið að afla frekari umsagna um umsækjendur, þeirri gagnaöflun skyldi lokið fyrir næsta bæjarstjórnarfund og að ákvörðun um ráðningu sé vísað til bæjarstjórnar.
Fundargerð skólanefndar var til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 11. júní s.á. Þar voru umsóknirnar lagðar fram og samþykkt að viðhafa skriflega kosningu. Samkvæmt fundargerðinni féllu atkvæði þannig að B fékk fimm atkvæði en kærandi fjögur. Eftirfarandi bókun eins bæjarfulltrúa kom fram:
1) Af þremur hæfum umsækjendum um stöðu aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann í Borgarnesi er A augljóslega með mestu menntun og mestu reynslu í stjórnunarstörfum allra umsækjenda. Hún er með frábær meðmæli bæði frá yfirmönnum og félagi foreldra og kennara.
2) Skjólstæðingar Grunnskólans í Borgarnesi eiga skilið það besta sem völ er á. Það er sveitarfélaginu ekki til sóma að leggja annað en faglegt mat til grundvallar við ráðningu starfsmanna og hefur án efa neikvæð áhrif á vilja hæfileikafólks til að leita starfa hjá sveitarfélaginu.
3) Val sveitarstjórnar brýtur augljóslega í bága við jafnréttislög.
Með bréfi dags. 13. júní s.á. var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að ráða B í starfið.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsferil kæranda og B.
Kærandi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1975 og B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1978. Hún var við nám í sérkennslufræðum við kennaraháskólann í Gautaborg veturinn 1982 til 1983. Hún lauk BA prófi í sérkennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1988 (tveggja ára nám eða 60 einingar). Hún stundar nú meistaranám í sérkennslu og áætlar námslok vorið 1998. Kærandi hefur sótt fjölda námskeiða á vegum endurmenntunar Kennaraháskólans. Hún hefur réttindi til að kenna á framhaldsskólastigi. Samkvæmt stigatöflu menntamálaráðuneytisins hefur hún 225 námsmatsstig.
Hún kenndi við Hólabrekkuskóla árin 1978 til 1981 og var stundakennari við grunnskóla í Svíþjóð veturinn 1981 til 1982. Árin 1983 til 1989 kenndi hún við Öskjuhlíðarskóla, 1989 til 1992 var hún kennari við æfingadeild Kennaraháskóla Íslands bæði í almennum bekk og í sérkennslu, auk þess að vera með æfingakennslu kennaranema við Kennaraháskóla Íslands. Frá árinu 1992 hefur hún verið sérkennari við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, vann að stofnun og mótun sérdeildar á unglingastigi sem hún veitir forstöðu. Þá hefur kærandi starfað sex sumur sem forstöðumaður í sumarbúðum fyrir fatlaða nemendur.
Kærandi hefur setið í kennararáðum þeirra grunnskóla sem hún hefur starfað við, tekið virkan þátt í störfum Félags íslenskra sérkennara og Kennarasambands Íslands þar sem hún situr nú í stjórn. Hún var varaformaður Kennarafélags Reykjaness 1993 til 1996, sat í menntamálanefnd Þroskahjálpar 1993 til 1995 og í ritnefnd Glæða, fagtímarits Félags íslenskra sérkennara 1991 til 1995.
B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1982 og B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1986. Veturna 1989 til 1991 stundaði hann starfsleikninám við Kennaraháskóla Íslands og lauk því vorið 1991 (12 eininga nám). B hefur sótt margs konar námskeið í tengslum við starf sitt. Samkvæmt stigatöflu menntamálaráðuneytisins hefur hann 182,5 námsmatsstig.
Hann hóf störf við Grunnskólann í Borgarnesi 1986 og hefur kennt þar síðan, bæði á grunn- og miðskólastigi. Hann var fagstjóri í náttúrufræðum 1989 til 1990, í raungreinum 1990 til 1996 og náttúrufræðum 1996 til 1997. Á árunum 1990 til 1992 kenndi B við framhaldsdeild sem þá var starfrækt í Borgarnesi. Á þeim árum starfaði hann einnig fyrir menntamálaráðuneytið við að semja og fara yfir samræmd próf í stærðfræði fyrir 10. bekk, semja og fara yfir könnunarpróf í stærðfræði fyrir 5. bekk og fara yfir samræmd könnunarpróf í náttúrufræðum fyrir 5. og 9. bekk. Hann var ritstjóri og ábyrgðarmaður fréttabréfs Grunnskólans í Borgarnesi árin 1993 til 1996. Þá var hann einn upphafsmanna að því að skipuleggja sérstök endurmenntunarnámskeið við Grunnskólann í Borgarnesi, tengiliður við kennara námskeiðanna og sá um skipulags- og fjármál þeirra að því er skólann snerti, í samráði við skólastjóra.
Í umsókn B eru rakin fimm þróunarverkefni sem snúa að skólastarfi og hann hefur tekið þátt í. Hann hefur setið í kennararáðum eða skólanefndum öll þau ár sem hann hefur kennt. Þá hefur hann verið framkvæmdastjóri og varaformaður knattspyrnudeildar Skallagríms og var kosningastjóri eins frambjóðanda til Alþingis fyrir kosningarnar 1995.
Erindi sitt rökstyður kærandi með því að hún hafi meiri menntun, lengri starfsreynslu og lengri stjórnunarreynslu en sá sem ráðinn var til starfans. Hún eigi að baki 18 ára starfsferil við ólíka grunnskóla, sérskóla og í Kennaraháskóla Íslands. Hún hafi farið með deildarstjórn á sínum starfsvettvangi lengur en B, auk þess að hafa setið fleiri ár í kennararáðum, foreldrafélagsráðum og öðrum nefndum sem tengjast starfi kennarans. Bæði hafi starfað að skólaþróun, útgáfumálum og ritstjórn.
Þá telur kærandi að mjög ófaglega hafi verið staðið að verki við ráðninguna. Hún kveður það almennt vega þungt við val á umsækjendum, að skólastjóri mæli með tilteknum umsækjanda. Hér bregði hins vegar svo við að skólastjóri mæli með því að ráðinn verði heimamaður. Hann þekki þá aðeins af samviskusemi og dugnaði, þekking þeirra á skólastarfinu muni auðvelda samspil skólastjórnenda, rétt sé að þeir sem leggja á sig að starfa á landsbyggðinni njóta þess og að meiri líkur séu á því að þeir ílendist í starfi. Kærandi telur sig ekki njóta sannmælis. Skólastjóri hafi ekki kynnt sér starfsferil hennar og þekki því ekkert til samviskusemi hennar og dugnaðar. Rök hans séu huglæg og engum gögnum studd. Það að við skólann starfi kennarar með sérkennslumenntun, réttlæti ekki að gengið sé fram hjá henni í stöðu aðstoðarskólastjóra. Þá megi halda því fram að ávinningur geti verið af því að fá utanaðkomandi aðila til starfa í skólanum. Kærandi telur halla verulega á konur í stjórnunarstöðum í grunnskólanum í Borgarnesi og almennt. Þær séu u.þ.b. 80% kennara en það hlutfall snúist hins vegar við í stjórnunarstöðum. Löngu sé orðið tímabært að snúa þeirri þróun við og ráða konu þegar jafnhæfir einstaklingar af báðum kynjum sæki um.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála 6. nóvember sl. lagði kærandi fram yfirlit yfir þann mun sem er á kjörum sérkennara og aðstoðarskólastjóra í skóla af þeirri stærð sem Gunnskólinn í Borgarnesi er samkvæmt þeim kjarasamningi sem verið hefur í gildi. Benti hún á að samkvæmt kjarasamningi sem nýlega hefði verið gerður milli launanefndar sveitarfélaga og Kennarafélags Íslands ykist þessi munur.
Forsvarsmenn bæjarstjórnar Borgarbyggðar vísa til umsagnar skólastjóra um hvað ráðið hafi vali á umsækjendum. Í þeirri umsögn komi fram að skólastjóri hafi ákveðið að mæla með öðrum tveggja heimamanna þar sem þeir hafi verið samstarfsmenn hans undanfarinn áratug, sinnt þar trúnaðar- og stjórnunarstörfum og hafi bæði tekið virkan þátt í mótun skólastefnu í skólanum. Þau séu í fremstu röð hvað varðar samviskusemi og dugnað. Nokkur hefð sé fyrir því að kennari innan skólans taki við starfi aðstoðarskólastjóra enda slíkur maður kunnugri öllum rekstri en aðkomumaður. Þá hafi það haft áhrif að sá sem hafi búsetu á staðnum sé líklegri til að ílendast í starfi en sá sem ekki hefur reynt kringumstæður og ekki sé óeðlilegt að umbuna þeim sem lagt hafi á sig að starfa á landsbyggðinni. Í umsögn skólastjóra er tekið fram að hann hafi ekki talið sig þurfa að gera upp á milli menntunar umsækjenda þar sem um stjórnunarstarf hafi verið að ræða, enda starfi við skólann kennarar með sömu menntun og kærandi.
Þessu til viðbótar bendir bæjarstjórn Borgarbyggðar á að B hafi víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum jafnt innan skólans sem utan og hafi verið farsæll í starfi. Hann hafi starfað sem áfangastjóri og borið ábyrgð á innra starfi skólans. Þá er því mótmælt að kærandi hafi meiri menntun en B. Sú menntun sem kærandi telji sig hafa umfram hann, sé eingöngu á sérkennslusviði. Það hafi skýrt komið fram í auglýsingu að verið væri að ráða í stöðu aðstoðarskólastjóra en ekki sérkennara. Í bréfi bæjarritara dags. 12. nóvember 1997 segir ennfremur:
Samkvæmt 23. grein IV. kafla laga um grunnskóla nr. 66/1995, skal sveitarstjórn að fenginni tillögu skólastjóra, ráða aðstoðarskólastjóra við grunnskóla þar sem starfa 12 starfsmenn eða fleiri. Í 3. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla kemur fram hver eru almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í kennara- eða skólastjórnendastöðu við grunnskóla. Í 9. gr. laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra er tekið fram hvaða kennsluréttindi skólastjóri við grunnskóla og framhaldsskóla skuli hafa. Hvergi í þessum lögum er tekið fram að menntunar í sérkennslufræðum sé sérstaklega óskað við ráðningu í stöðu skólastjórnenda. Samkvæmt framangreindum lögum uppfyllir sá er ráðinn var í stöðuna öll þau skilyrði sem farið er fram á að skólastjórnandi í grunnskóla hafi.
Að lokum er bent á að bæjarstjórn Borgarbyggðar sé fjölskipað stjórnvald. Ákvörðunin um ráðninguna hafi verið tekin með skriflegri atkvæðagreiðslu á bæjarstjórnarfundi og B fengið flest atkvæði.
N I Ð U R S T A Ð A
Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.
Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.
Í 8. gr. er að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar er tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn var.
Í máli þessu er að beiðni kæranda til athugunar hvort bæjarstjórn Borgarbyggðar hafi með því að ganga fram hjá umsókn hennar, brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Umsækjendur um stöðu aðstoðarskólastjóra voru þrír, tvær konur og einn karl. Við atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn Borgarbyggðar fengu kærandi og B atkvæði en þriðji umsækjandinn ekki. Ekki liggur fyrir kæra frá þriðja umsækjandanum. Þykir umsókn hennar ekki hafa áhrif á álitaefni þessa máls. Að þessu athuguðu þykir því ekki tilefni til að kalla eftir upplýsingum varðandi hana.
Upplýst er að í Grunnskólanum í Borgarnesi eru tvær stjórnunarstöður, staða skólastjóra og aðstoðarskólastjóra. Samkvæmt bæklingi Hagstofu Íslands "Konur og karlar" útgefnum árið 1997 voru 77% grunnskólakennara í landinu konur en 23 % karlar á árinu 1996. Þá skiptust störf aðstoðarskólastjóra jafnt milli kynja en 29% skólastjóra voru konur og 71% karlar.
Fyrir liggur að bæði kærandi og B fullnægja skilyrðum laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla til þess að fá stöðu aðstoðarskólastjóra og teljast því hæf til að gegna umræddri stöðu. Engu að síður þarf að huga að því hvort gætt hafi verið ákvæða jafnréttislaga við ráðninguna.
Samkvæmt útskrift úr kennaraskrá menntamálaráðuneytisins dags. 2. ágúst 1996 hefur kærandi 225 námsmatsstig. B hefur samkvæmt útskrift dags. 5. nóvember 1996 182,5 námsmatsstig. Kærandi hefur bæði munnlega fyrir kærunefnd og í skriflegum gögnum lagt áherslu á að hún hafi meiri menntun en B og að ekki hafi verið tekið tillit til þess við val á umsækjendum. Af hálfu bæjarstjórnar Borgarbyggðar hefur verið bent á að sú menntun sem kærandi hefur umfram B nýtist ekki beint í starfi aðstoðarskólastjóra. Fyrir liggur að kærandi var ekki kölluð í viðtal vegna umsóknar sinnar og ekki verður séð að bæjarstjórn hafi kallað eftir upplýsingum eða afstöðu kæranda til þess hvort og hvernig framhaldsmenntun hennar myndi nýtast í starfi. Almennt verður að telja meiri menntun til þess fallna að auka hæfni starfsmanna, einnig sérmenntun á ákveðnu sviði þótt hún sé ekki nauðsynleg. Námsferill beggja umsækjenda hefur verið rakinn hér að framan og þykir ljóst að kærandi stendur B framar að því er menntun varðar.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi starfað á öllum stigum grunnskólans og við Kennaraháskóla Íslands í 18 ár. B hefur einnig kennt á öllum stigum grunnskólans, ef frá er talinn 1. bekkur, í 11 ár. Bæði hafa starfað sem deildarstjórar og fagstjórar við grunnskóla þar sem þau hafa kennt og setið í kennara- og foreldrafélagsráðum. Þau hafa því allmikla reynslu af stjórnunarstörfum innan skóla en hún talsvert lengri starfsferil.
Í 7. gr. jafnréttislaga er tilgreint að við mat á hæfni skuli, auk menntunar og starfsreynslu, leggja til grundvallar sérstaka hæfni þess umsækjanda sem ráðinn er. Bæjarstjórn Borgarbyggðar hefur gert rök skólastjórans fyrir því að ráða heimamann að sínum. Umrædd rök verður að telja huglæg og verða þ.a.l. ekki lögð til grundvallar mati á hæfni umsækjenda. Bæjarstjórn hefur ekki bent á neitt í fari kæranda sem gefur tilefni til að ætla að kærandi stæði ekki undir sambærilegum væntingum. Umsókn kæranda staðfestir að vilji hennar hafi staðið til þess að starfa á landsbyggðinni. Þá er þess að vænta að nýr starfsmaður sem fengið hefur starfsreyslu sína utan skólans komi með nýjar áherslur og nýja reynslu inn í starfið. Jafngild rök hljóta því að teljast fyrir ráðningu utanaðkomandi aðila og ráðningu heimamanns.
Með vísan til 1., 3. og 5. gr. jafnréttislaga verður að líta svo á að atvinnurekanda beri að ráða þann umsækjanda sem er af því kyni sem hallar á í viðkomandi starfsgrein svo fremi sem umsækjendur teljast jafn hæfir til að gegna umræddu starfi. Með ráðningu eru báðar stjórnunarstöðurnar við Grunnskólann í Borgarnesi skipaðar körlum. Samkvæmt framanrituðu þykir ljóst, að kærandi er ekki aðeins jafnhæf og sá sem ráðinn var heldur hæfari að því er varðar menntun og starfsreynslu. Þau rök sem fram hafa verið færð varðandi sérstaka hæfni B byggjast á huglægu mati ráðningaraðila. Með því að fallast á slík rök yrði að engu gert það ákvæði 5. gr. jafnréttislaga sem skyldar atvinnurekendur til að jafna stöðu kynjanna innan síns fyrirtækis eða stofnunar og tryggja að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf. Kærunefnd telur að bæjarstjórn Borgarbyggðar hafi ekki sýnt fram á sérstaka hæfni B sem vegi upp þann mun sem er á menntun umsækjenda og starfsreynslu.
Það verður ekki talið breyta neinu að atvinnurekandi í þessu máli er fjölskipað stjórnvald og að viðhöfð var atkvæðagreiðsla um ráðninguna, enda ber fjölskipuðu stjórnvaldi að gæta að ákvæðum jafnréttislaga við ráðningu í störf á sama hátt og aðrir atvinnurekendur.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í stöðu aðstoðarskólastjóra við Gunnskólann í Borgarnesi hafi bæjarstjórn Borgarbyggðar brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Þeim tilmælum er beint til bæjarstjórnar Borgarbyggðar að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.
Sigurður Tómas Magnússon
Gunnar Jónsson
Hjördís Hákonardóttir