Hoppa yfir valmynd
18. desember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 47/2001

Þriðjudaginn, 18. desember 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 13. september 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 11. september 2001.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanns, með bréfi dags. 3. september 2001.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Skv. meðfylgjandi skjali, undirritað af B, aðstoðarskólameistara Iðnskólans í D er sýnt að A stundar fullt nám, þ.e. allar þær einingar sem í boði eru eins og segir í áður nefndu bréfi (skjali) "gat þar af leiðandi ekki fengið fleiri einingar inn í stundatöflu.""

Með bréfi, dags. 2. október 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 26. nóvember 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með ódagsettri umsókn sótti A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður frá 1. ágúst vegna fæðingar barns 14. ágúst. Með umsókninni fylgdi vottorð um skólavist frá Iðnskólanum um að hún hefði stundað nám í útstillingum á haustönn 2000 og vorönn 2001. Vegna þess að í vottorðinu kom ekki fram að hún hefði verið í fullu námi var haft samband símleiðis við skólann og fengust þær upplýsingar að nám hennar hefði verið 18 einingar á haustönninni en 9 einingar á vorönninni, þ.e. að hún hefði verið í fullu námi á haustönn en ekki á vorönn. Henni var því með bréfi dags. 3. september 2001 synjað um að fá greiddan hærri fæðingarstyrk vegna náms vegna þess að hún hefði ekki verið í 75-100% námi og uppfyllti ekki skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof um 6 mánaða samfellt nám. Henni yrði greiddur fæðingarstyrkur foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Samkvæmt staðfestingu frá B, aðstoðarskólameistara dags. 6. september 2001 var hún einungis með 9 einingar í stundatöflu á síðustu önn vegna þess að hún hefur lokið stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í E, er þar af leiðandi búin með allt bóklegt nám við deildina og gat þar af leiðandi ekki fengið fleiri einingar inn í stundatöflu.

Í 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) segir m.a.:

"Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks..."

Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er nánar fjallað um hvað sé fullt nám í skilningi laganna en þar segir m.a. í 1., og 2. mgr.:

"Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. ...

Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur."

Tryggingastofnun ríkisins telur samkvæmt framansögðu að A hafi ekki verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og að hún uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar fyrir því að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður. Það að hún var búin með allt bóklegt nám og gat þar af leiðandi ekki fengið fleiri einingar inn í stundatöfluna hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. nóvember 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2001, þar segir m.a.:

"Ég las í greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins að mér er greiddur fæðingarstyrkur foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Haustið 2000 hætti ég í fullu starfi hjá F til að fara í fullt nám í Iðnskólanum í D á útstillingarbraut. Var ég í fullu námi (18 einingum) haustönn 2000, en kom þá verkfall sem dró önnina fram í febrúarmánuð 2001. Að loknum prófum voru svo afhentar nýjar stundartöflur fyrir vorönn 2001. Kom þá í ljós að ég hafði lokið öllum bóklegum greinum sem mig vantaði til að ljúka útstillingarbrautinni. Tel ég mig samt enn stunda fullt nám, þó svo einingarnar séu bara 9 því ég tek öll þau fög sem boðið er upp á. Á þessum tíma var ég í aukavinnu hjá G (hef unnið þar í 7-8 ár) en vann einungis c.a. 10 tíma í mánuði (sjá launaseðla). Ég vann ekki meira vegna morgunógleði sem ég hafði fyrstu 5 mánuði meðgöngunnar (sjá skýrslu um líðan mína hjá Miðstöð mæðraverndar). Að loknum prófum í maí byrjaði ég svo í fullri vinnu hjá F og vann þar, þar til 3 vikum fyrir fæðingu barnsins.

Ég tel því ekki réttlátt að ég sé að fá greiddan fæðingarstyrk eins og ég sé utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Er skóli ekki metinn jafnt og starf?"

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í námi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Með hliðsjón af því að kærandi elur barn 14. ágúst 2001, er tólf mánaða viðmiðunartímabilið samkvæmt framangreindu frá ágúst 2000 til og með júlí 2001. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fullu námi haustönn 2000, en ekki á vorönn 2001 og uppfyllir því kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta