Viðbrögð UNESCO við Covid-19
Kristján Andri Stefánsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO sat í dag fjarfund Audrey Azoulay aðalframkvæmdastjóra UNESCO með fastafulltrúum aðildarríkjanna. Á fundinum var fjallað um viðbrögð UNESCO við Covid-19 heimsfaraldrinum, en stofnunin hefur staðið í ströngu síðastliðnar vikur við að aðstoða aðildarríkin á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála.
Lokanir skóla í mörgum löndum hafa haft áhrif á skólagöngu meira en 1,5 milljarðs barna og ungmenna. UNESCO hefur brugðist við ástandinu með því að beita sér fyrir stofnun alþjóðlegrar menntasamsteypu (Global Education Coalition) sem er samstarfsvettvangur fyrir opinbera aðila, fréttamiðla og einkaaðila, svo sem Google, Facebook og Zoom.
Menntasamsteypan vinnur að því að tryggja að börn og ungmenni geti alls staðar haldið áfram að mennta sig, m.a. með því að bjóða fram stafrænar lausnir og aðstoða ríki við að innleiða þær á ódýran hátt hvort sem er á sviði hátækni, lágtækni eða „tækni án tækni“ og að því að auðvelda endurkomu nemenda aftur í skólann þegar ástandinu linnir og koma í veg fyrir brotthvarf. Einnig starfar samsteypan að því að auka fjárfestingar í fjarnámi og þróa sveigjanlegri námskerfi fyrir framtíðina.