Endurhæfingarrými á Eir
Undirritaður hefur verið samstarfssamningur sem felur í sér að hjúkrunarheimilið Eir verði með 12 endurhæfingarrými fyrir aldraðra sjúklinga frá LSH sem þarfnast endurhæfingar eftir bráðameðferð vegna beinbrota eða eftir liðskiptaaðgerð.
Samstarfssamningurinn var undirritaður í gær af forsvarsmönnum hjúkrunarheimilisins Eirar og Landspítala-háskólasjúkrahúss og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Hann tekur annars vegar til meðferðar og endurhæfingar aldraðra sjúklinga frá LSH sem leitað hafa þangað vegna beinbrota og hins vegar til meðferðar og endurhæfingar einstaklinga eldri en 75 ára sem farið hafa í liðskiptaaðgerð.
Á hverjum degi leitar fjöldi sjúklinga til LSH vegna margvíslegra brota og vegna liðskiptaaðgerða. Endurhæfing aldraðra tekur nokkrar vikur eftir að bráðameðferð slíkra brota lýkur en ekki er nauðsynlegt að öll endurhæfingin fari fram á LSH. Samstarfssamningurinn tekur mið af ákvæðum 1. greinar laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 þar sem kveðið er á um að aldraðir skuli eiga völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Samstarfssamningurinn stuðlar einnig að því markmiði að alltaf séu næg rými tiltæk fyrir bráðaþjónustu LSH.
Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða munu aðilar samstarfssamningsins fara yfir stöðu verkefnisins í október 2007 og í maí og október 2008 og verður þá jafnframt tekin afstaða til endurnýjunar samstarfssamningsins.
Samningurinn tekur gildi 25. apríl 2007 og gildir til 31. desember 2008.
(pdf 16KB opnast í nýjum glugga)