Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Þjónustusamningur við SÁÁ

Náðst hefur samkomulag milli Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Fjármálaráðuneytisins annars vegar og Samtaka áhugafólks um áfengisvandann (SÁÁ) hins vegar um að framlengja þjónustusamning, sem undirritaður var 29. október 2002 um rekstur sjúkrasviðs SÁÁ til ársloka 2007.

Upphaflegur gildistími þjónustusamningsins var frá 1. janúar 2002 til 31. desember 2005 en SÁÁ hefur annast þjónustu í samræmi við ákvæði samningsins á gildistíma samningsins sem og frá 1. janúar 2006 og hefur þegar verið greitt í samræmi við ákvæði þess samnings.

Til viðbótar við þjónustu samkvæmt samningnum hefur þjónusta vegna opíum-fíkla verið aukin svo og göngudeildarþjónusta. Þá hefur húsnæðiskostnaður hækkað sbr. lög nr. 140/2005 um breytingu á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en í þeim fólst m.a. að undanþágur fasteignaskatta vegna sjúkrahúsa eru afnumdar í skrefum. Samkomulag er um að mæta ofangreindum kostnaði svo og veikleika í rekstri áranna 2006-2007 með eingreiðslu að fjárhæð 80 m.kr. sem innt verður af hendi við undirritun viðauka við þjónustusamninginn í næstu viku.

Áfram verður unnið að endurskoðun þjónustusamningsins með vísan til reglugerðar nr. 343/2006 um samninga um rekstrarverkefni sem ráðuneyti og ríkisstofnanir gera til lengri tíma en eins árs og stefnt að því að nýr þjónustusamningur taki gildi í ársbyrjun 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta