Þjónustusamningur við SÁÁ framlengdur
Í dag var undirritað samkomulag um að framlengja þjónustusamning milli Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Fjármálaráðuneytisins annars vegar og Samtaka áhugafólks um áfengisvandann (SÁÁ) hins vegar. Með samningnum framlengist eldri þjónustusamningur um rekstur sjúkrasviðs SÁÁ til ársloka 2007.
Upphaflegur þjónustusamningur var frá 1. janúar 2002 til 31. desember 2005 en SÁÁ hefur annast þjónustu í samræmi við ákvæði samningsins allar götur síðan og hefur verið greitt í samræmi við ákvæði hans.
Til viðbótar þeirri þjónustu sem samið var um í eldri samningi hefur göngudeildarþjónusta og þjónusta vegna opíumfíkla verið aukin. Húsnæðiskostnaður hefur einnig hækkað því með breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 140/2005 voru undanþágur fasteignaskatta vegna sjúkrahúsa afnumdar í skrefum. Í hinum framlengda samningi er samkomulag um að mæta ofangreindum kostnaði og einnig veikleika í rekstri áranna 2006-2007 með eingreiðslu að fjárhæð 80 m.kr. sem innt var af hendi við undirritun þjónustusamningsins.
Endurskoðun þjónustusamningsins verður haldið áfram og er stefnt að því að nýr þjónustusamningur taki gildi
í ársbyrjun 2008.
Það voru þau Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra og Arnþór Jónsson varaformaður SÁÁ sem skrifuðu undir samninginn. |