Hoppa yfir valmynd
4. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgangur tryggður að bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu

Við undirritun samnings um bóluefni vegna heimsfaraldurs inflúensu
Hjörleifur Þórarinsson og Sigríður Jakobínudóttir frá GSK, Siv Friðleifsdóttir og Haraldur Briem sóttvarnarlæknir.

Í dag undirritaði Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra samning við lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline (GSK) um að fyrirtækið tryggi Íslendingum 300 þúsund skammta af bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu til ársins 2011. Af hálfu GSK ritaði Hjörleifur Þórarinsson framkvæmdastjóri GSK á Íslandi undir samninginn.

Samningurinn er samhljóða samningi sem dönsk stjórnvöld hafa gert við GSK og er kostnaður íslenskra stjórnvalda vegna hans um 19,5 mkr. á þessu ári og 19,5 mkr. á því næsta. Það jafngildir því að greiddar eru um 130 krónur (1,5 evrur) á hvern skammt til að tryggja að bóluefnið verði til reiðu ef á þarf að halda næstu fimm árin. Í samningnum er einnig samið um fast verð á hvern bóluskammt sem er um 600 krónur (7 evrur).

Samningurinn við GSK er liður í undirbúningi sem íslensk stjórnvöld hafa unnið að síðustu ár vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint núverandi ástand sem viðbúnaðarstig og hvatt þjóðir heims til að huga að viðbúnaðaráætlunum við heimsfaraldri inflúensu. Mikilvægur liður í slíkum viðbúnaði er að tryggja landsmönnum bóluefni ef á þarf að halda. Þar sem ekki er vitað fyrirfram hvaða inflúensustofn muni valda næsta heimsfaraldri er nauðsynlegt að tryggja aðgang að bóluefni eins skjótt og við verður komið, en gera má ráð fyrir að það muni taka 3-6 mánuði að framleiða bóluefnið.

Þess má geta að gerðir hafa verið samningar um kaup á inflúensulyfjum, dreypilyfjum og hlífðarbúnaði vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Einnig er unnið að því að tryggja nægar birgðir af nauðsynlegustu lyfjum í landinu til að standast alvarlegan heimsfaldur á borð við inflúensu.

Framkvæmd samningsins við GlaxoSmithKline verður á höndum sóttvarnalæknis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta