Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundur fjármálaráðherra í ríkjum ESB, Ecofin og EFTA: Samhæfðar aðgerðir forsenda árangurs gegn kórónuveiru

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - myndGolli
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sat í dag árlegan fund ráðherra fjármála- og efnahagsmála í ríkjum Evrópusambandsins, Ecofin, og EFTA. Meginefni fundar ráðherranna var viðsnúningur hagkerfis Evrópu eftir kórónuveirufaraldurinn, en auk þess var rætt um stöðu og horfur efnahagsmála í ríkjum EFTA og ESB.

„Síðustu mánuðir hafa sýnt hversu samtvinnuð hagkerfi Evrópuríkja eru og einnig fram á nauðsyn alþjóðlegs samstarfs. Það á ekki síst við þegar horft er til þess krefjandi vetrar sem er fram undan og þeirrar viðspyrnu sem við sjáum vonandi fram á að honum loknum. Samhæfðar aðgerðir í heilbrigðismálum eru forsenda þess að hægt verði að opna landamæri að nýju og snúa aftur til þess daglega lífs sem við eigum að venjast,“ sagði Bjarni á fundinum.

Hann fór yfir stöðu mála á Íslandi vegna Covid-19 faraldursins, m.a. áhrifin af mikilli fækkun ferðamanna. Íslendingar njóti góðs af því að hafa fylgt ábyrgri efnahagsstefnu, m.a. með niðurgreiðslu opinberra skulda, söfnun gjaldeyrisvaraforða og aðgerðum til að koma í veg fyrir óstöðugt flæði erlends fjármagns inn í landið, sem reynst hafi dýrkeypt eftir hrun fjármálakerfisins 2008. Bjarni benti á að skuldir hafi lækkað úr 92% af landsframleiðslu í 36% síðustu átta árin fyrir heimsfaraldurinn. „Við sjáum einnig hversu mikilvægt var að vera búin að gjörbylta íslenska fjármálakerfinu. Eiginfjárhlutfall íslensku bankanna er nú yfir 20% og þeir vel í stakk búnir til að bregðast við lakara efnahagsástandi,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagðist um þessar mundir hafa mestar áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi, sem væri mikilvægt að vinna gegn. Hann fór yfir efnahagsaðgerðir stjórnvalda til að bregðast við faraldrinum, m.a. með hlutabótum, lokunarstyrkjum, lánum til fyrirtækja með ríkisábyrgð og umfangsmikilli opinberri fjárfestingu. Þessar aðgerðir, ásamt sjálfvirkum sveiflujöfnurum ríkisfjármálanna hefðu leitt til verri stöðu opinberra fjármála og fyrirsjáanlegur væri hallarekstur næstu árin. „Við þær aðstæður sem nú eru uppi er þessi halli hins vegar nauðsynlegur svo hægt sé að styðja við heimili og fyrirtæki sem aftur ýtir undir hagvöxt inn í framtíðina,“ sagði Bjarni. Þar sé mikilvægast að efla rannsókna- og þróunarstarfsemi og opinbera tækniinnviði, þar sem bættir stafrænir innviðir leiki lykilhlutverk. Einnig sé mikilvægt að hvetja til fjárfestingar í einkageiranum. „Við erum að leita leiða til að auka græna fjárfestingu fyrirtækja með sérstökum skattaafslætti á græna fjárfestingu í kreppunni,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta