Hvatning á degi gegn einelti
„Vinaliðaverkefnið hefur reynst vel í fjölmörgum íslenskum skólum sem forvarnarverkefni er hvetur nemendur til virkrar þátttöku í frímínútum. Við vitum hversu dýrmætt það er að nemendum líði vel í skólanum – ég tel að það sé augljós fylgni milli þess að líða vel og ganga vel. Ég vil óska aðstandendum verkefnisins og öllum vinaliðum landsins til hamingju með þessa viðurkenningu og þakka fyrir þeirra góða starf,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Vinaliðaverkefnið hefur verið innleitt í 46 íslenskum skólum en það er norskt að uppruna. Vinaliðar eru nemendur í 4. til 6. bekk sem veljast til þess að skipuleggja, taka þátt og aðstoða samnemendur sína við afþreyingu og leiki í frímínútum. Þeir gæta þess að engir nemendur séu einir eða út undan í frímínútum og láta vita ef þau verða vitni að einelti eða útilokun. Í verkefninu fá vinaliðar einnig stuðning og leiðsögn til þess að sinna hlutverki sínu sem best.
Menntamálastofnun sendir árlega út hvatningarbréf til skóla, í tengslum við alþjóðlegan dag gegn einelti þann 8. nóvember, þar sem skólasamfélagið er hvatt til að taka saman höndum gegn einelti og stuðla að jákvæðum samskiptum. Menntamálastofnun mun á næstunni opna upplýsingasíðu um einelti þar sem fagfólk, foreldrar og ungmenni geta nálgast gögn og góð ráð.