Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2020 - Úrskurður

Mál nr. 1/2020

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Reykjavíkurborg

 

Ráðning í starf. Hæfnismat. Kærufrestur. Frávísun.

Kærandi, sem er karl, kærði ráðningu í starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringar hjá Reykjavíkurborg en hann taldi sig hæfari en kona sem ráðin var. Þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, var henni vísað frá nefndinni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 6. febrúar 2020 er tekið fyrir mál nr. 1/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 16. janúar 2020, kærði A ákvörðun Reykjavíkurborgar um að ráða konu í starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringar. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. janúar 2020, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina frekari skýringum í tengslum við kærufrest. Kærandi sendi nefndinni samdægurs frekari skýringar með bréfi.

     

     

    MÁLAVEXTIR

  4. Kærði auglýsti laust starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs í byrjun mars 2019. Alls bárust 11 umsóknir og var kærandi meðal umsækjenda um starfið. Tekin var ákvörðun um að ráða konu í starfið. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni með bréfi, dagsettu 30. maí 2019, og var hann veittur með bréfi kærða, dagsettu 14. júní 2019, sem mun hafa borist kæranda 18. júní 2019.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  5. Kærandi lætur þess getið í upphafi kæru sinnar að hann geri sér grein fyrir því að sex mánaða kærufrestur hafi verið liðinn þegar hann sendi inn kæru í málinu. Ástæða þess að hann hafi ekki leitað til kærunefndarinnar fyrr hafi verið sú að vegna hagsmuna hans í umsóknarferli um aðrar stöður hafi hann ekki talið sig vera í aðstöðu til að koma kæru sinni á framfæri fyrir þann tíma þar sem það hefði getað haft neikvæðar afleiðingar í för með sér í því matsferli. Þótt meðferð mála hjá kærunefndinni sem og birting úrskurða sé án nafnabirtingar hafi verið nokkuð almenn vitneskja um umsækjendur, enda hafi listinn verið birtur. Kærandi óski eftir því að þessar aðstæður verði metnar honum í hag fremur en kærða og að málið verði tekið til efnismeðferðar af hálfu nefndarinnar.
  6. Í síðari skýringum til kærunefndar segir kærandi að þegar hann hafi verið upplýstur um hver hefði verið valinn í starfið hafi honum jafnframt verið bent á ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um nánari rökstuðning sem og heimild til þess að óska eftir þeim gögnum sem hafi legið til grundvallar valinu. Það hafi kærandi gert með bréfi, dagsettu 30. maí 2019. Hann hafi fengið rökstuðning kærða í hendur 18. júní 2019. Í bréfi kærða hafi aftur á móti hvergi verið getið um heimild til að bera niðurstöðuna undir önnur stjórnvöld, hvorki umboðsmann Alþingis né kærunefnd jafnréttismála, né heldur hvaða kærufrestir hafi verið gildandi. Þetta telji kærandi vera brot á leiðbeiningarskyldu kærða með tilvísan til ákvæða stjórnsýslulaga um rétta og eðlilega málsmeðferð.
  7. Kærandi hafi gert sér grein fyrir þessum annmarka á kæru sinni eftir að hann hefði af öðru tilefni rekist á ákvæðið um sex mánaða kærufrest, en óskað eftir því að tekið yrði tillit til þeirra aðstæðna sem hann hafi verið í á þessum tíma með tilvísun í ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi verið að sækja um nokkrar lausar stöður og óttast að kæra á þeim tímapunkti gæti skaðað hagsmuni hans í því viðkvæma ferli sem fylgi slíku hæfnismati og ráðningum. Þá sé jafnframt ljóst að hefði kæranda verið leiðbeint af hálfu kærða um þá tímafresti sem fylgi kæruheimildinni hefði hann vafalaust þurft að endurmeta þessa stöðu og tekið aðra ákvörðun.
  8. Þá telji kærandi að það geti varðað mikilvæga almannahagsmuni að málið verði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem þetta sé ekki í fyrsta sinn sem kærði hafi sætt kæru vegna brota á ákvæðum jafnréttislaga í nokkuð hliðstæðu máli. Svo sé ekki að sjá að kærði hafi, að mati kæranda, dregið einhvern lærdóm af þeim athugasemdum sem gerðar hafi verið.

    NIÐURSTAÐA

  9. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Í 3. mgr. 6. gr. laganna er mælt fyrir um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að ætlað brot á lögunum hafi legið fyrir, frá því að því ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar hafi fengið vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Erindi telst nægjanlega snemma fram komið ef bréf sem hefur það að geyma hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn.
  10. Í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 var hinn sex mánaða kærufrestur ákvæðisins liðinn þegar kærandi sendi kærunefndinni kæru sína, eins og kærandi víkur raunar sjálfur að í málatilbúnaði sínum. Við slíkar aðstæður leiðir 1. málsliður 3. mgr. 6. gr. laganna, sbr. einnig 2. málslið, almennt til frávísunar á kæru. Samkvæmt 3. málslið 3. mgr. 6. gr. getur kærunefndin þó þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Við mat á því hvort beita eigi þessari reglu verður að líta til þess að hún er undantekning frá almennri reglu 1. málsliðar 3. mgr. 6. gr. laganna. Þá getur kærunefndin ekki fallist á það með kæranda að síðari umsóknir hans um störf á öðrum vettvangi geti réttlætt það að málskot til nefndarinnar dragist umfram hinn almenna kærufrest. Þannig telur kærunefndin ekki unnt að leggja til grundvallar að málsmeðferð fyrir nefndinni hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir kæranda í alls óskyldu ráðningarferli. Hið sama á við um það sjónarmið kæranda að hann kynni að hafa tekið aðra ákvörðun og sett fram kæru fyrr ef kærði hefði upplýst hann sérstaklega um heimild til að senda inn kæru til kærunefndarinnar sem og frest í þeim efnum. Þessi málatilbúnaður kæranda er raunar í nokkurri mótsögn við fyrra sjónarmið hans sem lagt var upp með í kæru hans, en það fólst einungis í því að hann hefði haldið að sér höndum við að senda inn kæru af þeirri ástæðu að slík kæra gæti haft neikvæðar afleiðingar við umsókn í öðru starfi. Loks getur skírskotun kæranda til þess að kærði hafi áður gerst brotlegur við lög nr. 10/2008 ekki haft í för með sér að nefndin víki frá almennum og lögbundnum kærufresti til framtíðar í málum sem varða kærða. Heilt á litið þá telur nefndin að ekki standi svo sérstaklega á í máli kæranda að fallast beri á beiðni hans um að kæran verði tekin til efnismeðferðar að liðnum almennum kærufresti. Þegar af þeirri ástæðu verður máli kæranda vísað frá nefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta