Nr. 324/2017 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 324/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17040023
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 13. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar frá 28. mars 2017 um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð en litið verður svo á að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. mars 2017, kom fram að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og eiginmaður hennar í hjúskap í [...] þann 23. apríl 2015. Með fyrrnefndri ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskaparins. Kærandi kærði ákvörðunina þann 13. apríl 2017 til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda vegna málsins.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga væri heimilt að synja umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar m.a. ef rökstuddur grunur væri um að hjúskapurinn hefði verið stofnaður til málamynda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var m.a. horft til þess að kærandi hefði sterk fjölskyldutengsl við Ísland auk þess sem 25 ára aldursmunur væri á henni og eiginmanni hennar. Eiginmaður kæranda væri jafnframt náinn föðursystur kæranda sem væri búsett hér á landi. Þá hefði nokkurt misræmi verið á milli kæranda og eiginmanns hennar í viðtölum hjá Útlendingastofnun, t.a.m. varðandi menntun kæranda og atvinnu hennar. Var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að um málamyndahjúskap væri að ræða, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, og var umsókn kæranda um dvalarleyfi því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð í málinu.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði eiginmaður kæranda fram andmæli fyrir hönd þeirra en þar kemur m.a. fram að hann hafi átt í sambandi við föðursystur kæranda fyrir 20 árum. Sambandið hafi ekki gengið en hann sé enn náinn föðursystur kæranda og syni hennar.
Fram kemur að eiginmaður kæranda hafi ekki verið öruggur með að giftast kæranda vegna 25 ára aldursmunar en ástin hafi verið svo mikil. Í framhaldinu rekur eiginmaður kæranda ýmis atriði til skýringar á framburði sínum í viðtali hjá Útlendingastofnun og varða misræmi í framburði hans og kæranda, m.a. um tíðni samskipta milli þeirra og menntun kæranda.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Í 70. gr. laga um útlendinga er að finna ákvæði um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Þar er m.a. mælt fyrir um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Sambúðin skal hafa varað lengur en eitt ár. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé og veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis.
Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. þegar metið sé hvort grunur sé um málamyndahjúskap sé m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þurfi þó að taka tillit til þess að mismunur geti verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna á hvort öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar geti ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verði fleira að koma til sem bendi til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Þá geti þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur sé um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.
Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með umsókn dags. 4. apríl 2016. Samkvæmt gögnum sem þá lágu fyrir er 25 ára aldursmunur á kæranda og eiginmanni hennar. Fylgigögn með umsókn kæranda bera með sér að eiginmaður kæranda tali ekki [...] og að kærandi væri ekki mjög vel mælt á ensku. Þá bentu gögn málsins ekki til þess að kærandi og eiginmaður hennar hefðu búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Að mati kærunefndar var tilefni fyrir Útlendingastofnun að afla frekari gagna um hjúskap kæranda og eignmanns hennar með það að markmiði að upplýsa hvort rökstuddur grunur væri um að til hjúskapar eða sambúðar hefði verið stofnaði í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis.
Vegna umsóknar sinnar var kærandi boðuð í viðtal hjá Útlendingastofnun. Þar greindi hún frá því að systir hennar og föðursystir væru búsettar hér á landi. Í viðtali hjá stofnuninni kvaðst eiginmaður hennar hafa verið í sambandi með föðursystur kæranda fyrir 20 árum en að þau væru ekki saman í dag. Af viðtalinu er ljóst að eiginmaður kæranda hefur nokkuð náin tengsl við föðursystur kæranda, son hennar og barnabörn. Þá liggja fyrir í gögnum málsins ljósmyndir af samfélagsmiðlum af eiginmanni kæranda og föðursystur hennar frá árunum 2014 og 2015, en af myndunum, og athugasemdum við þær, virðist mega draga þá ályktun að eiginmaður kæranda og föðursystir hennar hafi verið í sambandi á þeim tíma. Aðspurður um þetta atriði hjá Útlendingastofnun kvað eiginmaður kæranda að um grín væri að ræða. Þá kom fram í svörum kæranda í viðtali hjá stofnuninni að eiginmaður hennar og föðursystir væru búin að vera vinir lengi og þekktust mjög vel. Í viðtalinu greindi kærandi svo fyrst frá því að þau hefðu aldrei verið saman en síðar að þau hefðu verið saman fyrir löngu síðan. Föðursystir hennar væri í sambandi með manni í byggi í [...] og að hún færi oft til hans.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun kom fram hjá kæranda að þau hefðu kynnst í gegnum ferðir eiginmanns hennar til [...] ásamt systur hennar og föðursystur. Þau hefðu farið að hittast og síðar átt samskipti í gegnum síma og Skype, stundum á hverjum degi eða annan hvern dag. Kærandi sagði samskiptin hafa farið fram á ensku, en að hún talaði ekki mjög góða ensku og því notuðu þau stundum táknmál. Eiginmaður hennar hefði komið fjórum sinnum í heimsókn til [...] áður en þau hefðu gift sig, í um mánuð í hvert skipti, og að hann hefði gist heima hjá kæranda meðan hann hefði dvalið í landinu.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst eiginmaður kæranda hafa kynnst kæranda fyrir 3-4 árum í gegnum móður hennar, sem hefði verið honum innan handar á ferðum hans í [...]. Sagði eiginmaður kæranda m.a. að það væri gott á milli þeirra en að það væri erfitt að tjá sig, kærandi skildi hann ef hann færi rólega af stað og gerði smá handbragð. Aðspurður um hversu oft hann og kærandi hefðu talað saman svaraði eiginmaður kæranda því til að það hefði ekki verið meira en einu sinni í mánuði. Taldi eiginmaður kæranda að kærandi hefði ekkert verið að „pæla“ í honum. Hann hefði „pælt“ meira í henni en alltaf verið að spá í aldrinum. Þá kvaðst eiginmaður kæranda ekki hafa gist mikið hjá kæranda í [...], hann hefði aðallega gist hjá föðursystur kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda og eiginmanni hennar hafi ekki borið saman um atriði sem tengjast lífi hvors annars, þ.á m. um menntun og starf kæranda, auk atriða sem tengdust heimilishaldi þeirra hér á landi.
Í greinargerð sem eiginmaður kæranda lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun kom fram að þegar hann hefði verið spurður um samskipti hans við kæranda hjá Útlendingastofnun hefði hann hugsað til fyrstu kynna. Fyrst hefðu samskiptin verið einu sinni i mánuði en síðan hefði áhugi þeirra hvort á öðru orðið meiri. Þá kom einnig fram að misræmi í viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun um menntun kæranda mætti rekja til þess að menntakerfið í [...] væri frábrugðið því íslenska.
Fyrir liggur að eiginmaður kæranda á í nánu sambandi við föðursystur kæranda, son hennar og barnabörn, sem eru búsett hér, auk þess sem kærandi á systur hér á landi. Var eiginmaður kæranda því í tengslum við fjölskyldu kæranda áður en til hjúskapsins var stofnað. Að mati kærunefndar hefur ákveðið ósamræmi komið fram í lýsingum kæranda og eiginmanns hennar af sambandi kæranda við föðursystur hennar, þ.m.t. af því hvort eiginmaður kæranda hafi dvalið hjá kæranda eða föðursystur hennar á ferðum í [...] og hvers eðlis samband þeirra hefur verið. Af viðtölum við Útlendingastofnunar við kæranda og eiginmann hennar er jafnframt ljóst að þeim ber ekki saman um ýmis atriði sem tengjast m.a. kynnum þeirra, tíðni samskipta milli þeirra og ferðalögum eiginmanns kæranda í [...]. Þá þekkti eiginmaður kæranda ekki til mikilvægra atriða úr lífi kæranda, varðandi menntun hennar og atvinnu. Þá kom fram að þau ættu í erfiðleikum með að tjá sig við hvort annað þar sem kærandi talaði ekki góða ensku og að samskipti færu að einhverju leyti fram með táknmáli.
Að virtum tengslum kæranda við landið, sambands eiginmanns hennar við föðursystur kæranda og fjölskyldu hennar hér á landi, takmarkaðrar getu kæranda og eiginmanns hennar til að eiga samskipti sín á milli, aldursmunar á milli þeirra og misræmis í framburði þeirra hjá Útlendingastofnun um fjölmörg atriði verður fallist á með Útlendingastofnun að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærandi og eiginmaður hennar hafi stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Er það mat kærunefndar að kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki fært fram trúverðugar skýringar á framangreindu misræmi eða að öðru leyti sýnt með óyggjandi hætti fram á að til hjúskapar þeirra hafi ekki verið stofnað í framangreindum tilgangi. Samkvæmt framansögðu verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason