Hoppa yfir valmynd
12. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 411/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 411/2019

Fimmtudaginn 12. desember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. október 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dagsett sama dag, um 47% bótarétt og að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 6. ágúst 2019. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vinnuveitandavottorð þar sem fram kemur að kærandi hafi sjálf sagt upp starfi sínu hjá B. Í skýringum kæranda á uppsögn kemur fram að hún hafi flutt í annað sveitarfélag. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. október 2019, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur væri metinn 47%. Með vísan til starfsloka hennar hjá B væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. október 2019. Með bréfi, dags. 9. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. október 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. október 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi einungis verið metin 47% en hún geri ráð fyrir að það sé vegna starfshlutfalls undanfarin misseri. Ekki sé tekið tillit til þess að kærandi hafi verið í 100% háskólanámi samhliða og vinnan í raun aukaatriði. Þetta hljóti því að vera rangt reiknað. Námi kæranda hafi vissulega ekki lokið með háskólagráðu þar sem hún hafi flutt með fjölskyldu sína út á land. Kærandi hafi ekki getað stundað staðnám í Reykjavík og ekki komist inn í fjarnám í öðrum skóla eins og hún hafi hugsað sér en ætli að sækja um aftur. Kæranda finnist skrýtið að ekki hafi verið tekið tillit til námsins í umsókn hennar og því vilji hún að umsóknin verði tekin upp aftur með tilliti til námsins. Hvað varðar tveggja mánaða biðtímann finnist kæranda ótrúlegt að búferlaflutningur í um það bil 50 kílómetra fjarlægð frá vinnustaðnum sé ekki tekið sem gild ástæða fyrir því að segja upp starfinu, sérstaklega þar sem hún eigi þrjú börn, sjö ára og yngri. Ef eitthvað komi upp á hjá þeim, svo sem veikindi eða slys, sé ekki hægt að bjóða þeim upp á að hún eða allt annað bakland sem þau hafi sé í tæpan klukkutíma að komast til þeirra. Kærandi sakni fyrrum vinnustaðar mjög mikið og það hafi ekki verið auðvelt að segja stöðu sinni lausri. Það hafi verið gert af illri nauðsyn barnanna vegna.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í greinargerð með frumvarpi því, sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar, sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf sé ekki í boði. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerðinni sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum, séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik verið talin falla þar undir. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir á því hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun vísar til þess að tilgangur laga nr. 54/2006 sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Ljóst sé að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Ágreiningur málsins lúti að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar komi fram að hún hafi sagt starfi sínu lausu vegna þess að hún hafi flutt á C. Þá komi fram að hún eigi þrjú ung börn og geti ekki sótt vinnu svo langt frá dagvistun þeirra. Vinnumálastofnun tekur fram að búferlaflutningar hafi einir og sér ekki talist gild ástæða fyrir uppsögn á starfi í skilningi laga nr. 54/2006, enda hafi kærandi sjálf tekið ákvörðun um að flytja búferlum. Þar að auki, í ljósi d- og e-liða 14. gr. laga nr. 54/2006, fallist Vinnumálastofnun ekki á að lengd frá vinnustað kæranda hafi verið nægjanleg ástæða fyrir uppsögn í skilningi 1. mgr. 54. gr., enda ekki óvanalegt að fólk með heimilisfesti á C sæki vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi hafi sjálf tekið ákvörðun um að flytja búferlum og segja upp starfi sínu en fyrir liggi að búferlaflutningar hafi ekki verið tilkomnir vegna starfa maka kæranda, enda starfi hann enn í Reykjavík. Ekki verði fallist á að aðrar ástæður er kærandi hafi fært fram í máli sínu geti talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006.  

Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi einnig kröfu um það að háskólanám það sem hún hafi stundað við D komi til ávinnslu bótaréttar. Meðal fylgigagna með umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið skólavottorð þar sem fram komi að kærandi hafi stundað nám við D frá ágúst 2018 til maí 2019. Í vottorði segi að kærandi hafi lokið 54 af nauðsynlegum 180 ECTS einingum og að hún sé hætt námi. Vinnumálastofnun vísar til þess að í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ávinnslutímabil og ávinnslu bótaréttar launamanna. Í 3. mgr. 15. gr. sé mælt fyrir um heimild til að meta námsþátttöku atvinnuleitenda til hækkunar á tryggingarhlutfalli hans. Ákvæðið heimili stofnuninni að meta nám á bótatímabili umsækjanda til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi við mat á bótarétti. Heimild þessi geti því hækkað bótarétt umsækjanda um atvinnuleysisbætur um 25 %. Af ákvæðinu sé ljóst að hækkun á bótahlutfalli launamanns komi einungis til skoðunar hafi atvinnuleitandi sannanlega lokið námi sínu og að umsækjandi framvísi vottorði frá skóla þar sem fram komi að viðkomandi hafi stundað nám og lokið því.  Samkvæmt fyrirliggjandi skólavottorði hafi kærandi hætt í námi sínu án þess að ljúka því. Að mati Vinnumálastofnunar sé því ekki heimilt að meta nám kæranda til hækkunar á bótarétti á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé jafnframt afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki tilkall til þess að nám hennar við D verði metið til ávinnslu bótaréttar. 

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um 47% bótarétt kæranda og að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 3. mgr. 15. gr. kemur fram að nám, sbr. c-lið 3. gr., sem launamaður hafi stundað í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar svari til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í að minnsta kosti þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skuli fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram komi að launamaður hafi stundað námið og lokið því.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar vísar kærandi til þess að hún hafi verið í 100% háskólanámi og því hljóti bótaréttur hennar að vera rangt reiknaður. Samkvæmt gögnum málsins stundaði kærandi nám við D skólaárið 2018-2019. Kærandi lauk 54 ECTS einingum af nauðsynlegum 180 ECTS einingum en er nú hætt námi. Að því virtu kemur nám kæranda ekki til hækkunar á bótahlutfalli hennar.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir á því hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi sagt upp starfi sínu vegna flutnings til C. Hún eigi þrjú ung börn og geti ekki sótt vinnu svo langt frá þeim. Samkvæmt framangreindum skýringum ákvað kærandi að flytja til C sem varð þess valdandi að hún sagði upp starfi sínu í Reykjavík. Líkt og fram hefur komið eru gerðar ríkar kröfur um ástæður uppsagnar og hafa búferlaflutningar fjarri vinnustað ekki verið talin gild ástæða. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilgreindar ástæður kæranda fyrir starfslokum hennar séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu bar kæranda að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 47% bótarétt kæranda og að fella niður rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. október 2019, um 47% bótarétt A og að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta