Hoppa yfir valmynd
6. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                               

Miðvikudaginn 6. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 8/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 3. febrúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Kópavogsbæjar að endurkrefja kæranda um fjárhagsaðstoð sem hún þáði frá 1. október til 31. desember 2014.


I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ með umsókn, dags. 14. október 2014. Kærandi fékk greidda fjárhagsaðstoð frá 1. október 2014 til 31. desember 2014 á meðan umsókn hennar um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins var í vinnslu og var aðstoðin tilgreind sem framfærslulán á greiðslubeiðni. Í janúar 2015 fékk kærandi samþykktan örorkulífeyri aftur í tímann frá 1. nóvember 2014 og í kjölfarið var lán kæranda gert upp.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 3. febrúar 2015 þar sem hún var ósátt við að fjárhagsaðstoðin hafi verið í formi láns en ekki styrks. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25. febrúar 2014, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar og bárust athugasemdir frá kæranda 26. og 27. febrúar 2015 og 1. og 5. mars 2015.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi leitað til Kópavogsbæjar vegna fjárhagsaðstoðar á meðan umsókn hennar um örorkulífeyri hafi verið í vinnslu hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hún hafi rætt við félagsráðgjafa í síma og fengið þær upplýsingar að hún gæti fengið styrk á meðan umsókn hennar væri í vinnslu. Kærandi hafi síðan rætt við annan ráðgjafa sem hafi tjáð henni að hún fengi ekki styrk heldur lán og þyrfti því að greiða til baka það sem hún fengi umfram greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins en öðru yrði breytt í styrk. Félagsráðgjafinn hafi bent henni að sækja um sjúkradagpeninga en hafi ekki greint henni frá því að hún þyrfti að endurgreiða þá fjárhæð. Ef hún hefði haft þá vitneskju hefði hún ekki sótt um sjúkradagpeninga. Kærandi tekur fram að hún hafi gert þau mistök að greiða inn á lánið 230.000 krónur og þá hafi eftirstöðvar lánsins verið 31.000 krónur. Síðar hafi komið í ljós að skuldin væri að fjárhæð 174.000 krónur sem hún sé ekki sátt við.

Kærandi bendir á að hún hafi boðið félagsráðgjafanum að nálgast alla pappíra hjá Tryggingastofnun og því hefði verið hægt að sjá þær greiðslur sem hún hafi fengið frá B. Kærandi er ósátt við að hafa fengið mismunandi upplýsingar frá félagsráðgjöfum Kópavogsbæjar og telur sig ekki þurfa að endurgreiða fjárhagsaðstoðina.


III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi haft samband við vakthafandi félagsráðgjafa þann 8. september 2014 og greint frá því að hún væri atvinnulaus en fengi atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Hún væri þó óvinnufær og ætlaði að sækja um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi hafi haft samband til að vera viss um að hún fengi fjárhagsaðstoð á meðan umsókn hennar væri í vinnslu hjá Tryggingastofnun. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir að framfærslulán, sem hún væri að greiða af hjá Kópavogsbæ, yrði fryst á meðan umsóknin væri í vinnslu. Óskað hafi verið eftir viðeigandi gögnum vegna fyrirspurnar kæranda og hún hafi í framhaldinu fengið viðtalstíma hjá félagsráðgjafa með það að markmiði að fara betur yfir stöðu hennar og meta rétt hennar til fjárhagsaðstoðar.

Kærandi hafi komið í viðtal til félagsráðgjafa þann 18. september 2014 en þá hafi hún ekki verið búin að afskrá sig hjá Vinnumálastofnun og því enn með greiðslur þaðan. Í viðtalinu hafi kærandi verið hörð á því að vakthafandi ráðgjafi hefði tjáð henni að hún gæti sótt um framfærslustyrk á meðan umsókn hennar væri í vinnslu hjá Tryggingastofnun. Félagsráðgjafinn hafi hins vegar sagt henni að samkvæmt reglum væri fjárhagsaðstoð veitt í formi framfærsluláns þegar einstaklingar væru með umsóknir til vinnslu hjá öðrum stofnunum en ekki í formi framfærslustyrks. Ef líkur væru á því að viðkomandi fengi tekjur fyrir sama tímabil og hann sæki um fjárhagsaðstoð væri fjárhagsaðstoð alltaf veitt í formi láns. Verklagið hafi verið útskýrt nánar fyrir kæranda og henni tjáð að hún gæti sótt um framfærslulán þegar hún væri búin að afskrá sig hjá Vinnumálastofnun. Félagsráðgjafinn hafi einnig bent kæranda á að kanna réttindi sín til greiðslu sjúkradagpeninga, bæði hjá Sjúkratryggingum Íslands og stéttarfélagi. Þá hafi ráðgjafinn tekið fram að ef síðar kæmi í ljós að tekjur hennar, fyrir það tímabil sem hún fengi framfærslulán, væru umfram upphæð lánsins bæri henni að greiða allt lánið til baka, sbr. framfærsluviðmið skv. 15. gr. reglna sveitarfélagsins.

Í október 2014 hafi kærandi afskráð sig hjá Vinnumálastofnun og sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun. Hún hafi jafnframt sótt um framfærslulán hjá Kópavogsbæ vegna októbermánaðar og að hennar beiðni hafi afborganir vegna framfærsluláns frá árinu 2012 verið frystar til 1. janúar 2015. Kærandi hafi fengið framfærslulán fyrir október, nóvember og desember 2014, samtals að fjárhæð 439.476 krónur en eldra lán hennar hafi verið að fjárhæð 17.020 krónur. Í janúar 2015 hafi legið fyrir niðurstaða frá Tryggingastofnun en kærandi hafi fengið samþykktan örorkulífeyri frá og með 1. nóvember 2014. Óskað hafi verið eftir tekjuupplýsingum frá kæranda fyrir lánstímabilið svo hægt væri að ganga frá afgreiðslu lánsins og hún hafi skilað inn tekjuupplýsingum frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum. Það hafi verið mat félagsráðgjafa að hægt væri að gera upp lánið við kæranda og því hafi hún fengið sendan útreikning í tölvupósti þann 27. janúar 2015. Þar hafi komið fram að lánið stæði í 456.496 krónum en 194.918 krónum yrði breytt í styrk og því væru eftirstöðvar lánsins 261.578 krónur. Kærandi hafi verið ósátt við að sjúkradagpeningar væru teknir með í útreikninginn en hún hafi verið upplýst um að allar skattskyldar tekjur kæmu til frádráttar við mat á fjárhagsaðstoð, þ.m.t. sjúkradagpeningar. Kærandi hafi þegar greitt 230.000 krónur inn á lánið og skrifað undir nýja millifærslubeiðni að fjárhæð 31.578 krónur og þar með samþykkt framangreindan útreikning. Síðar hafi komið í ljós að kærandi hafi einnig fengið sjúkradagpeninga frá B fyrir nóvember og desember 2014 að fjárhæð samtals 362.248 krónur en hún hafi ekki upplýst um þær tekjur. Félagsráðgjafi hafi því látið kæranda vita að miðað við nýjar tekjuupplýsingar væri óheimilt að breyta hluta lánsins í styrk og því væru eftirstöðar þess 174.486 krónur. Til þess að staðfesta þann útreikning yrði kærandi að skila inn greiðsluseðlum frá B en hún hafi ákveðið að vísa málinu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort kæranda beri að endurgreiða fjárhagsaðstoð sem hún þáði hjá Kópavogsbæ frá 1. október til 31. desember 2014.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 40/1991 er kveðið á um að fjárhagsaðstoð sveitarfélags geti hvort heldur sem er verið lán eða styrkur. Fjárhagsaðstoð skuli veitt sem lán ef umsækjandi óski þess eða könnun á aðstæðum leiði í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslu með tilliti til eigna og framtíðartekna. Þá segir í 2. mgr. 22. gr. að félagsmálanefnd sé óheimilt að breyta styrk í lán nema viðkomandi óski þess. Í athugasemdum við 22. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1991 kemur fram að lagt sé til að meginreglan verði sú að fjárhagsaðstoð verði aðeins endurkræf við sérstakar aðstæður enda sé sú skipan mála í samræmi við núverandi framkvæmd. Það sé mikilvægt að ákvörðun um aðstoð í formi lánveitingar verði tekin í upphafi um leið og fjárhagsaðstoð sé ákveðin og þá í samvinnu við skjólstæðing. Sú ákvörðun verði hins vegar ekki tekin á síðari stigum.

Kærandi hefur borið því við að hafa fengið símleiðis þær upplýsingar frá félagsráðgjafa Kópavogsbæjar að hún gæti fengið fjárhagsaðstoð í formi styrks á meðan umsókn hennar um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins væri í vinnslu. Þegar hún hafi mætt í viðtal hjá öðrum ráðgjafa hafi henni verið tjáð að fjárhagsaðstoðin yrði veitt í formi láns. Kærandi er ósátt við að hafa fengið mismunandi upplýsingar frá félagsráðgjöfum Kópavogsbæjar og telur sig ekki þurfa að endurgreiða fjárhagsaðstoðina.

Það er álit úrskurðarnefndar að mikilvægt sé að gengið sé tryggilega frá því við upphaf greiðslna hvort um sé að ræða lán eða styrk til þeirra sem njóta greiðslna frá félagsþjónustunni. Fyrir liggur að skjöl þau sem lögð hafa verið fram í málinu bera með sér með skýrum hætti að greiðslur þær sem kærandi þáði í október, nóvember og desember 2014 hafi verið veittar sem lán. Í umsókn kæranda, dags. 14. október 2014, kemur fram að sótt sé um framfærslulán skv. 15. gr. og í greiðslubeiðnum dagsettum 30. október, 1. desember og 30. desember 2014 kemur fram að um sé að ræða framfærslulán en ekki styrk. Af yfirliti yfir greiðslur til kæranda kemur enn fremur fram að greiðslurnar eru bókaðar sem framfærslulán skv. 15. gr. Þrátt fyrir að kærandi haldi því fram að hún hafi í upphafi fengið rangar upplýsingar verður ekki framhjá því litið að þær voru leiðréttar áður en kærandi lagði inn formlega umsókn um fjárhagsaðstoð og var henni því ljóst, við upphaf greiðslnanna, að fjárhagsaðstoðin yrði í formi láns en ekki styrks. Að því virtu verður ekki fallist á með kæranda að henni beri ekki að endurgreiða fjárhagsaðstoðina. 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Kópavogsbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Kópavogsbæjar þess efnis að A skuli endurgreiða fjárhagsaðstoð sem hún þáði frá 1. október til 31. desember 2014 er staðfest.


Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta