Hoppa yfir valmynd
6. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 77/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                

Miðvikudaginn 6. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 77/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með bréfi, dags. 19. desember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2014, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð til greiðslu meðlags fyrir tímabilið 1. september 2011 til 31. mars 2014.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. september 2011 til 1. október 2014. Kærandi leitaði til Reykjavíkurborgar vegna meðlagsaðstoðar og var samþykkt að veita honum fjárhagsaðstoð til greiðslu meðlags frá 1. apríl 2014. Kærandi óskaði þá eftir greiðslu meðlagskostnaðar fyrir tímabilið 1. september 2011 til 31. mars 2014 en var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 30. október 2014, með þeim rökum að umsókn hans samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Með bréfi, dags. 30. október 2014, áfrýjaði kærandi afgreiðslu þjónustumiðstöðvarinnar til velferðarráðs. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 12. nóvember 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð til greiðslu meðlagskostnaðar tímabilið 1. [september] 2011 til 31. mars 2014 skv. 13. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi greiðslu meðlags.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 12. nóvember 2014. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun velferðarráðs og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 1. desember 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 19. desember 2014. Með bréfi, dags. 8. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 27. janúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. janúar 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 6. febrúar 2015. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari gögnum frá Reykjavíkurborg þann 19. mars 2015 og bárust þau með tölvupósti 23. mars 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsfólki þjónustumiðstöðvar í september 2011 um að ekki væri veitt aðstoð vegna meðlagsgreiðslna. Starfsfólkið hafi þar með brugðist leiðbeiningarskyldu sinni og hlunnfarið hann um lögmæta meðlagsaðstoð. Kærandi tekur fram að hann hafi þurft á aðstoð að halda strax í september 2011 en hann hafi reynt að tryggja syni sínum tilverurétt með því að senda honum greiðslur mánaðarlega. Honum hafi tekist að senda syni sínum greiðslur með því að þrengja að sér og þar með hafi hann ekki getað veitt sér lífsnauðsynjar. Kærandi bendir á að hann hafi átt rétt á aðstoð vegna meðlagsgreiðslna á þessu tímabili og sá réttur standi enn.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um. Þann 2. júlí 2014 hafi verið samþykkt að veita kæranda meðlagsaðstoð frá 1. apríl 2014 á meðan hann nyti fjárhagsaðstoðar. Inntak fjárhagsaðstoðar sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 og 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Það sé litið svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Litið hafi verið til þess að tímabil 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991, sbr. 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, væri liðið og að kærandi hafi þegar greitt meðlagið. Að mati velferðarráðs liggi ekki nægjanlegar rökstuddar ástæður að baki því að veita meðlagsaðstoð aftur í tímann fyrir tímabilið september 2011 til 31. mars 2014. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum né ákvæðum laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. september 2011 til 1. október 2014. Frá 1. apríl 2014 fékk kærandi einnig fjárhagsaðstoð til greiðslu meðlags að upphæð 25.000 krónur á mánuði, sbr. 13. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, en kærandi hefur farið fram á greiðslur fyrir tímabilið 1. september 2011 til 31. mars 2014. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 og 7. gr. framangreindra reglna og að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi fyrst um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 9. september 2011, fyrir tímabilið 9. september 2011 til 30. september 2011. Að mati úrskurðarnefndarinnar lýtur ágreiningur málsins því ekki að rétti kæranda til greiðslna aftur í tímann frá því að umsókn var lögð fram heldur að því hvort hann hafi átt rétt á greiðslum á grundvelli 13. gr. reglnanna á því tímabili sem hann þáði fjárhagsaðstoð.

Í 2. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að umsókn um fjárhagsaðstoð skuli undirrituð á sérstöku umsóknareyðublaði þar sem fram komi upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri, upplýsingar um skráningu í nám og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir. Í 10. gr. reglnanna kemur fram að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf  til framfærslu, sbr. 11. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Í 13. gr. reglnanna er kveðið á um greiðslur meðlags en þar segir:

Þegar tekjur umsækjanda eru við eða lægri en fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum skal taka tillit til meðlagsgreiðslna með barni eða börnum sem umsækjandi hefur greitt með reglulega fram að þeim tíma að hann fær fjárhagsaðstoð. Hækkar fjárhagsaðstoðin sem nemur einu meðlagi eins og það er á hverjum tíma með hverju barni. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi staðið í skilum með meðlag a.m.k. undanfarna þrjá mánuði. Átt er við meðlagsgreiðslur hverju sinni, en ekki uppsafnaðar meðlagsskuldir.

Í 28. gr. reglna Reykjavíkurborgar kemur fram að kanna skuli aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um fjárhagsaðstoð hafi borist og að þjónustumiðstöð skuli taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og sjá jafnframt til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Líkt og áður greinir sótti kærandi fyrst um fjárhagsaðstoð með umsókn, dags. 9. september 2011, og var sú umsókn á sérstöku umsóknareyðublaði frá Reykjavíkurborg. Á umsókn kæranda er ekki að finna upplýsingar um að hann hafi verið með barn/börn á framfæri þar sem á umsóknareyðublaðinu er einungis óskað eftir upplýsingum um börn með lögheimili hjá umsækjanda. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi því borið að kanna sérstaklega hvort kærandi greiddi meðlag með barni/börnum og hvort hann stæði í skilum með þær greiðslur. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar kærandi óskaði fyrst eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur heim til nýrrar meðferðar og mats á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 13. gr. reglna Reykjavíkurborgar á því tímabili sem hann þáði fjárhagsaðstoð.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2014, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð til greiðslu meðlags fyrir tímabilið 1. september 2011 til 31. mars 2014 er felld úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta