Hoppa yfir valmynd
27. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                     

Miðvikudaginn 27. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 11/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 25. febrúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Kópavogsbæjar, dags. 6. janúar 2015, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð.


I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur verið óvinnufær vegna vinnuslyss og þegið fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ frá því í febrúar 2012. Í október 2014 fékk kærandi greiddar bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins tekjutjóns og var af þeim sökum synjað um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember og desember 2014 ásamt jólastyrk það ár. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogsbæjar með bréfi, dags. 30. desember 2014, sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 5. janúar 2015 og staðfesti framangreinda ákvörðun.

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. janúar 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 25. febrúar 2015. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 13. mars 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 18. mars 2015, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 10. apríl 2015.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé óvinnufær eftir mjög slæmt vinnuslys og hafi því þurft á aðstoð að halda frá félagsþjónustunni í þrjú ár. Í október 2014 hafi hann fengið greiddar bætur frá tryggingafélagi sem séu að hluta til skattskyldar en bæturnar hafi allar farið í að greiða skuldir, skurðaðgerðir og læknis- og lyfjakostnað.

 

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið greiddar bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins tekjutjóns. Samkvæmt 2. tölul. a-liðar 8. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt séu tryggingabætur, meðlög og styrkir svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur skattskyldar tekjur með undantekningu í 2. tölul. 28. gr. sömu laga. Synjun kæranda um fjárhagsaðstoð og jólastyrk hafi verið byggð á 17. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem kærandi hafi í nóvember 2014 fengið greiddar skattskyldar tekjur að fjárhæð 978.840 krónur en samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 783/2002 beri að telja fram bætur vegna tímabundins atvinnutjóns til skatts það ár sem endanleg ákvörðun er tekin um bætur.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að veita kæranda fjárhagsaðstoð í nóvember og desember 2014 ásamt jólastyrk það ár.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Samkvæmt 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er fjárhagsaðstoð veitt þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eiga lögheimili í Kópavogi í þeim tilgangi að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi. Er fjárhagsaðstoð veitt í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa ónægar tekjur sér til framfærslu og geta ekki séð sér og sínum farborða, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í 15. gr. reglnanna er kveðið á um upphæðir fjárhagsaðstoðar en þar kemur fram í 1. mgr. ákvæðisins að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðist við grunnfjárhæð 153.100 krónur. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem leigja húsnæði án þinglýsts leigusamnings og sannanlega sýna fram á húsnæðiskostnað sem og þeirra sem ekki hafa aðgang að húsnæði er 0,8 eða 122.480 krónur, sbr. 3. lið 1. mgr. 15. gr. reglnanna. Fyrir liggur að kærandi fékk fjárhagaðstoð frá Kópavogsbæ að fjárhæð 122.480 krónur frá janúar 2014 til október 2014.

Í 3. mgr. 15. gr. reglnanna segir að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist skattskyldar tekjur, sbr. 1[7]. gr. Fram kemur í 1. mgr. 17. gr. að allar tekjur einstaklings/maka í þeim mánuði sem sótt sé um komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar og einnig tekjur mánuðinn á undan ef tekjur þann mánuðinn séu hærri en 218.515 krónur. Þá kemur fram í 2. mgr. 17. gr. að með tekjum sé átt við allar innlendar og erlendar skattskyldar tekjur einstaklings/maka, svo sem atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, mæðra- og feðralaun og framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 62. gr. barnalaga, nr. 76/2003, sem ungmenni 18–20 ára kunni að fá.

Við ákvörðun um fjárhagsaðstoð til kæranda fyrir nóvember 2014 bar því að horfa til tekna kæranda í október og nóvember 2014. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra fékk kærandi skattskylda greiðslu frá Vátryggingafélagi Íslands hf. í október 2014 að fjárhæð 1.297.914 krónur en var tekjulaus í nóvember 2014. Tekjur kæranda voru því töluvert yfir þeim viðmiðunarmörkum sem ákvæði 1. mgr. 17. gr. reglnanna áskilur. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir nóvember 2014. Ákvörðun Kópavogsbæjar um synjun á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember 2014 verður því staðfest.

Við ákvörðun fjárhagsaðstoðar fyrir desember 2014 bar að horfa til tekna kæranda í nóvember og desember 2014 en samkvæmt gögnum málsins var kærandi tekjulaus þá mánuði. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir desember 2014. Ákvörðun Kópavogsbæjar um synjun á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir desember 2014 verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar meðferðar.

Í 33. gr. reglna Kópavogsbæjar er fjallað um jólastyrk en þar kemur fram að jólastyrkur nemi 25% af grunnaðstoð og sé að jafnaði einungis veittur þeim sem eigi við sérstaka félagslega erfiðleika að etja og hafi verið undir eða á viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar undanfarna sex mánuði og að sækja þurfi sérstaklega um jólastyrk. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi verið töluvert yfir viðmiðunarmörkum 1. mgr. 17. gr. reglnanna á því tímabili. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á jólastyrk árið 2014. Ákvörðun Kópavogsbæjar um synjun á umsókn kæranda um jólastyrk fyrir árið 2014 verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 6. janúar 2015, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember 2014 og jólastyrk það ár er staðfest.

Ákvörðun Kópavogsbæjar um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir desember 2014 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta