Hoppa yfir valmynd
21. júní 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 178/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 178/2024

Föstudaginn 21. júní 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. febrúar 2024, vegna umsóknar hennar um greiðslur í sorgarleyfi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. febrúar 2024, sótti kærandi um greiðslur í sorgarleyfi í sex mánuði vegna andláts barns hennar X. Kæranda var kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 27. febrúar 2024, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 358.923 kr. á mánuði miðað við 100% sorgarleyfi.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2024. Með bréfi, dags. 24. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 10. maí 2024, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. maí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa þann X eignast yndislegan dreng eftir fulla meðgöngu sem hafi gengið vel. Kærandi hafi þó minnkað við sig vinnuna mánuðina fyrir fæðingu en hún hafi verið í vaktarvinnu og verið ráðlagt að taka ekki næturvaktir síðari hluta meðgöngu. Því hafi kærandi verið með lægri tekjur en hún hefði annars verið með. Kærandi hafi ekki verið veikindaskráð fyrr en einum og hálfum mánuði fyrir fæðingu. Fæðingin hafi gengið erfiðlega og fljótt hafi komið í ljós að ekki væri allt með felldu. Sonur kæranda hafi dvalið fyrstu dagana sína á Barnaspítala hringsins og við hafi tekið ótal rannsóknir. Vegna þessa hafi þau fengið viðbótar fæðingarorlof. Síðar hafi komið í ljós að sonur þeirra hafi verið einstakur, hann hafi verið []. Eftir aðeins sjö vikur í þessum heimi hafi hann kvatt þau og félagsráðgjafi Landsspítalans hafi sótt um sorgarleyfi fyrir þeirra hönd. Sorgarleyfi sem sé mjög mikilvægt fyrir þau foreldrana til að þau geti unnið sem best úr þessari erfiðu reynslu. Við andlát sonarins hafi fæðingarorlof fallið niður, auk viðbótar fæðingarorlofs sem þau hafi fengið samþykkt vegna veikinda hans og sorgarleyfið hafi samstundis tekið við. Við þessar breytingar hafi greiðslur lækkað helling, eða um 241.077 kr.

Útreikningur vegna fæðingarorlofs samkvæmt Vinnumálastofnun sé 80% af meðaltekjum kæranda samkvæmt skrám skattyfirvalda miðað við 12 mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Miða við þennan útreikning sé greidd upphæð á mánuði 600.000 kr. Greiðslur vegna sorgarleyfis séu reiknaðar út frá 80% af meðaltekjum kæranda samkvæmt skrám skattyfirvalda miðað við sex mánaða samfellt tímabil sem ljúki tveimur mánuðum fyrir dánardag barns. Miða við þann útreikning sé greidd upphæð á mánuði 358.923 kr. Útreikningur væri eðlilegur ef barn hefði látist á meðan foreldrar væru á vinnumarkaði en hugmyndafræði laga um sorgarleyfi falli um sjálft sig með því að móðir lækki svo umtalsvert í greiðslum við það eitt að færast úr fæðingarorlofi yfir í sorgarleyfi.

Kærandi bendi á að mikið ósamræmi sé á útreikningum á milli sorgarleyfis og fæðingarorlofs og að um sé að ræða töluverða lækkun á greiðslum til hennar. Því óski kærandi eftir endurskoðun á útreikningi þar sem sonur hennar hafi látist á meðan á fæðingarorlofi hafi staðið. Að útreikningur sem hafi verið notaður fyrir útreikning á fæðingarorlofi verði notaður til útreiknings á sorgarleyfi.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 21. febrúar 2024, sótt um greiðslur í sorgarleyfi í sex mánuði vegna andláts barns hennar þann X.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/2022 um sorgarleyfi sé kveðið á um að foreldri, sbr. 1. mgr. 3. gr., öðlist rétt til greiðslna í sorgarleyfi eftir að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna og eigi tilkall til greiðslna í sorgarleyfi, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 27. febrúar 2024, þar sem fram komi að mánaðarleg greiðsla til hennar miðað við 100% sorgarleyfi verði 358.923 kr.

Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 77/2022 sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við sex mánaða samfellt tímabil sem ljúki tveimur mánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig a-f-lið 2. mgr. 14. gr., án tillits til þess hvort laun eða reiknað endurgjald hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en þrjá við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Dánardagur barns kæranda hafi verið þann X og því skuli samkvæmt framangreindum lagaákvæðum mánaðarleg greiðsla í sorgarleyfi til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið X til X.

Í kæru komi fram að kærandi hafi verið í fæðingarorlofi við andlát barns og mánaðarleg greiðsla til hennar miðað við 100% fæðingarorlof hafi verið umtalsvert hærri en mánaðarleg greiðsla miðað við 100% sorgarleyfi.

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann X og því hafi, samkvæmt framangreindu lagaákvæði, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda verið reiknuð sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið X til X, eða 600.000 kr.

Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs falli niður frá þeim degi er foreldri láti frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs, sem og við andlát barns. Réttur til sorgarleyfis stofnist þann dag sem foreldri verði fyrir barnsmissi, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2022.

Óumdeilt sé að kærandi lækki umtalsvert í greiðslum við það að greiðslur í fæðingarorlofi falli niður samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof og við taki greiðslur samkvæmt lögum um sorgarleyfi. Ákvæði laganna séu þó afdráttarlaus um það með hvaða hætti og við hvaða tímabil skuli miða útreikning á meðaltali heildarlauna sem og frá hvaða degi réttur til fæðingarorlofs falli niður við andlát barns og frá hvaða tímamarki réttur til sorgarleyfis stofnist við slíkan atburð líkt og að framan hafi verið rakið.

Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 27. febrúar 2024, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. febrúar 2024, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda í sorgarleyfi yrði 358.923 kr.

Í 1. gr. laga nr. 77/2022 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra sem hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði til sorgarleyfis sem og greiðslna til að koma til móts við tekjutap þeirra á því tímabili sem sorgarleyfi vari. Lögin taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til sorgarstyrks.

Samkvæmt 13. gr. laganna öðlast foreldri rétt til greiðslna í sorgarleyfi eftir að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði felur í sér að foreldrið hafi verið í samfelldu starfi, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/2022. Samkvæmt c. lið 2. mgr. 14. gr. telst einnig til þátttöku á innlendum vinnumarkaði sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði til greiðslna í sorgarleyfi.

Í 15. gr. laga nr. 77/2022 er kveðið á um viðmiðunartímabil og útreikning á greiðslum í sorgarleyfi. Þar segir í 1. mgr. að mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds, eftir því sem við eigi, samkvæmt 2. mgr. og miða skuli við sex mánaða samfellt tímabil sem ljúki tveimur almanaksmánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig a-f-lið 2. mgr. 14. gr., án tillits til þess hvort laun eða reiknað endurgjald hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en þrjá við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a-f-lið 2. mgr. 14. gr. Þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili, í tengslum við tilvik sem falli undir a-f-lið 2. mgr. 14. gr. sem foreldri hafi átt rétt á, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við.

Barn kæranda fæddist X og lést X. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla í sorgarleyfi til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið X til X.

Kærandi hefur vísað til þess að mánuðina fyrir fæðingu barnsins hafi hún minnkað við sig vinnu og því verið með lægri tekjur en ella. Hún hafi verið í fæðingarorlofi við andlát barns hennar en þær greiðslur hefðu verið umtalsvert hærri en greiðslur í sorgarleyfi. Kærandi hefur óskað eftir að greiðslur í sorgarleyfi verði reiknaðar út frá sömu viðmiðum og fæðingarorlofsgreiðslur til hennar þar sem mikið ósamræmi sé þar á milli.

Í framangreindu ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 77/2022 er skýrt kveðið á um það viðmiðunartímabil sem greiðslur í sorgarleyfi skuli reiknaðar út frá. Við útreikning á greiðslum til kæranda í sorgarleyfi bar Vinnumálastofnun því réttilega að miða mið laun kæranda á tímabilinu X til X en ljóst er að ákvæði 2. mgr. 15. gr. á ekki við í tilviki kæranda þar sem fæðingarorlofsgreiðslur til hennar hófust í X.

Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Vinnuálastofnunar í hinni kærðu ákvörðun, dags. 27. febrúar 2024, er í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2022. Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. febrúar 2024, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta