Ólympíuleikar fatlaðra
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, er nú stödd í Peking á Ólympíuleikum fatlaðra í boði Íþróttasambands fatlaðra. Í dag verður hún viðstödd opnunarhátíð leikanna.
Keppni leikanna fer fram á sömu leikvöngum og notaðir voru á nýafstöðunum Ólympíuleikum. Keppendur sem eru 4.100 talsins búa í Ólympíuþorpinu á mótstímanum. Leikarnir hefjast á morgun, 7. september, og mun ráðherra fylgjast með íslensku íþróttamönnunum. Hún mun taka þátt í verðlaunaafhendingu fyrir keppni í frjálsum íþróttum þann 9. september.
Fimm íslenskir afreksmenn keppa á leikunum að þessu sinni, í sundi, lyftingum og fjrálsum íþróttum. Þetta eru þau Sonja Sigurðardóttir, Eyþór Þrastarson, Þorsteinn Magnús Sölvason, Jón Oddur Halldórsson og Baldur Ævar Baldursson.
Ólympíuleikarnir eru án efa stærsti viðburður sem nokkurn íþróttamann dreymir um og út af fyrir sig afrek að ná þeim viðmiðum sem krafist er til að öðlast þátttökurétt á mótinu. Íslendingar hafa náð ótrúlega góðum árangri frá því þeir tóku fyrst þátt í Ólympíuleikum fatlaðra í Arnheim í Hollandi árið 1980 og hafa unnið til allmargra brons-, silfur- og gullverðlauna.
Hægt er að fylgjast með fréttum af íslensku Ólympíuförunum á heimasíðu Íþróttasambands fatlaðra.