Hoppa yfir valmynd
15. maí 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fátt breyst í rekstrarumhverfi á raforkumarkaði

Bjarni Benediktsson á ársfundi Landsvirkjunar.  - mynd

Fátt hefur breyst í rekstrarumhverfi á raforkumarkaði á þeim fimmtán árum sem liðin eru frá því að samkeppni um framleiðslu og sölu raforku var innleidd með raforkulögum og ekkert nýtt fyrirtæki fór inn á samkeppnishluta raforkumarkaðar fyrr en í fyrra. Þetta kom fram í ræðu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar í dag.

„Hið opinbera er yfir og allt um kring á raforkumarkaði. Hið opinbera fer með leyfisveitingar- og reglusetningarvaldið. Ríki og sveitarfélög eiga nær alfarið framleiðslufyrirtækin. Flutningakerfið og dreifiveiturnar eru í opinberri eigu og háð sérleyfum. Á raforkusölumarkaði þar sem ætlunin var að ná fram samkeppni eru fá merki um að hún sé í reynd til staðar,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Hann velti upp þeirri spurningu hvort þetta fyrirkomulag bjóði heim svipaðri hættu og bent hefur verið á varðandi umfangsmikið eignarhald lífeyrissjóða á atvinnustarfsemi í landinu. „Að það kunni að vera að þetta fyrirkomulag geti dregið úr kostum þess sem við ætluðum okkur að ná fram á árinu 2003, að við séum ekki að ná fram kröftum markaðarins til þess að skila betri þjónustu og betri verðum til neytendanna í landinu?“

Fjármála- og efnahagsráðherra saagði að ljóst væri að Landsvirkjun væri í yfirburðarstöðu í framleiðslu og heildsölu. „Ákvörðun Landsvirkjunar um verðgólf í heildsölu verður óhjákvæmilega af þessari ástæðu ráðandi í verðmyndun á smásölumarkaði. Er hugsanlegt að við þurfum að auka gagnsæi um þær ákvarðanir Landsvirkjunar?“ spurði ráðherra ennfremur.

Bjarni vék í ræðu sinni að þeim stakkaskiptum sem hafa orðið í lífsgæðum á Íslandi, ekki aðeins með starfsemi Landsvirkjunar heldur meðal annars einnig í kjölfar virkjanaframkvæmda um land allt síðustu öldina. „Mér finnst eins og við séum nú að nálgast ný tímamót þar sem það er að verða algjör bylting í umræðu um endurnýjanlega orkukosti,“ sagði Bjarni Benediktsso.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta