Atvinnulífið þurfi á nánu samstarfi við vísindasamfélagið að halda
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra á ráðstefnunni í dag.
Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands stóð í vikunni fyrir ráðstefnu í viðskiptafræði. Ráðstefnan hafði yfirskriftina Viðskipti og vísindi og lauk henni í dag.
Ráðstefnan er vettvangur fyrir miðlun þekkingar og reynslu þar sem rannsakendur úr háskólasamfélaginu sem og stjórnendur og starfsfólk úr atvinnulífinu sameina krafta sína. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, setti ráðstefnuna og sagði þar meðal annars:
„Ég fagna þessari ráðstefnu því ég tel brýnt að í opinberri umræðu, jafnt meðal almennings og inn á Alþingi, sé talað meira um mikilvægt samspil viðskipta og vísinda. Og ekki síst, þau tækifæri sem felast í því samspili.“
Viðfangsefnin sem fjallað var um á ráðstefnunni í ár voru fjölbreytt og meðal annars fjallað um stjórnarhætti, gagnsæi, skattsvik, sjálfbærni, nýsköpun, sölu banka, vinnumarkað, jöfn tækifæri kynja, kulnun í starfi, stjórnun og forystu.
Jafnvægið mikilvægt
Viðskipti hvers konar eru eitt af einkennum samfélaga manna hvarvetna í heiminum. Flest eigum við einhvers konar viðskipti á hverjum degi og viðskipti eru undirstaða atvinnulífs og um leið aflgjafi framfara og hagsældar.
Í ávarpi sínu talaði ráðherra um mikilvægi þess að leikreglur viðskiptalífsins séu bæði skýrar og sanngjarnar og að umhverfi viðskipta á Íslandi standist samjöfnuð við viðskiptaumhverfi í þeim löndum sem að við viljum bera okkur saman við. Ráðherra benti á að við erum á réttri leið samkvæmt síðustu mælingum, samanber alþjóðlega samkeppnishæfni landsins.
„Alþjóðleg samkeppnishæfni atvinnulífs okkar verður að byggjast á efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu jafnvægi. Til að ná því jafnvægi, og varða þann veg, þarf atvinnulífið á nánu samstarfi við vísindasamfélagið að halda. Í þessu samhengi má nefna að ýmsar Rannsóknarmiðstöðvar hafa verið settar upp með sameiginlegri þátttöku háskóla og atvinnulífsins, meðal annars með það að markmiði til að tengja betur vísindi- og rannsóknir við atvinnulífið og öfugt.“