Hoppa yfir valmynd
29. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 285/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 285/2022

Fimmtudaginn 29. september 2022

A

gegn

Akureyrarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. maí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Akureyrarbæjar um að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð fyrir aprílmánuð 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. apríl 2022, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Akureyrarbæ fyrir aprílmánuð. Velferðarsvið Akureyrarbæjar samþykkti að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð, eða 87.037 kr., vegna tekna kæranda og eiginkonu hans.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 31. maí 2022. Með erindi, dags. 1. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Svar barst 7. júní 2022 þess efnis að kærandi hefði ekki fengið ákvörðun senda. Með erindi til Akureyrarbæjar, dags. 8. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um mál kæranda. Svar barst 22. júní og gögn bárust 27. júní 2022. Samkvæmt þeim gögnum staðfesti velferðarráð Akureyrarbæjar ákvörðun velferðarsviðs á fundi 22. júní 2022 með vísan til 20. gr. reglna Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð. Þar sem ljóst var hvaða ákvörðun var kærð, að óbreyttur ágreiningur væri enn til staðar og til hagræðis fyrir kæranda ákvað úrskurðarnefndin að taka kæruna til meðferðar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2022, var óskað eftir greinargerð Akureyrarbæjar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 18. ágúst 2022. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 8. september 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. september 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann og eiginkona hans hafi alltaf sótt um fjárhagsaðstoð frá Akureyrarbæ þar sem hann geti ekki unnið og konan hans hafi ekki haft vinnu. Þau hafi fengið greiddar 306.00 kr. mánaðarlega eftir skatt og þurft að greiða um 40.000 kr. fyrir leikskóla sem þau hafi svo fengið endurgreitt frá sveitarfélaginu. Eiginkona kæranda hafi byrjað að vinna í skóla á Akureyri þann 10. mars 2022, fimm tíma á dag. Í lok apríl 2022 hafi eiginkonan fengið 161.000 kr. í laun og kærandi hafi sent sveitarfélaginu launaseðil þannig að þau gætu fengið mismuninn greiddan, eða 185.000 kr., en hafi einungis fengið 87.000 kr. Þeim hafi verið neitað um 100.000 kr. og 40.000 kr. fyrir leikskólagjöldum en einnig 40.000 kr. fyrir leikskólagjöldum í mars. Heildarfjárhæðin sé því 180.000 kr. sem hafi leitt til fjárhagsvandamála hjá fjölskyldunni. Þau hafi ekki haft neinn pening til matarkaupa og ekki lifað af mánuðinn. Fjölskyldan eigi rétt á fjárhagsaðstoð og ættu í raun að fá meira en 356.000 kr. á mánuði. 

III.  Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar kemur fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um framfærslu fyrir aprílmánuð þann 29. apríl 2022. Í framhaldinu hafi málið verið tekið fyrir á fundi velferðarsviðs Akureyrarbæjar þar sem farið hafi verið yfir umsókn og önnur gögn málsins. Við yfirferð gagna hafi komið í ljós að tekjur kæranda og eiginkonu hans í apríl 2022 hafi numið 283.796 kr. Þar sem sú fjárhæð sé undir viðmiðunarmörkum hjóna eða fólks í sambúð hafi réttur til framfærslustyrks verið til staðar. Hins vegar hafi umsókn kæranda numið 370.833 kr. Með vísan til 20. gr. reglna Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð beri að draga umsóknarfjárhæðina frá tekjum heimilisins. Í þeirri grein sé kveðið á um að allar tekjur einstaklings og sambúðaraðila í þeim mánuði sem sótt sé um komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Eftir að búið hafi verið að draga umsóknarfjárhæðina frá tekjum heimilisins hafi 87.037 kr. staðið eftir og samþykkt hafi verið að greiða kæranda þá fjárhæð. Kærandi hafi verið upplýstur um þá ákvörðun en hafi ekki viljað una henni. Hann hafi því áfrýjað málinu til velferðarráðs Akureyrarbæjar eins og honum hafi verið leiðbeint um.

Akureyrarbær biðjist velvirðingar á þeim drætti sem hafi orðið á skilum greinargerðar til úrskurðarnefndarinnar en um ákveðinn misskilning hafi verið að ræða. Kæran hafi borist úrskurðarnefndinni áður en málið hafi fengið afgreiðslu hjá velferðarráði Akureyrarbæjar og því með öllu óljóst hvert kæruefnið væri. Kærandi hafi áfrýjað ákvörðun velferðarsviðs um að samþykkja aðeins umsóknina að hluta. Sú áfrýjun hafi verið tekin fyrir á fundi velferðarráðs 22. júní 2022 þar sem ráðið hafi staðfest ákvörðun velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Kæranda hafi verið sent bréf og honum tilkynnt um ákvörðun velferðarráðs, auk þess sem honum hafi verið kynntar kæruleiðir. Einnig hafi ákvörðun ráðsins verið send úrskurðarnefnd velferðarmála vegna fyrri beiðni um gögn málsins. Starfsmenn velferðarsviðs hafi því talið að málið væri afgreitt í ljósi þess að ný kæra hafi ekki borist frá kæranda.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Akureyrarbæjar um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð fyrir aprílmánuð 2022 með vísan til 20. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 3. gr. reglna Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að fjárhagsaðstoð skuli öðru jöfnu greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um fjárhagsaðstoð skuli að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Aðstæður þeirra sem hafi fengið fjárhagsaðstoð í þrjá mánuði samfellt skuli kannaðar sérstaklega og félagslegri ráðgjöf beitt ásamt öðrum viðeigandi úrræðum. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglnanna skapast réttur til fjárhagsaðstoðar í þeim mánuði sem sótt er um aðstoð og að jafnaði sé um eftir á greiðslur að ræða. Verði umsókn hafnað fái umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar séu tilgreindar með vísan til viðeigandi greinar fjárhagsaðstoðarreglna, sbr. 1. mgr. 13. gr. reglnanna. Þá segir í 2. mgr. þeirrar greinar að umsækjanda skuli leiðbeint um málskotsheimildir og heimild hans til þess að fá ákvörðunina rökstudda um leið og honum sé tilkynnt um slíka ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. reglna Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð tekur framfærslugrunnur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds. Fjárhagsaðstoð til hjóna eða sambúðarfólks getur á árinu 2022 verið allt að 320.833 kr. á mánuði. Þá geta foreldrar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu einnig sótt um sérstaka aðstoð vegna barna á þeirra framfæri, til dæmis til greiðslu leikskólagjalda, að hámarki 25.000 kr. á mánuði fyrir hvert barn. Í 2. mgr. 18. gr. reglnanna kemur fram að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist skattskyldar tekjur samkvæmt 20. gr. Ákvæði 20. gr. reglnanna er svohljóðandi:

„Allar tekjur einstaklings og sambúðaraðila í þeim mánuði sem sótt er um koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar og einnig tekjur mánuðinn á undan ef tekjur þann mánuð eru hærri en kr. 300.000,-. Þetta tekjuviðmið á ekki við þegar einstaklingur ber sannanlega ekki húsnæðiskostnað. Í þeim tilvikum koma allar tekjur í umsóknarmánuði og mánuðinum á undan til frádráttar við ákvörðun upphæðar fjárhagsaðstoðar.

Með tekjum er átt við allar innlendar og erlendar skattskyldar tekjur einstaklings og sambúðaraðila s.s. atvinnutekjur, aðrar skattskyldar tekjur; greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, verktakagreiðslur, greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, mæðra- og feðralaun og framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt 62. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem ungmenni 18-20 ára kunna að fá.

Greiðslur vegna barna, húsnæðisbætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og vaxtabætur reiknast ekki til tekna.“

Reglur Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að allar tekjur, aðrar en greiðslur vegna barna, húsnæðisbætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og vaxtabætur, sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Samkvæmt framangreindum reglum gat kærandi að hámarki átt rétt á 370.833 kr. í fjárhagsaðstoð frá Akureyrarbæ en hann er með tvö börn á framfæri. Tekjur eiginkonu kæranda í apríl 2022 námu 283.796 kr. og kom sú fjárhæð réttilega til frádráttar við ákvörðun fjárhagsaðstoðar fyrir þann mánuð. Með vísan til þess er ákvörðun Akureyrarbæjar um að greiða kæranda 87.037 kr. í fjárhagsaðstoð fyrir apríl 2022 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Akureyrarbæjar um að greiða A, skerta fjárhagsaðstoð fyrir apríl 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta