Hoppa yfir valmynd
8. júní 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Átak um friðlýsingar kynnt í ríkisstjórn

Gönguhópur í Þórsmörk - myndHugi Ólafsson
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, kynnti í ríkisstjórn í dag áform um átak í friðlýsingum. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um slíkt átak, þar með talið að friðlýsa svæði í verndarflokki rammaáætlunar og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, að stofna þjóðgarð á miðhálendinu og að beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna.

Til átaksins um friðlýsingar hefur verið ráðstafað 36 milljónum króna á fjárlögum árlega á tímabilinu 2018-2020, auk sérstaks framlags vegna undirbúnings stofnunar miðhálendisþjóðgarðs á árinu 2018, 12 milljónir króna.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eru í undirbúningi verkefni með ýmsum samstarfsaðilum til að styðja betur við framgang friðunar og friðlýsinga, svo sem með því að meta forsendur fyrir samstarfi við bændur og aðra landeigendur um náttúruvernd, enda mörg svæði sem skipta miklu fyrir náttúruvernd í landinu í einkaeigu. Hagræn áhrif friðlýstra svæða verða einnig metin og framundan er skipulögð mæling á slíkum áhrifum á ellefu náttúruverndarsvæðum hér á landi.

„Við nálgumst náttúruverndina á nýjan hátt og meira út frá sjálfbærri þróun. Við viljum til dæmis skoða þau tækifæri sem felast í efnahagslegu mikilvægi náttúruverndarsvæða og aukinni samvinnu við landeigendur. Friðlýst svæði geta haft mikil efnahagsleg áhrif og mikilvægt er að þekkja þau,“ segir Guðmundur Ingi.

Friðlýsing svæða getur falið í sér ýmis tækifæri fyrir dreifðar byggðir. Friðlýsingar og friðanir geta verið mismunandi og með ólíkum áherslum eftir aðstæðum og tækifærum á hverju svæði, svo sem fjárhagslegum og samfélagslegum tækifærum í jaðarbyggðum. Umhverfisráðuneytið hyggst láta vinna sviðsmyndagreiningu fyrir nokkur tiltekin svæði sem hafa verið til umfjöllunar vegna náttúruverndar, þar með talið stór víðernissvæði.

Loks eru í núgildandi rammaáætlun svæði í verndarflokki sem ber að friðlýsa og sérstök áhersla er á það lögð í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að friðlýsingarskilmálar, ásamt landfræðilegri afmörkum fyrstu svæðanna, verði lagðir fram til umsagnar í sumar. Að ofangreindum verkefnum verður unnið í samstarfi Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

Nefnd sem skipuð var til að vinna að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu eins og kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar, hefur að auki hafið störf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta