Hoppa yfir valmynd
5. desember 2011 Innviðaráðuneytið

Sameining Bæjarhrepps og Húnaþings vestra samþykkt í báðum sveitarfélögunum

Sameining sveitarfélaganna Bæjarhrepps og Húnaþings vestra var samþykkt af meirihluta þeirra sem kusu í báðum sveitarfélögunum. Kosið var um sameiningu sveitarfélaganna síðastliðinn laugardag.

Í Bæjarhreppi kaus 61 og sögðu 39 já eða 63,9% en nei sögðu 22 eða 36,1%. Enginn seðill var auður eða ógildur. Hærra hlutfall samþykkti sameininguna í Húnaþingi vestra en þar sagði 271 já við sameiningu eða 83,9% en nei sögu 50 eða 15,4%. Alls kusu 323 íbúar þar og tveir seðlar voru auðir eða ógildir. Kjörsókn var mun meiri í Bæjarhreppi eða 88% en í Húnaþingi vestra var um kringum 40%.

Tekur gildi um næstu áramót

Leó Örn Þorleifsson, oddviti Húnaþings vestra og formaður samstarfsnefndar um sameininguna, sagði sameininguna taka formlega gildi um næstu áramót. Sveitarstjórn Húnaþings vestra verður sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags þar til kosin verður ný sveitarstjórn í kosningum árið 2014. Bæjarhreppur fær áheyrarfulltrúa í nefndum og ráðum. Þetta fyrirkomulag var ákveðið fyrir kosningarnar og sömuleiðis að nafn hins sameinaða sveitarfélags verði Húnaþing vestra.

Kosið var um sameiningu þessara sveitarfélaga árið 2005 en þá var hún felld í Bæjarhreppi. Samstarf sveitarfélaganna hefur hins vegar verið mikið allar götur síðan, meðal annars á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu og í skólamálum. Hið nýja sveitarfélag verður áfram aðili að Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra en Bæjarhreppur fékk aðild að sambandinu á síðasta ári en það tilheyrði áður Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Sveitarfélögum landsins mun því áramótin fækka úr 76 í 75.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta