Hoppa yfir valmynd
15. mars 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kynntu þér framtíðina um helgina

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2019.

Um þessar mundir stendur Verkiðn fyrir náms- og starfskynningu fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla í tengslum við Íslandsmót iðn- og verkgreina sem nú fer fram í Laugardalshöll undir yfirskriftinni Mín framtíð. Þar munu 33 skólar á framhaldsskólastigi kynna fjölbreytt námsframboð, bæði verklegt og bóklegt, og svara spurningum um námsframboð og inntökuskilyrði. Þessi viðburður er jafnan fjölsóttur enda gefst þar einstakt tækifæri til þess að kynnast námsframboði og starfstækifærum sem standa til boða hér á landi.

Forgangsmál
Í stjórnarsáttamálanum er kveðið á um mikilvægi þess að efla iðn-, verk- og starfsnám og að því höfum við unnið ötullega síðustu misseri. Það er gleðilegt að sjá að vísbendingar eru um að aðgerðir í þá veru séu farnar að skila árangri, m.a. með fjölgun umsókna í iðnnám. Sem menntamálaráðherra hef ég beitt mér fyrir betra samtali milli menntakerfisins og atvinnulífsins en ráðuneytið og hagsmunafélög á þeim vettvangi standa sameiginlega að ýmsum hvatningarverkefnum sem þessu máli tengjast, t.d. Verksmiðjunni, nýrri hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla, #Kvennastarf sem miðar að því að fjölga konum í iðn- og verkgreinum og GERT-verkefnið sem tengir skóla og fyrirtæki með það að markmiði að auka áhuga nemenda á raunvísindum og tækni. Þá höfum við forgangsraðað fjármunum í þágu starfs- og verknáms með því að hækka reikniflokka þess náms, afnumið efnisgjöld og tryggt framlög til að efla kennsluinnviði fyrir verk- og starfsnám, t.d. með bættri verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla.

Fjölgum iðn- og verkmenntuðum
Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína og hún felur í sér sjálfvirknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og samfélags sem leiðir af sér mikil tækifæri til að þróa starfsmenntun til móts við nýjar kröfur. Stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á mikilvægi starfs- og tæknináms enda mikils að vænta af framlagi þess til verðmætasköpunar framtíðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði er hlutfall háskólamenntaðra hér á landi á sviði tækni, vísinda, verk- og stærðfræði mjög lágt, aðeins 16%. Mikilvægt er að fjölga þeim sem eru með menntun á þeim sviðum til þess að við séum betur búin undir að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Spennandi tímar
Námsframboð í starfs- og tækninámi hér á landi er afar fjölbreytt. Þau tækifæri sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spennandi enda mikil eftirspurn eftir slíkri menntun í atvinnulífinu. Til marks um gæði námsins sem í boði er má geta þess að íslenskir keppendur náðu sínum besta árangri í evrópukeppni iðnnema á síðasta ári en hópurinn hlaut þá þrjár viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur auk silfurverðlauna Ásbjörns Eðvaldssonar sem keppti þar í rafeindavirkjun.

Spreyttu þig
Alls taka um 30 iðn-, verk- og tæknigreinar þátt í kynningunni Mín framtíð og á morgun laugardag eru fjölskyldur sérstaklega boðnar velkomnar. Hvatt er til þess að gestir komi og prófi sem flestar þeirra og spreyti sig t.d. á því að teikna grafík í sýndarveruleika, smíða, stýra vélmenni, splæsa net eða krulla hár. Þessi kynning er mikilvæg því það að sjá, upplifa og taka þátt tendrar oft meiri áhuga og innsýn en að lesa bæklinga eða skoða heimasíður.

Ég hvet sem flesta til þess að gera sér ferð í Laugardalshöll og kynna sér nám og störf í iðn- og tæknigreinum því margbreytileiki þeirra mun án efa koma flestum á óvart. Við lifum á spennandi tímum þar sem störf eru að þróast og breytast en nægt rými er fyrir atorku og hugkvæmni ungs fólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta