Norrænir ráðherrar vilja efla nýskapandi heilbrigðislausnir og hringrásarhagkerfi
Norrænu atvinnumálaráðherrarnir vilja efla nýsköpun á sviði heilbrigðismála með því að auðvelda ýmsum aðilum innan geirans aðgengi að heilsufarsgögnum milli norrænu landanna. Einnig vilja ráðherrarnir styðja við umskipti til hringrásarhagkerfis í atvinnulífi Norðurlanda.
Þetta er efni tveggja nýrra norrænna áætlana sem atvinnumálaráðherrarnir ýttu úr vör á fundi sínum í Reykjavík þann 27. júní. Áætlanirnar eru til þriggja ára. Framkvæmd þeirra er á könnu Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, stofnunar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, og hafa 60 milljónir norskra króna verið eyrnamerktar hvorri áætlun um sig.
Áætlunin Health, Demography and Quality of life á að auðvelda aðgengi að heilsufarsgögnum fyrir norrænt vísindafólk og fyrirtæki sem starfa innan geirans. Aukið aðgengi á að hjálpa opinberum aðilum og einkaaðilum í heilbrigðisgeiranum að þróa nýjar vörur, þjónustu og nýskapandi lausnir til að mæta þeim áskorunum sem samfélög okkar munu standa frammi fyrir í framtíðinni.
Markmiðið er einnig að efla möguleika á norrænum útflutningi innan heilbrigðisgeirans og að efna til samstarfs á mörkuðum með mikla möguleika hvað varðar norrænar lausnir.
Ráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi þess að fyllsta trúnaðar verði gætt við meðferð allra persónuuupplýsinga, þar sem þær geti innihaldið viðkvæm gögn.
Markmiðið betri heilbrigðisþjónusta fyrir alla
„Það er styrkur norrænu landanna að þar er siðferðisstuðullinn hár þegar kemur að heilsufarsgögnum og við munum áfram byggja á þeim grunni. En það er mikilvægt að Norðurlönd opni á greiðara aðgengi að heilsufarsgögnum yfir landamærin. Það mun skila auknu samstarfi og betri heilbrigðisþjónustu fyrir almenning í löndum okkar. Aðilar víða um heim leggja nú mikið í nýskapandi lausnir með því að safna heilsufarsgögnum og atferlisgögnum með hjálp gervigreindar. Norrænu löndin eiga möguleika á að leika lykilhlutverk í þessari þróun,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, formaður norrænu atvinnumálaráðherranna árið 2019.
Með áætluninni vilja atvinnumálaráðherrarnir ryðja hindrunum úr vegi samstarfs yfir landamærin. Þeir vilja gera svæðið að miðpunkti nýskapandi lausna, „norrænu heilsusvæði“ sem bjóði besta mögulega umhverfi fyrir heilbrigðisfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Auk þess vilja ráðherrarnir beita sér fyrir því að norræni heilbrigðisgeirinn verði öðrum löndum áfram fyrirmynd.
Mikil áhersla á hringrásarhagkerfi
Áætlunin Nordic Sustainable Business Transformation, sem var einnig styrkt af ráðherrunum, hefur það markmið að hvetja norræn fyrirtæki til að leggja aukna áherslu á sjálfbærni. Markmiðið er að flýta umskiptum til lífhagkerfis og hringrásarhagkerfis á Norðurlöndum og að löndin verði leiðandi á því sviði. Til að svo megi verða á meðal annars að veita fyrirtækjum hvata til að innleiða sjálfbær hringrásarlíkön og styðja við þróun nýjustu tæknilausna.
Norræna nýsköpunarmiðstöðin hyggst hrinda áætluninni í framkvæmd með því að prófa ný fyrirtækjalíkön, þróa tæknilausnir á stærri skala en fyrr og kynna lausnir sem efla aðlögunarhæfni norrænna fyrirtækja.
„Báðar áætlanirnar sem nú var ýtt úr vör einkennast af stafvæðingu, sjálfbærni og gervigreind. Þetta eru svið sem Norðurlönd standa styrkum fótum á og alger forgangssvið í norrænu samstarfi. En áskoranir framtíðarinnar varðandi loftslagsbreytingar, alveg nýjan vinnumarkað og krefjandi lýðfræðilega þróun útheimta að við séum stöðugt opin fyrir breytingum, nýjungum og nýskapandi lausnum. Besta leiðin til þess er samstarf,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki.
Áhersla atvinnumálaráðherranna á lífhagkerfið og hringrásarhagkerfið fellur vel að yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna um Norðurlönd sem kolefnishlutlaust svæði og framtíðarsýn þeirra um Norðurlönd sem samþættasta svæði heims.
Báðar stuðla áætlanirnar að því að heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun verði náð.
Í Danmörku eru kosningar til þjóðþingsins nýyfirstaðnar og ný ríkisstjórn verður mynduð þann 27. júní. Því mun Danmörk afgreiða málið síðar í skriflegu ferli.