Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Afríkuríkja funda í Kaupmannahöfn
Versnandi öryggishorfur, staða alþjóðakerfisins og aukið samstarf á sviði viðskipta og fjárfestinga voru efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Afríkuríkja sem fram fór í Kaupmannahöfn 2. og 3. maí. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn og þá tók Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, þátt í viðskiptadagskrá sem fór fram samhliða.
„Á fundinum gafst mikilvægt tækifæri til þess að styrkja tengsl og samskipti ríkjanna en Norðurlöndin eiga öll langa sögu af samvinnu og samstöðu með mörgum Afríkuríkjum. Samstarfið er byggt á trausti og virðingu sem vert er að hlúa að, sérstaklega á jafn krefjandi tímum og við stöndum nú frammi fyrir þegar alþjóðakerfið á undir högg að sækja. Það er okkur öllum afar hollt og mikilvægt að ræða stór mál við samráðherra okkar frá öðrum heimshlutum, en okkur gefst ekki færi á því á hverjum degi. Í ár var lögð mikil áhersla á ónýtt tækifæri í samstarfi ríkjanna á sviði viðskipta og fjárfestinga, ekki síst í tengslum við endurnýjanlega orku í tilfelli Íslands,“ segir Þórdís Kolbrún.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, var gestgjafi fundarins að þessu sinni en um er að ræða árlega fundi sem haldnir eru til skiptis á Norðurlöndum og í Afríkuríkjum. Alsír bauð til síðasta fundar í október síðastliðnum. Markmið þeirra er að skapa vettvang fyrir opið og óformlegt samtal um alþjóðamál, stilla saman strengi og ræða samstarfstækifæri umfram þróunarsamvinnu.
Megináherslur viðskiptadagskrárinnar voru tækifæri til aukinna viðskipta og fjárfestinga milli Norðurlanda og Afríku með sérstakri áherslu á græn umskipti og stafræna þróun og á virðiskeðjur í matvælaframleiðslu. Á báðum þessum sviðum eiga Norðurlöndin töluverð viðskipti við Afríkuríki og sjá tækifæri framundan.
Auk Norðuralandanna fimm sóttu rúmlega tuttugu Afríkuríki fundinn. Samhliða fundinum átti utanríkisráðherra tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Kenía, Líberíu, Malaví, Namibíu, Rúanda, Síerra Leóne, Tansaníu og Túnis.