Hlutverk kvenna og háskólasamfélagsins við að tryggja langvinnan frið í Mósambík
Ég heiti João Colaço og er félagsfræðingur. Ég hef verið háskólakennari í Eduardo Mondlane háskólanum, í yfir 15 ár, þar sem ég kenni klassískar félagsfræðikenningar. Í rannsóknum mínum hef ég einblínt á málefni sem varða fátækt, samfélagsþróun og félagslega útilokun, og hefur verið birt eftir mig talsvert af fræðilegum greinum. Sem félagsfræðingur og rannskandi hef ég beint mínum kröftum í að þróa rannsóknir á fátækt og félagslegri einangrun. Meðal annars hef ég hannað skorkort fyrir stjórnarhætti og lýðræðisvitund í Mósambík og hef jafnframt unnið að úttektum og hagnýtum þróunarverkefnum.
Árið 1998 fékk ég mitt fyrsta starf hjá félags- og kvennamálaráðuneytinu í Mósambík. Þar komst ég fyrst í kynni við þær áskoranir sem konur í Mósambík standa frammi fyrir, sérstaklega þær fátækustu og konur sem búa í dreifbýli.
Allar götur síðan hef ég haft áhuga á að fást við jafnréttismál í Mósambík á fjölbreyttan hátt. Diplómagráða í jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskólanum á Íslandi gefur mér aukna vigt til að ræða málefnið og veitir mér jafnframt tækifæri til að öðlast ný verkfæri, bæði kenningarleg og hagnýt, til að bæta stefnumótun og þá nálgun sem nýtt er til að bæta stöðu kvenna og jafnréttismála í Mósambík.
Ísland er þekkt á alþjóðavettvangi fyrir þann árangur sem landið hefur náð í jafnréttismálum. Gæði námsins hjá Jafnréttisskólanum er einnig á heimsmælikvarða. Ég hygg að ég hafi komið á réttan stað til að stunda mitt nám á þessu sviði sem er mitt hjartans mál og ég hef líka trú á því að það muni einnig koma Mósambík til góða með umbótum í stefnumótun og kynjasamþættingu.
Aðal áskorun mín við að fara í nám við Jafnréttisskólann var að yfirgefa fjölskyldu mína og segja skilið við starf mitt. Veðrið óx mér einnig í augum, en ég hef nú vanist því. Það má nánast segja að það hafi krafist ákveðins hugrekkis að koma til Íslands, en það var allt þess virði og ég er ákaflega ánægður með dvölina hér.
Námið er samsett af fimm námslotum: kynjasamþættingu, kynjagreiningu og hugtökum; kyngervi, friður og öryggi; kyngervi of ofbeldi; kyngervi og umhverfismál; og kyngervi og heilbrigði. Þessar námslotur hafa gert mér kleyft að fá innsýn í ólík málefnasvið, og beita ólíkum sjónarhornum. Ég hef lært að skilgreina hugtök betur og framkvæma greiningar sem byggja á kyngervi. Ólíkar kenningarlegar nálganir (ný-nýlendustefna, samtvinnun o.s.frv.) og nýting hugtaka geta haft sama vægi, svo dæmi sé tekið. Þessi ólíku viðfangsefni hafa án efa víkkað út sjóndeildarhring minn hvað varðar jafnrétti og tengd mál.
Þau málefnasvið sem vekja hjá mér mestan áhuga – án þess að ég geri lítið úr mikilvægi annarra – eru kyngervi, friðar- og öryggismál; kyngervi, heilsa og ofbeldi; og námslota um kyngervi og umhverfismál.
Lokaverkefni mitt hjá Jafnréttisskólanum varðar framlag akademíunnar til málefna sem varða konur, frið og öryggi. Markmiðið er að móta nám og námsskrá sem hægt er að samþætta inn í háskólanám og verður viðurkennd af stjórnvöldum og þeim stofnunum sem starfa á sviði jafnréttismála í landinu.
Ég hef í hyggju að halda áfram að starfa við háskólann og koma á fót námskeiði sem fjallar um konur, frið og öryggi. Með þessu vonast ég jafnframt til þess að hvetja til umræðu um hlutverk æðri menntastofnana í landinu til að tryggja frið og jafnrétti. Ég hyggst einnig leggja mitt af mörkum við þjálfun og menntun á sviði jafnréttismála í Mósambík, auk þess að gera úttektir á þróunarverkefnum með hliðsjón af jafnrétti.
Mósambík á að baki langvinna sögu stríðs og átaka, en hvorki er mikið vitað um þátttöku kvenna í friðarferlum og friðarviðræðum, né hvernig má tryggja hlut kvenna í að stuðla að friði eða hvaða hlutverk æðri menntastofnanir geta haft á sviði friðar og öryggis. Hugmyndin er að færa þessa umræðu inn í akademínuna og hafa með þeim hætti áhrif á ríkisstofnanir sem vinna í þessum málaflokki til að þær taki frekara tillit til jafnréttismála þegar kemur að málefnum friðar og öryggis.
Ætlun mín er jafnframt að leggja mitt af mörkum í tilraunum til að tryggja frið þar sem jafnréttisráðgjafa er þörf, hvort sem er í Mósambík eða í öðrum löndum.
Ég á eftir að sakna alls frá Íslandi. Menningarinnar, sögunnar og gestrisni fólksins. Þetta er fólkið sem af hyggjuviti settist að hér í landi íssins við landnám og umbylti því í nokkuð einstakt: Ísland nútímans.
-
Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Markmið skólans er að þjálfa fólk til jafnréttisstarfa í þróunarlöndum og samfélögum sem er verið að byggja upp eftir átök. Jafnréttisskólinn er starfræktur í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Háskóla Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra stofnana innanlands sem utan. Í náminu er lögð áhersla á að vinna að fimmta heimsmarkmiði Sþ um jafnrétti kynjanna. Nú stunda 24 nemendur nám við skólann frá 14 þjóðlöndum. Heimsljós fékk nemanda við skólann til að kynna sjálfa sig, áherslur sínar í náminu á Íslandi og aðstæður í heimalandinu.