Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp ráðherra við setningu heilbrigðisþings

Ágætu þingfulltrúar.

Síðast þegar við komu saman undir merkjum heilbrigðisþingsins var rétt búið að taka ákvörðun um að byggja upp Landspítala – háskólasjúkrahús undir einni stjórn og sameina sérgreinar spítalans. Núna er því bæði hollt fyrir heilbrigðisyfirvöld og gagnlegt fyrir fagfólk að staldra við og reyna að skyggnast inn í framtíð heilbrigðisþjónustunnar á grundvelli þess sem gert hefur verið.

Framtíðarsýn, hlutverk og samfélagsleg ábyrgð háskólasjúkrahúss á Íslandi er þema þingsins, og ef ég þekki frummælendur rétt þá hafa þeir flestir svör á reiðum höndum, og vonandi vakna hér í dag líka nýjar krefjandi spurningar.

Þegar við ákváðum að byggja upp Landspítala - háskólasjúkrahús var búið að kortleggja og kanna slíka sameiningu margsinnis, andstætt því sem stundum hefur verið haldið fram.

Það var búið að gera úttektir, skrifa skýrslur og álit og vega kosti og ókosti fram og aftur. Það var í raun aðeins eftir að taka ákvörðunina, sem forveri minn gerði og ríkisstjórnin sem þá var við völd.

Fyrirfram var vitað að sameining sérgreina yrði erfitt verk tæknilega, fyrirfram var vitað að ekki yrðu allir fullkomlega sáttir og fyrirfram var vitað að sameining myndi hafa í för með sér óþægindi fyrir starfsfólk og sjúklinga.

Uppbygging háskólasjúkrahússins hér snérist ekki um tafarlausan peningalegan sparnað, eins og haldið hefur verið fram. Bæði forveri minn í embætti og ég sjálfur hef ávalt lagt áherslu á að með sameiningunni værum við í fyrsta lagi að nýta ráðstöfunarfé okkar betur í bráð, og í öðru lagi, að búa í haginn fyrir öflugan háskóla- og kennsluspítala á Íslandi í lengd.

Það er almennt viðurkennt að æskilegast væri, vegna lækninganna, rannsóknanna og kennslunnar, að upptökusvæði spítala eins og við erum að byggja hér upp þyrfti að vera 700 til 1200 þúsund manns. Þessu mega menn ekki gleyma, hvorki þegar menn eru að tala um kostnað, né faglega stöðu og metnað á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Fámennis vegna verðum við stundum að fara aðra leiðir en fjölmennari þjóðir fara, en það er ekkert sem segir að við getum ekki gert eins vel og betur á þeim sviðum þar sem við getum með raunhæfum hætti borið okkur saman við aðra.

Og af því ég er farinn að tala um samanburð þá finnst mér það nokkur tíðindi að nú er í fyrsta sinn hægt að bera tiltekna þætti starfseminnar saman við erlenda spítala með áreiðanlegum hætti. Þegar sá samanburður er skoðaður geta starfsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss verið stoltir.

Ágætu þingfulltrúar.

Ég hef nýlega sett niður nefnd sem á að gera tillögur til mín um hvernig endurskilgreina megi verksvið Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með tilliti til breyttra þjóðfélagsaðstæðna í landinu.

Nefndin á að skilgreina verksvið spítalanna sem hátæknisjúkrahúsa, sem kennslustofnana, sem miðstöðva faglegrar þróunar, sem stofnana sem veita öllum landsmönnum þjónustu og sem svæðisbundinna sjúkrahúsa. Þessi nefnd á líka að kanna verkaskipti milli sjúkrahúsanna og annarrar, svo sem einkarekinna læknastofa – og, ég undirstrika, og, hún á að skila af sér í vor.

Ég bind vonir við að niðurstöður nefndarstarfsins geti orðið náma fyrir heilbrigðisyfirvöld og Alþingi að sækja í, þegar ákvarðanir verða teknar um frekari uppbyggingu háskólasjúkrahússins, og þá er ég bæði að tala um Landspítalann sem hús og þjónustuna sem þar er veitt.

Ég sé fyrir mér öflugan háskólaspítala sem sinnir kennslu og getur líka sinnt sérhæfðustu þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Þarna færi auðvitað fram grunn-og framhaldsnám lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Þarna þarf líka að verða til þekkingarmiðstöð heilbrigðisþjónustunnar í landinu sem byggðist á rannsóknum og hagnýtingu þeirra niðurstaðna sem verða til á vettvangi háskólasjúkrahússins og annarra aðilja innlendra sem erlendra.

Góðir þingfulltrúar.

Ég útiloka ekkert í sambandi við þá uppbyggingu sem við þurfum nú að takast á við á næstu misserum. Eitt stykki sjúkrahús undir sama þaki kemur til greina, og eins mætti hugsa sér að háskólasjúkrahús væri sameiginlegur vettvangur margra tiltölulega sjálfstæðra eininga sem starfaði undir sameiginlegri stjórn svo dæmi sé tekið.

Ég útiloka ekkert í þessum efnum, en ég legg þunga áherslu á, að sú vinna sem nú er hafin og standa mun í vetur, að hún snúist ekki bara um fjárveitingar, og að hún snúist ekki bara um hagsmuni þeirra fagstétta í víðasta skilningi orðsins, sem vinna verkin, kenna eða kanna.

Ég geri kröfu til þess að nefndarmenn, og allir sem koma að þessari umræðu, ræði heilbrigðisþjónustuna út frá þeim sem þjóna á. Ég ætlast líka til þess að menn ræði heilbrigðisþjónustuna opið og heiðarlega á pólitískum grundvelli og ekki síður siðfræðilegum. Heilbrigðisþjónusta er ekki bara hagfræði.

Umfram allt geri ég kröfu til þess að við höfum öll spilin uppá borðinu. Það þurfa öll sjónarmið að heyrast. Það þarf að velta við öllum steinum.
Menn eiga til dæmis ekki að komast upp með hálfsannleik, þegar verið er að bera saman rekstrarform heilbrigðisþjónustu milli landa, eða útgjaldatölur. Við eigum að hafa allar staðreyndir, heildarmyndina, fyrir augunum og taka ákvarðanir í ljósi þeirra. Heiðarleg og fordómalaus umræða á þessum grundvelli skilar okkur vandaðri niðurstöðu.

Markmiðið er einfalt: Heilbrigðisþjónustan á almennt að stuðla að fullkomnu líkamlegu, andlegu og félagslegu velferli og ekki einungis firð sjúkdóma. Og háskólasjúkrahús á Íslandi á að tryggja að þekking og þjálfun sé þannig að við getum staðið við þessi markmið.

Ég segi Heilbrigðisþing 2003 sett.


______________
Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta