Hoppa yfir valmynd
9. október 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn 2004

Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn 2004
Ávarp Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra
við upphaf hátíðardagskrár í Ráðhúsinu 9. okt. kl. 16:00

Góðir gestir!

Það er mér ljúft að fá tækifæri til að segja nokkur orð við upphaf dagskrár sem hér er að hefjast í tilefni Alþjóðageðheilbrigðisdagsins sem haldinn er hátíðlegur í dag. Um leið nota ég tækifærið og óska félaginu Geðhjálp til hamingju með daginn en í dag eru 25 ár frá stofnun þess.

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er að þessu sinni helgaður tengslunum milli líkamlegrar og andlegrar heilsu.

Samkvæmt hefðbundinni tvíhyggju sem jafnan er kennd við franska heimspekinginn Descartes eru líkami og sál tvö sjálfstæð og aðskilin fyrirbæri. Líkaminn er efnislegur og lýtur lögmálum náttúrunnar. Sálin er aftur á móti efnislaus og svífandi og lýtur lögmálum sem erfitt er að höndla. Sumir segja að þessi sýn hafi leitt til svo afdrifaríks aðskilnaðar milli sálar og líkama - að enn - um tvöhundruð árum síðar, hafi vart tekist að fullu að sameina þau að nýju. Kannske er þetta eitthvað orðum aukið, en þó ekki...

Við tölum gjarna um andlegt heilbrigði og líkamlegt heilbrigði eins og þar séu skýr skil á milli. Auðvitað er þetta að einhverju leyti gert til einföldunar og til að skilgreina heilsu. En heilbrigði og heilsa er ekki það sama. Heilbrigði getur aðeins verið gott en samkvæmt almennri málnotkun getur heilsa okkar verið slæm af ýmsum sökum.

Mér virðist að nú sé að myndast sterkur og sameiginlegur skilningur á því að líkamlegt og andlegt heilbrigði verði ekki aðskilið. Enginn býr við heilbrigði nema hann sé hraustur bæði andlega og líkamlega.

Forvarnir til að fyrirbyggja ýmsa líkamlega sjúkdóma og ótímabæra hrörnum þekkjum við öll. Minna þekktar eru hins vegar forvarnir sem miða að því sporna gegn geðrænum kvillum eða sjúkdómum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beinir sjónum nú í vaxandi mæli að þessum þætti forvarna og bendir á að hlutur sjúkdóma af geðrænum toga sé vaxandi með tilliti til heildarsjúkdómabyrði. Ekki dugi að beina öllum kröftum að þeim sem eru sjúkir. Það þurfi einnig að huga að þörfum þeirra sem virðast heilbrigðir í dag og beita markvissum forvörnum.

Verkefnið Geðrækt sem ýtt var úr vör á alþjóðageðheilbrigðisdeginum árið 2000 er dæmi um forvarnir á þessu sviði. Verkefnið er fræðslu- og forvarnarverkefni um geðheilsu og áhrifaþætti hennar og hófst sem samstarfsverkefni landlæknisembættisins, geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss og Heilsugæslunnar. Meginmarkmið þess er ,,að efla meðvitund einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja um geðheilbrigði. Með Geðrækt er lögð áhersla á að hlúa að því sem heilt er og fyrirbyggja með því geðraskanir á borð við kvíða og þunglyndi". Það var sérstaklega ánægjulegt að verkefnið Geðrækt skyldi nú í haust hljóta sérstaka útnefningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Alþjóðageðheilbrigðissamtakanna sem fyrirmyndarverkefni á sviði geðræktar.

Okkur ætti að vera orðið ljóst að skyndilausnir duga ekki þegar heilsan er annars vegar. Við leysum til dæmis ekki öll okkar vandamál með lyfjum þótt þau séu oft nauðsynleg. Ég verð að viðurkenna að mér hrýs hugur við sívaxandi notkun geðdeyfðarlyfja hér á landi. Ef einhverjar leiðir eru færar til að fyrirbyggja þessa miklu þörf fyrir lyf af þessu tagi þá ber okkur skylda til að finna þær og nýta út í æsar. Það er áþján að geta ekki tekist á við hvunndaginn án lyfja. Það eru lífsgæði að þurfa ekki á lyfjum að halda.

Heilsufar fólks er vissulega þáttur sem að einhverju leyti ræðst af erfðum. En fyrst og fremst ræðst heilsa okkar af lífsháttum og þeim aðstæðum sem við búum við og sköpum okkur að einhverju leyti sjálf. Hver einstaklingur þarf að taka ábyrgð á eigin heilbrigði og leggja rækt við andlega og líkamlega heilsu sína. Samfélagið í heild sinni þarf að vera ábyrgt og stofnanir þess þurfa að styðja eins og mögulegt er við alla viðleitni sem miðar að því að bæta heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma. Heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið þurfa að vera leiðandi í þessum efnum.

Áður en hátíðardagskráin hefst hér í Ráðhúsinu vil ég óska okkur öllum til hamingju með alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn og þakka þeim sem staðið hafa að skipulagningu hans að þessu sinni.


__________________

(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta