Hoppa yfir valmynd
8. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Miðvikudaginn 8. október 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 42/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 21. júlí 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur, dags. 5. maí 2014.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. mars 2014, sótti kærandi um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með tveimur bréfum þjónustumiðstöðvar, dags. 8. apríl 2014, með þeim rökum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c- og d-liða 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Með bréfi, dags. 8. apríl 2014, óskaði kærandi eftir undanþágu frá c-lið 4. gr. reglnanna en var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 15. apríl 2014, á þeirri forsendu að skilyrði b-liðar 5. gr. reglnanna væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði báðum synjununum til velferðarráðs sem tók erindi hans fyrir á fundi þann 30. apríl 2014 og samþykkti svohljóðandi bókanir:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði c. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði d. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfum, dags. 5. maí 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 21. júlí 2014. Með bréfi, dags. 28. júlí 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 19. ágúst 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. ágúst 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með tölvupósti þann 16. september 2014 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Reykjavíkurborg og bárust þau með tölvupósti sama dag.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri við meðferð máls þessa.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærumálsins kemur fram að í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík séu sett fram tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í c-lið sé kveðið á um tekju- og eignamörk og séu eignamörkin 4.381.223 krónur og tekjumörk 3.142.000 krónur miðað við einstakling, auk þess 525.986 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé samkvæmt b-lið að veita undanþágu frá lögheimili og tekjumörkum, byggða á faglegu mati, sé um mikla félagslega erfiðleika að ræða. Kæranda hafi verið hafnað um undanþágu frá b-lið þar sem það hafi verið mat ráðgjafa að félagslegt leiguhúsnæði myndi ekki breyta högum kæranda þar sem hann væri í tryggu húsnæði á vegum Öryrkjabandalags Íslands. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda hafi velferðarráð talið að þær væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda undanþágu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 5. gr. reglnanna.

Í d-lið sé kveðið á um að umsækjandi þurfi að skora að lágmarki fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna sinna, tvö stig vegna húsnæðisstöðu og tvö vegna félagslegs vanda eða sérstakra aðstæðna barna. Kærandi búi í öruggu húsnæði sem hann leigi af Öryrkjabandalagi Íslands og því hafi verið metið svo að kærandi væri hvorki í þörf fyrir húsnæði né að húsnæðisaðstæður væru verulega erfiðar. Skilyrði d-liðar 4. gr. reglnanna hafi því ekki verið uppfyllt.  

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

Umsókn kæranda var synjað á þeim forsendum að skilyrði c- og d-liða 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík væru ekki uppfyllt. Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt undanþáguákvæði 5. gr. reglnanna.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Í d-lið 4. gr. framangreindra reglna Reykjavíkurborgar er gert að skilyrði að umsækjandi skori að lágmarki fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna sinna, þ.e. tvö stig vegna húsnæðisstöðu og tvö stig vegna félagslegs vanda eða sérstakra aðstæðna barna, sbr. matsviðmið sem fylgir reglunum. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki metinn til neinna stiga vegna húsnæðisstöðu þar sem hann byggi í öruggu húsnæði. Í lið 5 a í matsviðmiði sem fylgir reglunum kemur fram að veitt sé eitt stig ef umsækjandi þurfi á húsnæði að halda, tvö stig ef húsnæðisaðstæður séu verulega erfiðar og þrjú stig ef vart sé mögulegt að bíða eftir húsnæði. Úrskurðarnefndin telur ljóst að húsnæðisaðstæður kæranda hafi ekki verið slíkar að þær hafi getað verið metnar til tveggja stiga. Fyrir liggur að kærandi er með ótímabundinn húsaleigusamning við Brynju, hússjóð Öryrkjabandalags Íslands, frá 15. janúar 2013 og því verður hvorki séð að húsnæðismissir hafi verið yfirvofandi né að um óöruggt húsnæði hafi verið að ræða. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við að húsnæðisaðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til stiga enda verður að telja ljóst að kærandi búi í öruggri leiguíbúð.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 4. gr. reglnanna eru tekjumörk fyrir einstakling 3.142.000 krónur. Í greinargerð þjónustumiðstöðvar vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði, dags. 15. apríl 2014, kemur fram að meðaltekjur kæranda síðastliðin þrjú ár hafi verið 3.151.212 krónur. Tekjur kæranda voru því yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglnanna.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmið en ekki er kveðið á um undanþágu frá viðmiðum um stig vegna húsnæðisstöðu og félagslegs vanda. Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði d-liðar 4. gr. reglnanna er það mat úrskurðarnefndarinnar að undanþáguákvæði 5. gr. komi ekki til skoðunar í málinu en líkt og að framan greinir þurfa öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum ákvæðisins að vera uppfyllt til að umsókn öðlist gildi.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 5. maí 2014, um synjun á umsókn A, um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta