Hoppa yfir valmynd
30. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 89/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 89/2013.

 1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, um ákvörðun sína þess efnis að synja beiðni hans um endurupptöku máls hans skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Vinnumálastofnun taldi að ný gögn gæfu ekki tilefni til endurupptöku á máli hans, enda kæmu engar nýjar upplýsingar fram sem þýðingu hefðu við ákvörðun máls. Vinnumálastofnun fengi ekki séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 18. júní 2013 hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Í því bréfi var kæranda tilkynnt um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 239.964 kr. ásamt 15% álagi fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 30. apríl 2010 en á þeim tíma hefði kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi hefði fengið skráninguna: ekki atvinnulaus. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 4. september 2013. Kærandi er ósammála ákvörðun Vinnumálastofnunar og biður um að mál hans verði endurskoðað að nýju. Vinnumálastofnun telur að kæranda beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laganna.

Í málsatvikalýsingu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 16. september 2009 og fengið þær greiddar til 20. ágúst 2010. Kærandi hafi jafnframt fengið greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 10. mars 2011 til 3. júní 2011. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI á tímabilinu september 2009 til febrúar 2010. Kærandi hafi reiknað sér mánaðarlegt endurgjald að fjárhæð 10.000 kr. á tímabilinu. Bráðabirgðaákvæði VI mælti fyrir um undanþágu frá skilyrðum f- og g-liða 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig 20. og 21. gr. um stöðvun rekstrar ef viðkomandi hafði tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundins atvinnuleysis hans. Með lögum nr. 134/2009 var sú breyting gerð á bráðabirgðaákvæðinu að sjálfstætt starfandi einstaklingar áttu rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli ákvæðisins í samfellt allt að þrjá mánuði. Þeir sem höfðu þegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 áttu rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Fram kemur að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu september 2009 til desember 2009. Af þeim sökum hafi kærandi aðeins getað átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði til viðbótar eða til 28. febrúar 2010.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2010, hafi Vinnumálastofnun vakið athygli á því að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar myndu falla niður frá og með 1. mars 2010. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að hann kynni að eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Þegar kærandi hafi mætt til Vinnumálastofnunar 23. febrúar 2010 hafi honum verið veittar frekari upplýsingar um þýðingu bréfsins sem honum hafi verið sent 8. febrúar 2010. Kærandi hafi þá greint frá því að hann hygðist skila inn eyðublaðinu RSK 5.04 sem sé tilkynning um afskráningu launagreiðendaskrár staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattskár.

Kærandi hafi ekki skilað inn eyðublaðinu RSK 5.04 til Vinnumálastofnunar en samkvæmt upplýsingum sem stofnunin hafi aflað frá ríkisskattstjóra barst embættinu tilkynning um skráningu af launagreiðendaskrá 24. febrúar 2010 og hafi því sú ákvörðun verið tekin á fundi stofnunarinnar 22. mars 2010 að kærandi ætti rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta eftir IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fram hafi farið í júlí 2010 hafi komið í ljós að kærandi hafði reiknað sér endurgjald að fjárhæð 10.000 kr. í mars og apríl 2010. Með bréfi, dags. 6. júlí 2010, hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kæranda vegna þessa. Á fundi stofnunarinnar 31. júlí 2010 hafi sú ákvörðun verið tekin að synja umsókn kæranda þar sem hann hafði ekki skilað inn umbeðnum gögnum.

Þann 6. ágúst 2010 hafi stofnuninni borist tilkynning um tekjur og 9. ágúst 2010 hafi Vinnumálastofnun borist eyðublaðið RSK 5.04 sem móttekið var 24. febrúar 2009 af ríkisskattstjóra og var dagsetning síðustu launagreiðslu áætluð þann 31. desember 2009. Á fundi stofnunarinnar 7. september 2010 hafi mál kæranda verið tekið fyrir og með hliðsjón af því að kærandi hafði reiknað sér endurgjald eftir lokun rekstrar í mars og apríl 2010 án þess að tilkynna um það til stofnunarinnar hafi sú ákvörðun verið tekin að kæranda skyldi gert að sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt hafi sú ákvörðun verið tekin að kæranda skyldi gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 30. apríl 2010, eða þann tíma sem hann hafi verið með opinn rekstur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, samtals að fjárhæð 309.972 kr. sem innheimtar voru á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun þessa með bréfi, dags. 4. október 2010.

Þann 18. janúar 2011 hafi Vinnumálastofnun borist skýringabréf frá kæranda ásamt greiðsluseðli frá Landsbankanum, yfirlit yfir skilagrein til Sameinaða lífeyrissjóðsins og bráðabirgðaútreikningur gjalda 2010 og áætluð greiðslustaða.

Á fundi stofnunarinnar 9. febrúar 2011 hafi sú ákvörðun verið tekin að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kæranda hafi verið tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 16. febrúar 2011.

Í júní 2013 hafi útistandandi skuld kæranda að fjárhæð 239.964 kr. enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 18. júní 2013, hafi kæranda verið tilkynnt að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 30. apríl 2010, samtals að fjárhæð 239.964 kr. með 15% álagi sem honum bæri að endurgreiða stofnuninni á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þess hafi verið farið á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins.

Þann 11. júlí 2013 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist erindi frá kæranda þar sem hann hafi greint frá því að hann átti sig ekki á því hvers vegna hann teldist ekki uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. mars 2010 til 30. apríl 2010 þar sem hann hafði ekki atvinnu þessa mánuði og þar sem hann hafði afskráð fyrirtæki sitt 24. febrúar 2010. Erindi kæranda hafi verið svarað á þá leið að samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra hefði hann reiknað sér endurgjald í mars og apríl 2010 og teldist því ekki uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 23. júlí 2013 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá ríkisskattstjóra þar sem sagði meðal annars að kærandi hefði á rekstrarárinu 2009 verið með sjálfstæða starfsemi á eigin kennitölu sem smiður. Samkvæmt samkomulagi milli ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar hafi kærandi haft 10.000 kr. í reiknað endurgjald án þess að hafa tekjur frá og með ágúst 2009 til apríl 2010. Hann hafi skilað inn skattframtali 2011 vegna rekstrar á árinu 2010 og þar komið fram að hann hafði engar tekjur af sjálfstæðri starfsemi og við álagningu 2011 hafi hann fengið endurgreitt það tryggingagjald sem hann hafði greitt á árinu 2010.

Á fundi Vinnumálastofnunar 15. ágúst 2013 hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með tilliti til nýrra gagna. Þar sem ekki hafi verið séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 14. júní 2013 hefði verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum, hafi fyrri ákvörðun í máli kæranda verið staðfest. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessa ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 16. ágúst 2013.

Þann 19. ágúst 2013 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá ríkisskattstjóra þar sem meðal annars var greint frá því að kærandi hefði verið afskráður af launagreiðendaskrá þann 24. febrúar 2010 en án tilkynningar og á röngu ári og hefði hann því verið afskráður frá febrúar 2009 í stað 2010. Engin afskráningartilkynning hafi legið fyrir þessari afskráningu. Þann 2. júní 2010 hafi borist tilkynning um lokun frá 1. júní 2010. Með erindi þessu hafi fylgt tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattskrá, dags. 1. júní 2010.

Á fundi stofnunarinnar 21. ágúst 2013 hafi sú ákvörðun verið tekin að hafna beiðni kæranda um endurupptöku máls skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem engin ný gögn hefðu komið fram í máli hans. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessa ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 22. ágúst 2013. Þessa ákvörðun hefði kærandi kært til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 4. september 2013.

Í kæru sinni, dags. 4. september 2013, greinir kærandi frá því að mál sitt hafi verið hjá Vinnumálastofnun frá árinu 2010. Fyrst hafi útskýringar kæranda aldrei verið skriflegar. Síðan hafi þær oft verið gerðar skriflega en það hafi endað með því að vera endursent og enginn hafi viljað hlusta á sig. Staðan í dag sé sú að Vinnumálastofnun ætli að loka málinu.

Kærandi kveður ríkisskattstjóra vera sammála sér og hafa sagt að kærandi hafi rétt fyrir sér en engin vilji heldur hlusta á ríkisskattstjóra. Því hafi kærandi ákveðið að leita til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til að fá hjálp í málinu því á meðan kærandi hafi haft bótarétt hafi hann aldrei unnið. Vinnumálastofnun hafi aldrei svarað tölvupósti sem ríkisskattstjóri hafi sent.

Kærandi greinir frá því að honum líði ekki vel því síðan 2010 sé hann í augum Vinnumálastofnunar svindlari og hann sé ósammála því. Þegar það hafi verið ákveðið að fella niður bótarétt kæranda hafi hann verið alveg tekjulaus í tvo mánuði. Samkvæmt Vinnumálastofnun skuldi kærandi 239.963 kr. sem honum finnist hann ekki eiga að borga og vonast hann til að úrskurðarnefndin geti aðstoðað sig.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 12. nóvember 2013, er bent á að lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Er kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta 16. september 2009 hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV með lögum um atvinnuleysistryggingar. Það ákvæði mælti fyrir um undanþágu frá skilyrðum f- og g-liða 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar ef viðkomandi hafði tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundins atvinnuleysis hans. Með lögum nr. 134/2009 hafi sú breyting verið gerð á bráðabirgðaákvæðinu að sjálfstætt starfandi einstaklingar áttu rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli ákvæðisins í samfellt allt að þrjá mánuði. Þeir sem höfðu þegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 áttu rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Kærandi hafi þegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu september 2009 til desember 2009. Kærandi hafi af þeim sökum aðeins átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði til viðbótar eða til 28. febrúar 2010.

Þegar kærandi hafi verið búinn að nýta sér rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins hafi farið um rétt hans sem sjálfstætt starfandi einstaklingur eftir IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í þeim kafla laganna sé mælt fyrir um þau skilyrði er sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta.

Í 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um almenn skilyrði sem sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi að uppfylla til þess að njóta réttar innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Sé þar meðal annars mælt fyrir um í f- og g-liðum 18. gr. laganna að sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi að hafa stöðvað rekstur og hafa lagt fram staðfestingu um stöðvun rekstrar til þess að teljast tryggður.

Í 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gerð nánari grein fyrir því hvað sé átt við með stöðvun rekstrar. Einnig sé það gert að skilyrði að hinn sjálfstætt starfandi einstaklingur skili inn staðfestingu á stöðvun rekstrar. Jafnframt vísar Vinnumálastofnun til 21. gr. laganna.

Af fyrirliggjandi gögnum í málinu telji Vinnumálastofnun að ráða megi að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu mars 2010 til apríl 2010. Réttur kæranda til greiðslna atvinnuleysisbóta án stöðvunar rekstrar lauk 28. febrúar 2010, hafi kæranda þá borið að loka launagreiðendakrá. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflaði frá ríkisskattstjóra í mars 2010 hafi kærandi þá verið skráður af launagreiðendaskrá þann 24. febrúar 2010. Hafði því Vinnumálastofnun ekki ástæðu til annars en að ætla að kærandi hafi uppfyllt skilyrði IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fram fór í júlí 2010 kom í ljós að kærandi hafði reiknað sér endurgjald að fjárhæð 10.000 kr. í mars og apríl 2010. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á tímabilinu 1. mars til 30. apríl 2010 hafi sú ákvörðun verið tekin á fundi stofnunarinnar 7. september 2010 að kærandi skyldi endurgreiða stofnuninni þær atvinnuleysisbætur sem hann fékk greiddar á tímabilinu.

Í júní 2013 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 18. júní 2013, hafi verið farið þess á leit við kæranda að hann greiddi útistandandi skuld, samtals að fjárhæð 239.964 kr. að meðtöldu 15% álagi innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Í kjölfarið hafi Vinnumálastofnun borist staðfesting frá ríkisskattstjóra, dags. 23. júlí 2013, þar sem segir að við álagningu 2011 hafi kærandi fengið endurgreitt það tryggingagjald sem hann hafi greitt á árinu 2010. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi stofnunarinnar 15. ágúst 2013 í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með tilliti til nýrra gagna. Sú ákvörðun hafi verið tekin að staðfesta ætti fyrri ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta enda hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði f-liðar 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 20. og 21. gr. laganna, um að hafa lokað rekstri á tímabilinu 1. mars til 30. apríl 2010. Breyti engu í því sambandi að tryggingagjald hafi verið endurgreitt, enda hafi rekstur á þessum tíma verið opinn og skilyrði VI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar ekki verið uppfyllt. Kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 16. ágúst 2013.

Þann 19. ágúst 2013 hafi Vinnumálastofnun borist á ný staðfesting frá ríkisskattstjóra, meðal annars þess efnis að kærandi hafi fengið tryggingagjald vegna ársins 2010 endurgreitt og að hann hafi verið skráður af launagreiðendaskrá 24. febrúar 2010 án þess að fyrir lægi tilkynning ríkisskattstjóra 5.04. Tilkynning um afskráningu hafi borist 2. júlí 2010 um lokun launagreiðendaskrár frá og með 1. júní 2010. Með erindi ríkisskattstjóra fylgdi eyðublað 5.04 um tilkynningu um afskráningu launagreiðendaskrár frá og með 1. júní 2010 sem borist hafi embættinu 2. júlí 2010.

Á fundi stofnunarinnar 21. ágúst 2013 hafi sú ákvörðun verið tekin að synja beiðni kæranda um endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem engin ný gögn í máli hans hefðu borist. Ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. ágúst 2013.

Að mati stofnunarinnar beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 30. apríl 2010, samtals að fjárhæð 239.964 kr. með 15% álagi, enda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu. Sú niðurstaða byggist á 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. nóvember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. nóvember 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. janúar 2014, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin sendi Vinnumálastofnun tölvupósta, dags. 2. og 10. júní 2014, og óskaði eftir afriti af gögnum sem vísað er til í málinu. Svör við beiðni nefndarinnar bárust 4. júní og 7. ágúst 2014 og umbeðin gögn bárust að hluta til.

2. Niðurstaða

Mál þetta snýst um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til kæranda samkvæmt innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2013.

Upphafleg ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til kæranda að fjárhæð 309.972 kr. er frá 7. september 2010. Kærandi fór fram á endurupptöku þeirrar ákvörðunar og var honum synjað um endurupptöku með bréfi, dags. 16. febrúar 2011. Hvorki hin upphaflega ákvörðun Vinnumálastofnunar né ákvörðunin um að synja kæranda um endurupptöku voru kærðar til úrskurðarnefndarinnar innan hins þriggja mánaða lögmælta kærufrests, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með kæru þeirri, sem nú er til endurskoðunar, byggir kærandi aðallega á því að áðurraktar ákvarðanir Vinnumálastofnunar hafi verið haldnar slíkum ágöllum að rétt sé að breyta efni þeirra. Slíkar málsástæður koma ekki til álita í máli þessu enda segir í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Þessi niðurstaða styðst einnig við þau rök að ekki sé hægt að fara framhjá reglum um kærufresti með því að kæra ákvörðun um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og byggja þá kæru á málsástæðum sem búið er að taka afstöðu til með stjórnvaldsákvörðun í eldra máli. Af þessum sökum verður ekki í þessum úrskurði endurskoðað hvort áðurnefndar ákvarðanir Vinnumálastofnunar frá september 2010 og febrúar 2011 hafi verið réttar að efni til.

Eins og fram hefur komið var kæranda sent innheimtubréf 18. júní 2013 þar sem farið var fram á endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta alls að fjárhæð 239.964 kr. með 15% álagi. Kærandi fór einnig fram á endurupptöku þeirrar ákvörðunar en var synjað með bréfi, dags. 16. ágúst 2013.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið og gagna þessa máls er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. júní 2013 staðfest um að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. mars til 30. apríl 2010 alls að fjárhæð 239.964 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í málsatvikalýsingu sinni og gögnum sem fylgdu greinargerð Vinnumálastofnunar vísar stofnunin til nokkurra gagna sem úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur í tvígang óskað eftir með tölvupóstum, dags. 2. og 10. júní 2014, en með tölvupósti frá stofnuninni, dags. 7. ágúst 2014, var það staðfest að umrædd gögn liggi ekki fyrir í málinu.

Í máli þessu breytir það ekki niðurstöðu þess að umbeðin framangreind gögn hafi ekki legið fyrir en átelja verður þau vinnubrögð Vinnumálastofnunar að vísa til og beita gögnum sem liggja ekki fyrir í málinu.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. júní 2013 í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 239.964 kr. ásamt 15% álagi fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 30. apríl 2010 er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta