Þorkell Helgason, Ph.D.
Til stjórnarskrárnefndar
Ég undirritaður ræddi við formann nefndarinnar á förnum vegi fyrir nokkru. Talið barst að aðferðum við kjör á forseta Íslands, en ég hef um áratuga skeið haft mikinn áhuga á kosningaaðferðum og þykist hafa aflað mér sérþekkingar á því sviði. Formaðurinn hvatti mig til senda nefndinni pistil um þessar ábendingar mínar. Þetta er tilefni þessara skrifa. Umbeðinn pistil er að finna í 1. fylgiskjali. En allt viðvíkjandi kosningafræðum er flókið mál, og fátt ef nokkuð einhlítt í þeim efnum. Ég er því reiðubúinn að fjalla nánar um viðfangsefnið, sé þess óskað.
Ég hef lengi haft áhuga á því mikilvæga efni sem stjórnarskrárnefnd hefur til umfjöllunar. Áhugi minn beinist einkum að grundvallaratriðum stjórnskipunarinnar og þá um leið möguleikum almennings til áhrifa, t.d. með fyrirkomulagi kosninga sem veitti kjósendum fleiri valmöguleika en nú er.
Ég hef á hinn bóginn verið hikandi við að tjá mig þar sem ég er (enn) embættismaður og hef meira að segja nýlega haldið því fram í ræðu að málfrelsi þeirra séu miklar skorður settar! En nú er formaður nefndarinnar búinn að losa um málbeinið á mér. Því læt ég flakka til fróðleiks pistill sem ég skrifaði upphaflega handa þröngum hópi manna um 26. gr. stjórnarskrárinnar; sjá 2. fylgiskjal.
Að lokum leyfi ég mér að segja það álit mitt – sem ég hef kastað fram áður á ráðstefnu nefndarinnar – að brýnasta stjórnarskrábreytingin nú sé að gera það erfiðara að breyta stjórnarskránni. Og það ætti að vera eina breytingin að þessu sinni.
Núgildandi ákvæði kveður á um að rjúfa skuli þing að lokinni samþykkt þess á stjórnarskrárbreytingu og að síðan þurfi nýtt þing að staðfesta breytinguna. Mér virðast eftirtaldir kostir einkum koma til greina:
1. Hafi Alþingi samþykkt stjórnarskrárbreytingu skal rjúfa þing. Nýtt þing hafi síðan þann eina tilgang að fjalla um stjórnarskrárbreytinguna. Að því máli afgreiddu (með samþykkt eða synjun) skal aftur rjúfa þing.
2. Stjórnarskrárbreytingu sem Alþingi hefur samþykkt skal tafarlaust bera undir þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.
Að mínu mati er síðari kosturinn æskilegri.
Virðingarfyllst,
Þorkell Helgason, Ph.D.
Fylgiskjöl:
1. Minnisblað um aðferðir við kjör forseta Íslands, dags. í desember 2006.
2. "Um skilning á 26. gr. stjórnarskrárinnar eftir orðanna hljóðan", síðast dags. í júní 2005.