Færðu kanadísku bókasafni bókagjöf: 75 ár af stjórnmálasambandi Íslands og Kanada
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, afhenti Whitehorse bókasafninu í Yukon fylki í Kanada íslenska bókagjöf og þakkaði fyrir höfðinglega gjöf sem sendiráð Kanada á Íslandi færði íslenskum bókasöfnum á Akureyri og í Reykjavík fyrr á þessu ári. Í ár fagna þjóðirnar 75 ára stjórnmálasambandi Íslands og Kanada.
Bækurnar 30, sem ráðherra afhenti safninu, eru barnabækur, ljóðabækur, Íslendingasögur, skáldsögur og heimildaverk. Þeirra á meðal er bókin Sprakkar eftir forsetafrú Íslands, Elizu Reid og verkið Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.
„Þetta var einn af mörgum viðburðum sem sendiráð Íslands í Kanada og kanadíska sendiráðið á Íslandi hafa skipulagt til að fagna 75 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna. Viðburðirnir hafa undirstrikað menningarleg, vísindaleg og efnahagsleg tengsl ríkjanna og þau sameiginlegu einkenni sem tengja okkar saman. Við Íslendingar skilgreinum okkur út frá bókmenntaarfinum, nýlegum og eldri bókum. Það er okkur því sannur heiður að geta endurgoldið bókagjöfina sem kanadíska sendiráðið í Reykjavík færði íslenskum bókasöfnum fyrr á þessu ári,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
„Lestur opnar víddir nýrra hugmynda, staða og fólks. Í tilefni þessara tímamóta færa löndin hvoru öðru gjafir þekkingar, það er bókagjafir, og fagna sterkum stjórnmálatengslum og sameiginlegri sögu okkar. Bókagjöfin undirstrikar styrk sambandsins og mikilvægi sameiginlegra gilda okkar. Takið endilega þátt í að fagna 75 ára afmælinu með því að njóta þessa úrvals kanadískra og íslenskra bóka!,“ segir Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada.
Ráðherra er í Kanada þar sem hún heimsækir Arctic Arts Summit sem er haldin í Whitehorse í Yukon. Á safninu hitti ráðherra fyrir Richard Mostyn, ráðherra samfélagsmála í Yukon og saman lásu þau upp úr bókinni „Lundi sem heitir Flo,“ auk þess sem sérstök dagskrá með lundaþema var á bókasafninu fyrir börn.