Hoppa yfir valmynd
10. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og vinnumarkaðsráðherrar ESB og EFTA funduðu í Stokkhólmi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt fleiri fundargestum í Stokkhólmi.  - mynd

Áskoranir á vinnumarkaði og félagsleg vernd voru meðal fundarefna á óformlegum fundi félags- og vinnumarkaðsráðherra ESB sem haldinn var í Stokkhólmi fyrir skemmstu. Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum var boðin þátttaka og sótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd. Á dagskrá voru tvö meginfundarefni. 

Hæfni fólks og þarfir atvinnulífs

Fyrra fundarefnið laut að því hvernig unnt sé að mæta áskorunum vegna þess misvægis sem er á hæfni vinnuafls og þörfum atvinnulífs í Evrópu. Jafnframt hvaða hlutverki ríkisstjórnir, vinnustaðir, aðilar vinnumarkaðarins, aðrir haghafar og einstaklingar geta gegnt í þeim efnum. Sérstaklega var fjallað um það með hvaða hætti Evrópuáætlunin Year of Skills geti stuðlað að betra jafnvægi á þessu sviði.

Mikill samhljómur var í máli fundargesta um mikilvægi þess að fjárfesta í fólki til að bregðast við þeim áskorunum sem fram undan eru vegna skorts á sérhæfðu starfsfólki til að sinna störfum framtíðar, á sama tíma og atvinnuleysi er til staðar. Fundarmenn voru einnig sammála um að ekki væri nægilegt að bæta menntun á sviði stafrænnar tækni, heldur þyrfti endur- og símenntun að vera hluti af lífi og starfi okkar allra.

Ráðherrarnir skýrðu frá aðgerðum sem ráðist hefur verið í eða eru fyrirhugaðar til að bregðast við ofangreindum áskorunum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson vakti athygli á því að mikilvægt væri að stefnumörkun og aðgerðir byggðu á gögnum um þær breytingar sem fram undan væru á vinnumarkaði.

Hann skýrði frá breytingum á fyrirkomulagi framhaldsfræðslu á Íslandi auk þess sem hann greindi frá aðgerðum í því skyni að auka samfélagslega virkni ungmenna sem eru hvorki í námi, vinnu né atvinnuleit.

Félagsleg vernd á tímum breytinga

Seinna viðfangsefni fundarins laut að því hvernig unnt sé að tryggja sjálfbæra félagslega vernd í ljósi grænna umskipta og lýðfræðilegra breytinga í Evrópu. Til grundvallar umræðum lá skýrsla sérfræðihóps þar sem meðal annars kemur fram að hærri lífaldur og lækkuð fæðingartíðni leiða til þess að þörf er á aukinni atvinnuþátttöku, auk þess sem endurskoða þarf félagsleg stuðningskerfi og fjármögnun þeirra.

Á fundinum kom fram að ríkin leita nú almennt leiða til að bregðast við þessum áskorunum með því að hvetja sem flest til atvinnuþátttöku og endurskipuleggja þjónustu við eldra fólk. Í framsögu Guðmundar Inga kom fram að mikilvægt sé að huga að fjárfestingu í velferð á öllum æviskeiðum.

Ráðherra skýrði meðal annars frá nýlegum breytingum á lögum í þágu barna á Íslandi og fyrirhuguðum breytingu á örorkulífeyriskerfinu sem miða að því að auka virkni og þátttöku í samfélaginu. Hann greindi einnig frá aðgerðaáætlun í málefnum eldra fólks, Gott að eldast, sem er ætlað að bæta heilsu og vellíðan eldra fólks auk þess að nýta hæfileika þess og reynslu til heilla fyrir samfélagið allt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta