Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Staðan á vinnumarkaði kynnt í ríkisstjórn

Fólk á torgi
Fólk á torgi

Alls voru um 4.680 skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í júlí síðastliðnum og svarar það til 2,6% atvinnuleysis. Atvinnuleysi mældist 3,2% meðal kvenna en 2,0% hjá körlum. Atvinnuástand mældist svipað í júní síðastliðnum og áætlað er að skráð atvinnuleysi í ágúst verði á bilinu 2,6–2,8%. Félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti stöðuna á innlendum vinnumarkaði fyrir ríkisstjórn í dag.

Þess má geta að Hagstofa Íslands fylgist reglubundið með stöðunni á vinnumarkaði. Aðferðafræðin er önnur en hjá Vinnumálastofnun þar sem Hagstofan leggur spurningakönnun fyrir úrtak sem valið er af handahófi úr þjóðskrá. Samkvæmt síðustu könnun Hagstofunnar sem gerð var í júní mældist atvinnuleysi 2,9%.

Skráð atvinnuleysi eftir landshlutum

Skráð atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 2,9% í júlí 2015 og stóð því í stað milli mánaða. Skráð atvinnuleysi á landsbyggðinni í heild var 2,0% í júlí 2015 og hafði því dregist saman um 0,1% miðað við júní 2015 sem svarar til þess að atvinnuleitendum á landsbyggðinni hafi fækkað hlutfallslega um 57 á milli þessara mánaða. Skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum lækkaði um 0,1% milli sömu mánaða og var 3,0% í júlí 2015 sem svarar til þess að 358 atvinnuleitendur hafi að meðaltali verið skráðir þar án atvinnu á þeim tíma. Skráð atvinnuleysi lækkaði í öllum landshlutum í júlí 2015 en stóð í stað á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi.

Atvinnuleitendur skemmri tíma án atvinnu en áður

Eitt af skilyrðum laga fyrir greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði er að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og sé þar með reiðubúinn að taka starfi sem honum býðst. Ein af megináherslum Vinnumálastofnunar í störfum sínum með atvinnuleitendum er að aðstoða þá við að fá sem fyrst störf að nýju á vinnumarkaði en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur almennt styst sá tími sem einstaklingar eru skráðir án atvinnu hjá stofnuninni hverju sinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta