Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 412/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 412/2022

Fimmtudaginn 17. nóvember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 11. ágúst 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. maí 2022, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun frá október 2019 til nóvember 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. mars 2022, var óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum frá kæranda vegna fjármagnstekna á árinu 2020. Skýringar og gögn bárust frá kæranda 21. mars 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. maí 2022, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu janúar til desember 2020 vegna fjármagnstekna, samtals að fjárhæð 234.961 kr. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. júní 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 14. september 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 10. október 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 27. október 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. október 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. maí 2022 verði felld úr gildi. Tekið er fram að kærandi hafi verið krafin um greiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum á tímabilinu janúar til desember 2020, alls að fjárhæð 234.961 kr. vegna fjármagnstekna að upphæð 3.258.681 kr. á árinu 2020. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið framangreinda upphæð greidda á árinu 2020. Um sé að ræða fjármagnstekjur maka hennar en ekki kæranda. Meðfylgjandi samantekt fjármagnstekna, byggð á skattframtali og skattayfirliti, leiði í ljós að hér sé um að ræða fjármagnstekjur sem eiginmaður kæranda hafi fengið greiddar, alls 3.359.847 kr., en kærandi hafi einungis fengið greiddar fjármagnstekjur að fjárhæð 6.012 kr. Eins og meðfylgjandi gögn sýni hafi eiginmaður kæranda verið skráður eigandi viðkomandi fjármagnstekna hjá bönkum og fjármálastofnunum. Umræddar tekjur séu alfarið séreign eiginmanns kæranda líkt og framangreind gögn sýni og séu kæranda óviðkomandi, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun hafi hins vegar kosið í rökstuðningi sínum með bréfi, dags. 27. júní 2022, að virða röksemdir kæranda að vettugi og sérstaklega skírskotun kæranda til ótvíræðs orðalags 36. gr. laganna.

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 segi meðal annars að frádráttur verði vegna tiltekinna tekna svo sem „fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum“. Samkvæmt orðanna hljóðan sé hér eingöngu vísað til fjármagnstekna „hins tryggða“ sem njóti bóta en ekki maka eða annarra sem kunni að vera samskattaðir með „hinum tryggða“. Engar frekari skýringar sé að finna í greinargerð með lögum nr. 134/2009 er hafi breytt lögum nr. 54/2006 með þessum hætti. Að auki sé ákvæði 36. gr. laganna undantekningarákvæði sem sé íþyngjandi fyrir hinn tryggða þar sem eftir efni þess geti bætur lækkað í tilteknum tilfellum, en að auki beri að skýra ákvæðið þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Túlkun Vinnumálastofnunar sé því andmælt sem andstæðri almennum lögskýringarreglum þar sem forsendur hennar séu þær að krefja eigi endurgreiðslu sökum þess að kærandi hafi þegið verulegar fjármagnstekjur á árinu 2020. Skýrt orðalag ákvæðisins, sem verði að telja að sé vilji löggjafans, vísi til persónulegra fjármagnstekna kæranda, sem hins tryggða, og geti ekki með nokkru móti verið túlkað með rýmri hætti.

Kærandi bendi á að atvinnuleysistryggingar séu persónulegur réttur sem einstaklingi sé veittur sökum þess að viðkomandi hafi misst atvinnu sína og veiti þeim fjárhagsaðstoð á meðan viðkomandi launamaður leiti sér að nýju starfi, sbr. 2. gr. laga nr. 54/2006. Samsköttun hins tryggða og maka hennar sé því málinu óviðkomandi, enda hvergi tiltekið um samsköttun í lögum nr. 54/2006.

Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar, dags. 27. júní 2022, sé vísað til þess að fyrri úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála styðji túlkun Vinnumálastofnunar þar sem nefndin hafi fjallað um fjármagnstekjur í úrskurðum sínum. Þar sé vísað til úrskurðar í máli nr. 273/2019 sem væri eðlislíkt mál og hér sé til umfjöllunar. Túlkun Vinnumálastofnunar sé alfarið hafnað sem rangri, ef miðað sé við málsatvik og eðli þeirra fjármagnstekna sem hafi verið fjallað um í máli nr. 273/2019. Í því máli hafi kærandi sjálfur þegið 5.441.065 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2017. Þar hafi verið um að ræða fjármagnstekjur sem kærandi hafi aflað persónulega. Slíkt eigi ekki við í þessu máli. Kærandi hafi einungis fengið fjármagnstekjur að fjárhæð 6.012 kr. á árinu 2020. Málin séu því ósambærileg þar sem í þessu máli sé byggt á fjármagnstekjum maka. Hvergi sé að finna þess dæmi í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar að fjármagnstekjur maka hafi leitt til kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Sú skylda til endurgreiðslu ofgreiddra bóta sem finna megi í 1. og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 taki til „breytinga“ sem hafi orðið á tekjuskattsálagningu hins tryggða vegna tekna sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur séu byggðar á, sbr. 32. gr. sömu laga. Í tilfelli kæranda sé ekki að finna neinar breytingar frá þeim tíma er kærandi sem „hinn tryggði“ hafi sótt um atvinnuleysisætur. Það hafi legið fyrir á þeim tíma er umsókn hafi verið lögð fram að kærandi myndi fá óverulegar fjármagnstekjur (6.012 kr.) árinu 2020. Sama eigi við um fjármagnstekjur maka kæranda.

Það hafi hins vegar verið á forræði Vinnumálastofnunar sem stjórnvalds að óska eftir viðhlítandi gögnum um tekjur þegar umsókn hafi verið lögð fram, enda bæði byggt á því í þessu máli að Vinnumálastofnun hafi vanrækt leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sína. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi hún heimsótt skrifstofu Vinnumálastofnunar og hafi rætt við ráðgjafa sem hafi skráð kæranda á atvinnuleysisbætur. Viðkomandi ráðgjafi hafi hvorki veitt kæranda neinar upplýsingar né óskað eftir upplýsingum varðandi fjármagnstekjur sérstaklega eða mögulegan frádrátt vegna fjármagnstekna maka yfirhöfuð. Telja verði að sú skylda hvíli á stjórnvaldi í þessari stöðu að óska eftir viðhlítandi gögnum um tekjur kæranda sem mögulega kæmu til frádráttar, sbr. 36. gr. laganna, sem ekki hafi verið gert. Vinnumálastofnun hafi að þessu leiti vanrækt leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.

Þá taki kærandi fram að hún hafi hlaðið inn á vef Vinnumálastofnunar hinn 21. mars 2022 bæði bréfi lögmanns og eintaki af skattskýrslu ársins 2021 vegna tekna ársins 2020, þó af ókunnum ástæðum hafi það ekki ratað til Vinnumálastofnunar fyrr en 4. maí 2022. Bæði bréf lögmanns og skattskýrsla séu með tölvudagsetningunni 21. mars 2022. Þar sé kæranda ekki um að kenna og þá hafi henni ekki borist bréf Vinnumálastofnunar, dags. 30. mars 2022.

Í athugasemdum kæranda eru málsatvik eins og þeim sé lýst í kæru ítrekuð og rangfærslum Vinnumálastofnunar um að skattframtal hafi ekki borist fyrr en 4. maí 2022 vísað aftur á bug. Sú fullyrðing standist ekki skoðun því að bréf lögmanns og skattframtalið, hvort tveggja dagsett 21. mars 2022, hafi verið hlaðið upp í kerfi Vinnumálastofnunar en mögulega misfarist þar.

Túlkun Vinnumálastofnunar á ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 standist enga skoðun, enda hvorki studd neinum fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála né orðalagi ákvæðisins. Skýrt orðalag ákvæðisins styðji hins vegar túlkun kæranda. Það sé rétt sem fram komi í afstöðu Vinnumálastofnunar að samkvæmt ákvæðinu skuli fjármagnstekjur atvinnuleitanda skerða atvinnuleysisbætur. Hins vegar snúist ágreiningur aðila um hversu víðtæk heimild sé í ákvæðinu til að heimila slíka skerðingu þegar um samanlagðar fjármagnstekjur sé að ræða hjá hjónum sem séu samsköttuð samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í 36. gr. laga nr. 54/2006 sé hvergi vísað til eða byggt á lögum nr. 90/2003 eða hjúskaparlögum nr. 31/1993. Nærtækast sé að vísa í fyrri breytingar á ákvæðinu í meðförum Alþingis, eða nánar tiltekið lög nr. 134/2009 sem veiti vísbendingu um hvernig löggjafinn hafi litið á greiðslur til atvinnuleitanda er kæmu til frádráttar atvinnuleysisbótum. Í athugasemdum með frumvarpinu segi við 12. gr. að „[l]agt er til að skýrar verði kveðið á hvaða greiðslur sem atvinnuleitandi fær sér til framfærslu á sama tímabili og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur kunna að koma til frádráttar....bótunum“. Þar sé bætt við ákvæðið greiðslum úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna og öðrum greiðslum sem „hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum“, en eftir sem áður sérstaklega tiltekið að „fjármagnstekjur hins tryggða“ komi til frádráttar bótum. Ákvæðið tiltaki hins vegar ekki að fjármagnstekjur maka verði taldar með sem fjármagnstekjur hins tryggða þegar komi að greiðslum sem komi til frádráttar atvinnuleysisbótum. Löggjafanum hefði verið í lófa lagið að taka af öll tvímæli í þessu tilliti og vísa til sameiginlegra tekna hjóna sem ekki sé gert í 36. gr. laga nr. 54/2006.

Hvað sem líði ákvæðum hjúskaparlaga sé hvergi tilgreint að fjármagnstekjur maka þurfi að uppfylla kröfur um séreign samkvæmt kaupmála til að sæta ekki frádrætti samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 líkt og haldið sé fram í afstöðu Vinnumálastofnunar. Ekki sé unnt að taka undir röksemdarfærslu Vinnumálastofnunar að fjármagnstekjur sem sannarlega stafi frá séreign maka kæranda, líkt og framlögð gögn sýni og skattframtal þeirra hjóna, eigi að leiða til endurgreiðslu á atvinnuleysisbótum kæranda. Slíkt hafi ekki stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun hafni því í afstöðu sinni að hafa með einhverjum hætti brugðist leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Hér sé hins vegar ekki farið rétt með staðreyndir eða innihald skyldunnar. Páll Hreinsson segi í riti sínu Stjórnsýslulögin, skýringarrit (1994) á bls. 92 um efni leiðbeininganna að það skuli veita aðila „þær leiðbeiningar sem honum eru nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt“. Hér sé að sjálfsögðu átt við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum. Að boða kæranda á hópfund 14. nóvember 2019, sem hún hafi mætt á, og nefna námskeið þar sem eitt umfjöllunarefna hafi verið reglur þær sem fylgi því að þiggja bætur sé ofmælt í meira lagi. Námskeiðið hafi síður en svo fjallað um reglur þær sem fylgja bæri eða hafi gefið kost á svörum varðandi samsköttun eða frádrátt vegna fjármagnstekna kæranda. Meðfylgjandi séu eintök af tölvupóstum Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 12. nóvember og 29. október 2019. Kærandi hafi kynnt sér efni hins síðarnefnda tölvupósts en þar sé hvergi að finna tilvísun í frádrátt vegna fjármagnstekna maka hins tryggða eða samsköttun.

Því sé ekki unnt að fallast á þá fullyrðingu Vinnumálastofnunar að stofnunin hafi ekki brugðist leiðbeiningarskyldu sinni þegar þau tvö atriði sem bent sé á tiltaki ekkert um hvernig kærandi geti gætt hagsmuna sinna hvað varði frádrátt vegna fjármagnstekna.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysisbætur þann 21. október 2019 og hafi verið á skrá hjá stofnuninni þar til hún hafi farið fram á að vera afskráð þann 29. nóvember 2021.

Með erindi, dags. 8. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að í samkeyrslu Vinnumálastofnunar við gögn frá Ríkisskattstjóra hafi komið fram að kærandi hefði á árinu 2020 haft 3.258.681 kr. í fjármagnstekjur. Vinnumálastofnun hafi því óskað eftir upplýsingum um fjármagnstekjur kæranda. Í erindinu hafi sérstaklega verið óskað eftir upplýsingum um fyrir hvaða tímabil tekjur hafi verið greiddar, auk þess að upplýst yrði um hvers konar tekjur væri að ræða. Þá hafi verið farið fram á afrit af skattframtali ársins 2021 vegna tekna ársins 2020, ásamt öllum fylgigögnum þess.

Í kjölfar erindis Vinnumálastofnunar hafi borist skýringar frá kæranda, eða þann 9. mars 2022 þar sem farið hafi verið fram á tveggja vikna frest til að skila umbeðnum gögnum. Þann 21. mars 2022 hafi borist bréf frá lögmanni kæranda þar sem fullyrt hafi verið að fjármagnstekjur ársins 2020, að upphæð 3.258.681 kr., hefðu ekki verið greiddar til kæranda heldur til maka hennar. Ekkert skattframtal hafi þó fylgt með umræddu erindi og því hafi stofnunin ítrekað beiðni um afrit af skattframtali ársins 2021 vegna tekna ársins 2020 svo að unnt væri að sannreyna þær skýringar að um væri að ræða fjármagnstekjur maka.

Þann 4. maí 2022 hafi Vinnumálastofnun borist skattframtal ársins 2021 vegna tekna ársins 2020. Af skattframtalinu hafi ekki verið hægt að sjá að um fjármagnstekjur vegna séreignar maka væri að ræða. Fjármagnstekjum samskattaðra aðila hafi verið deilt til helminga og deilt niður á alla mánuði ársins og sú niðurstaða skráð sem tekjur til skerðingar atvinnuleysisbótum. Mánaðarlegar tekjur kæranda hafi því numið 135.778 kr. á mánuði á öllu árinu 2020.

Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun í máli kæranda þann 11. maí 2022. Það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2020, samtals að fjárhæð 234.961 kr. og að sú fjárhæð yrði innheimt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 1. mgr. 36. gr. laganna sé fjallað um frádrátt af atvinnuleysisbótum vegna tekna. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt ákvæðinu skuli fjármagnstekjur atvinnuleitenda skerða atvinnuleysisbætur. Þegar samanlagðar fjármagnstekjur atvinnuleitanda og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemi óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram séu. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga árið 2020 hafi verið 71.262 kr. Einungis beri að taka tillit til þeirra tekna sem viðkomandi hafi á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eftir greiðslum.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur alla mánuði ársins 2020. Á árinu hafi sameiginlegar fjármagnstekjur kæranda og maka hennar numið 3.258.681 kr. Samkvæmt sameiginlegu skattaframtali kæranda og maka hennar hafi að meginstefnu til verið um vaxtatekjur, arð og hagnað af sölu hlutabréfa að ræða.

Samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt teljist vaxtatekjur, arður og söluhagnaður til skattskyldra tekna. Um tekjuskattsstofn hjóna og einstaklinga í óvígðri sambúð sé fjallað í 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laganna. Um fjármagnstekjur gildi samsköttun þannig að tekjur hjóna samkvæmt C-lið 7. gr. séu lagðar saman og talið til tekna á framtali hjá því hjóna sem hafi hærri tekjur. Þannig geti allar fjármagnstekjur talist til tekna atvinnuleitanda við skattlagningu hafi hann hærri tekjur en maki hans og öfugt.

Þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort kærandi og maki hennar séu með aðskilinn fjárhag eða hvort umræddar vaxta- og leigutekjur stafi frá séreign maka kæranda í skilningi hjúskaparlaga nr. 31/1993 telji Vinnumálastofnun að hlutur kæranda í fjármagnstekjum skuli koma til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta. Ekki sé unnt að fallast á að sameiginlegar fjármagnstekjur hjóna séu kæranda óviðkomandi.

Í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið leiðréttar fyrir árið 2020. Þar sem um sameiginlegar tekjur kæranda og maka hennar hafi verið að ræða hafi fjármagnstekjum verið skipt til helminga við útreikning á skerðingu (1.629.341 kr.). Til að finna mánaðarlegar tekjur kæranda hafi þeirri upphæð verið deilt með 12 mánuðum ársins (135.778 kr.). Fjárhæð fjármagnstekna kæranda hafi því verið dreift jafnt niður á 12 mánuði ársins og skerðingarstofn vegna fjármagnstekna hafi því verið 135.778 kr. á mánuði.

Af framangreindu sé ljóst að tekjur kæranda, auk þeirra atvinnuleysisbóta sem hún hafi átt rétt á, hafi numið nokkru hærri upphæð en óskertum rétti kæranda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki. Stofnuninni hafi ekki borist upplýsingar frá kæranda um fjármagnstekjur á meðan hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta og því hafi ekki verið unnt að taka tillit til þeirra við útreikning atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun sé skylt samkvæmt framangreindu ákvæði að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta þær sem hafi verið ofgreiddar.

Hvað varði skyldu stofnunarinnar til að leiðbeina, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beri að halda því til haga að samkvæmt samskiptasögu hjá stofnuninni hafi kærandi verið boðuð á skyldunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar en námskeiðið hafi verið haldið þann 14. nóvember 2019. Eitt af umfjöllunarefnum fundarins hafi verið þær reglur sem fylgi því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta. Þá hafi kæranda einnig verið sendur tölvupóstur þann 29. október 2019 þar sem bent hafi verið á hvar upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna á heimasíðu stofnunnarinnar ásamt því að ítrekað hafi verið að upplýsa þyrfti um allar breytingar á högum, svo sem á tekjum. Ekki verði því séð að Vinnumálastofnun hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni.

Þegar búið sé að taka mið af fjármagnstekjum kæranda nemi skuld hennar við Vinnumálastofnun samtals 234.961 kr. sem henni beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 39. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kæranda sé skylt að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 234.961 kr.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. maí 2022, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið janúar til desember 2020 vegna fjármagnstekna þess árs.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2020. Samkvæmt skattframtali 2021 námu fjármagnstekjur kæranda og maka hennar 3.258.681 kr. á árinu 2020. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að um fjármagnstekjur gildi samsköttun þannig að tekjur hjóna samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skuli leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hafi hærri tekjur, sbr. 2. tl 1. mgr. 62. gr. laganna. Þannig geti allar fjármagnstekjur talist til tekna atvinnuleitanda við skattlagningu hafi hann hærri tekjur en maki hans og öfugt.

Af lagaáskilnaði 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiðir að lagaákvæði sem mæla fyrir um skerðingu atvinnuleysisbóta verða að vera skýr og ótvíræð um þá skerðingu. Jafnframt verða ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum og ef um íþyngjandi ákvörðun er að ræða verður að gera strangari kröfur til skýrleika þeirrar lagaheimildar sem hún byggist á. Túlka verður 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 í ljósi þessara skýrleikakrafna. Í máli þessu liggur fyrir að umræddar fjármagnstekjur voru nær eingöngu tilkomnar vegna vaxtatekna og arðs af hlutabréfaeign maka kæranda. Af texta ákvæðisins verður ráðið að eingöngu fjármagnstekjur hins tryggða geti komið til frádráttar atvinnuleysisbótum.  Ákvæðið verður ekki túlkað svo rúmt að fjármagnstekjur af eignum maka hins tryggða falli þar undir þó að sérstakar reglur gildi um samsköttun hjóna vegna slíkra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt. Úrskurðarnefndin bendir á að í úrskurði frá 9. ágúst 2018 í máli nr. 2/2018 var einnig komist að sömu niðurstöðu í sambærilegu máli.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda vegna fjármagnstekna hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. maí 2022, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta