Aukin þjónusta við geðfatlað fólk – ný búsetuúrræði á Austurlandi
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi (SAUST), undirrituðu í dag samkomulag um verkefni til að fjölga búsetuúrræðum og efla dagþjónustu og dagvist fyrir geðfatlað fólk á Austurlandi.
Samkomulagið er gert í samræmi við átak í þjónustu við geðfatlað fólk, stefnu og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins 2006–2010. Samkomulagið felur í sér að félagsmálaráðuneytið ver samtals 70,8 milljónum króna á árinu 2007 til þess að styðja verkefni gagnvart geðfötluðu fólki á Austurlandi.
Verkefnin sem um ræðir eru:
Uppbygging búsetu sem er ígildi fjögurra leiguíbúða ásamt starfsmannaaðstöðu, sem átak í þjónustu við geðfatlaða fjármagnar, fyrir einstaklinga með geðfötlun. Búsetuúrræðið verður hluti af húsnæðiskosti fyrir fatlaða á svæðinu og nýtt í samstarfi við SAUST þannig að tryggt sé að jafn margar íbúðir standi geðfötluðum til boða á hverjum tíma.
Þróunarverkefni til að koma á fót félags- og vinnuaðstöðu fyrir fólk með geðraskanir og geðfötlun. Við þróun og mótun þjónustunnar verður lögð áhersla á þátttöku og virkni notenda og aðstandenda þeirra. Aðrir samstarfsaðilar í þróunarverkefninu eru Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs, Félagsþjónusta Fjarðabyggðar, Heilbrigðisstofnun Austurlands, deild Geðhjálpar á Austurlandi og Austurlandsdeild Rauða kross Íslands. Markmiðið er að auka stuðning til að rjúfa einangrun, stuðla að tengslamyndun og aðstoða geðfatlaða til virkni í samræmi við eigin getu.
Aukin frekari liðveisla (sértæk þjónusta) í búsetu við fólk sem býr við geðfötlun. Stuðningur átaksverkefnisins gerir SAUST kleift að ráða fleira fagfólk til starfa.
Fjölbreyttari úrræði
„Þörf er fyrir fjölbreyttari þjónustuúrræði sem auka lífsgæði fólksins og mikilvægt að efla áhrif notenda sjálfra á þjónustuna“, sagði Magnús Stefánsson við undirritunina á Egilsstöðum. „Sjónarmið er varða félagsleg áhrif á eðli, framvindu og umfang geðfötlunar hafa verið viðurkennd og hugmyndum um að færa beri þjónustu við fólk með geðraskanir út í samfélagið, frá hefðbundnum sjúkrastofnunum, vex fylgi. Þannig megi rjúfa einangrun, efla sjálfstæði fólksins og virkja reynslu þeirra og þekkingu til batahvetjandi viðfangsefna. Í ljósi þessa hef ég sem félagsmálaráðherra í samstarfi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tekið frumkvæði til að tryggja fjármuni til átaks í uppbyggingu þjónustu við geðfatlað fólk. Þeim fjármunum verður varið á grundvelli stefnu og framkvæmdaáætlunar 2006–2010 vegna átaks í þjónustu við geðfatlað fólk sem ráðuneytið hefur mótað í samstarfi við notendur þjónustunnar, aðstandendur og hagsmunafélög geðfatlaðs fólks, sérfræðinga og fagfólk starfandi við málaflokkinn.“
Stefna félagsmálaráðuneytisins í málefnum geðfatlaðra sem átak ráðuneytisins byggist á er sett í samstarfi við hagsmunasamtök þeirra sem búa við fötlun og aðstandendur þeirra. Framtíðarsýn stefnunnar er að þeir sem búa við fötlun eigi, jafnt og aðrir, kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða svo að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika og njóti virðingar. Því verði jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi leiðarljós allra aðgerða samfélagsins gagnvart fötluðum börnum og fullorðnum.
Með samkomulagi þessu er stuðlað að því að geðfatlaðir fái notið sín sem fullgildir borgarar samfélagsins.