Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bætt þjónusta við fatlaða - ný búsetuúrræði fyrir geðfatlaða í Þingeyjarsýslum

Magnús Stefánsson og Bergur Elías Ágústsson undirrita samninga um þjónustu við fatlaða.
Magnús Stefánsson og Bergur Elías Ágústsson undirrita samninga um þjónustu við fatlaða.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri undirrituðu í dag þjónustusamning um málefni fatlaðra og samkomulag um ný búsetuúrræði og eflingu dagþjónustu og dagvist fyrir geðfatlað fólk í Þingeyjarsýslum.

Með endurnýjun samningsins um málefni fatlaðra heldur Norðurþing áfram að veita fötluðum börnum og fullorðnum í Þingeyjarsýslum þá þjónustu sem er á vegum ríkisins samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992. Samningurinn er til þriggja ára og samningsfjárhæð er liðlega 280 milljónir króna.

„Óhætt er að fullyrða að þessi nýi þjónustusamningur sé fyllri og vandaðri en sá sem fyrir er og fyllilega í takti við nýjustu áherslur og viðmið í gæðamálum og vönduðum stjórnsýsluháttum“, sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í ávarpi sem hann flutti við undirritun samninganna í Miðhvammi á Húsavík síðdegis.

Nýmæli í þjónustusamningnum

Samningurinn byggist á góðri reynslu af samstarfi undanfarinna ára. Í honum eru einnig ýmis nýmæli. Framtíðarsýn og grundvallarsjónarmið samningsins eru í samræmi við nýja stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra sem búa við fötlun. Lögð verður áhersla á gæðaeftirlit og reglulegt mat á árangri. Á þessu ári og næsta verður framkvæmt þjónustumat hjá öllum sem nú njóta þjónustu og nýjum notendum samkvæmt nýju bandarísku matskerfi sem ráðuneytið lætur þýða og leggur sveitarfélaginu til. Einnig leggur ráðuneytið til nýjan rafrænan notendagrunn sem mun gera aðgengilegar upplýsingar um þjónustuþarfir notenda. Samningurinn skapar tækifæri til að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna annarri félagslegri þjónustu sveitarfélagsins, eykur skilvirkni og bætir nýtingu fjármuna. Þau nýmæli sem hér er lýst munu styrkja framkvæmd samningsins.

Þríþætt samkomulag

Samkomulagið um þjónustu við geðfatlaða er gert í samræmi við átak í þjónustu við geðfatlað fólk, stefnu og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins 2006–2010. Heildarfjárhæð samkomulagsins er 54,7 milljónir króna á árunum 2007 til 2010. Við þessa fjárhæð bætist stofnframlag sem samið verður um þegar tillaga að uppbyggingu búsetu liggur fyrir.

Verkefnin sem um ræðir í samkomulaginu eru:

1) starfræksla endurhæfingar og dagþjónustu (geðræktarmiðstöðvar) í Þingeyjarsýslum undir heitinu Setrið, samstarfsaðilar við framkvæmd verkefnisins eru Húsavíkurdeild Rauða kross Íslands, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Þingeyskt samfélag – fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar,

2) uppbygging nýrrar búsetu í einstaklingsíbúðum fyrir þrjá einstaklinga sem tekið verður í notkun eigi síðar en á árinu 2009

3) og enn fremur uppbygging frekari liðveislu (sértækrar þjónustu sem kemur til viðbótar við þjónustu sveitarfélaga) í þremur leiguíbúðum fyrir einstaklinga sem búa við geðfötlun.

Markmiðin

Við framkvæmd þjónustu skal náð markmiðum sem ráðuneytið hefur sett í samstarfi við notendur, hagsmunasamtök þeirra sem búa við fötlun og aðstandendur þeirra og birtist í stefnu ráðuneytisins í málaflokknum.

Markmiðin ná til eftirfarandi átta málasviða:

  1. Þjónusta við börn 0–17 ára og fjölskyldur þeirra.
  2. Þjónusta vegna búsetu.
  3. Þjónusta vegna atvinnu og hæfingar.
  4. Stoðþjónusta við 18 ára og eldri.
  5. Staða og áhrif notenda.
  6. Mótun viðhorfa og almannatengsl.
  7. Gæðastarf.
  8. Þekkingarauður – mann- og skipulagsauður.

Með samkomulagi um geðfatlaða er stuðlað að því að þeir fái notið sín sem fullgildir borgarar samfélagsins.

„Það er mikilvægt fyrir fólkið í landinu að ríki og sveitarfélög geti unnið vel saman að velferðarverkefnum“, sagði Magnús Stefánsson. „Ég vil þakka Norðurþingi fyrir afar ánægjulegt og gott samstarf við undirbúning þeirra samninga sem hér hafa verið staðfestir.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta