Mikilvægt að eiga gott samráð um Brexit
Í dag átti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fund með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins, í væntanlegum viðræðum um brotthvarf Breta úr sambandinu. Ræddu ráðherra og Barnier m.a. þau málefni sem til úrlausnar verða í viðræðunum og ákváðu að koma á reglulegu samráði um Brexit. Mikilvægt væri að fljótt yrði hægt að hefja viðræður við Breta um framtíðarsamninga. Utanríkisráðherra bauð Barnier í heimsókn til Íslands til frekari viðræðna.
„Brotthvarf Breta úr ESB og innri markaðnum felur í sér úrlausnarefni sem varða EES-samninginn og því er mikilvægt að eiga gott samstarf við ESB og EFTA-ríkin innan EES í útgönguferlinu,” sagði Guðlaugur Þór.