Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga

Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra, á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga, 11. nóvember 2010.
Vilborg Ingólfsdóttir, félags- og tryggingamálaráðuneytinu, flutti ávarpið fyrir hönd ráðherra.


Ágætu ráðstefnugestir.

Þrjár spurningar eru lagðar til grundvallar þessarar ráðstefnu sem ég geri ráð fyrir að frummælendur muni nálgast á ýmsa lund eins og hæfir svo umfangsmiklu máli. Af þeim eru tvær sem ég fyrir mitt leyti get svarað í stuttu máli samkvæmt minni bestu vitund og samvisku - og ég svara þeim játandi. , ég tel skynsamlegt að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaganna og , ég tel að aldraðir muni njóta góðs af þessum flutningi, eins og ég skýri nánar hér á eftir.

Með þriðju spurningunni er óskað upplýsinga um það hvernig undirbúningi að fyrirhuguðum flutningi málaflokksins miði, aðeins einu ári fyrir flutning. Það er rétt að stefnt er að flutningi málefna aldraðra til sveitarfélaganna árið 2012. Fjallað er um flutninginn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir meðal annars að sveitarfélög verði efld með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga á sviði málefna fatlaðra, aldraðra og heilbrigðisþjónustu.

Fjölmörg rök eru fyrir því að flytja aukin verkefni til sveitarfélaganna. Staða þeirra mun eflast á komandi árum og það er nauðsynlegt að þeim vaxi ásmegin, meðal annars með áframhaldandi sameiningu sveitarfélaga. Það er löngu tímabært að samþætta velferðarþjónustu á hendi sveitarfélaganna og efla staðbundið lýðræði með flutningi verkefni heim í hérað þar sem fólkið býr sem á þjónustunni þarf að halda. Reynsla þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa að sér aukin verkefni á þessu sviði mælir með því að þessi leið sé farin.  Ég nefni líka hér að mörg sveitarfélög hafa leitað til ráðuneytisins og lýst áhuga sínum á að taka að sér þjónustu við aldraða sem fyrst. Áhugi sveitarfélaganna er því fyrir hendi, enda tel ég augljóst að með flutningi málefna fatlaðra og aldraðra skapist veruleg samlegðaráhrif hjá sveitarfélögunum sem gera mögulegt að veita meiri þjónustu fyrir sömu fjármuni.

Nú styttist óðum í að málefni fatlaðra flytjast til sveitarfélaganna. Undirbúningur og skipulagning tilfærslunnar hefur sannarlega tekið mikinn tíma, enda margir hagsmunaaðilar sem að málinu koma sem hafa þurft að ná sameiginlegri niðurstöðu í flóknum málum. Nú er málið brátt í höfn og augljóst að öll sú vinna mun nýtast okkur við undirbúning að flutningi málefna aldraðra til sveitarfélaganna. Ég nefni í þessu sambandi skilgreiningu þjónustusvæða þar sem minni sveitarfélög sameinast um þjónustu við fatlaða en íbúafjöldi hvers þjónustusvæðis miðast við 8.000 íbúa að lágmarki. Tilgangur þjónustusvæða er að tryggja að veitendur þjónustunnar séu faglega og fjárhagslega sjálfbærir og eins er þetta mikilvægt til þess að hægt sé að beita skynsamlegum jöfnunaraðgerðum til að tryggja fjármuni í samræmi við þjónustuþörf.

Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna um áramótin er gríðarlega stórt verkefni. Annað verkefni, einnig mjög umfangsmikið, er sameining félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í nýtt velferðarráðuneyti. Undirbúningur að þessu stendur nú sem hæst, enda tekur velferðarráðuneytið til starfa 1. janúar næstkomandi.

Ég hef margoft rætt um þann ávinning sem ég sé af sameiningu ráðuneytanna tveggja. Eitt skýrasta dæmið eru málefni aldraðra. Þrátt fyrir flutning ábyrgðar á málaflokknum frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins í janúar 2008 eru enn margir þættir í þjónustu við aldraða sem skarast og grá svæði á milli ráðuneytanna. Að hluta til liggur þetta í eðlilegri verkaskiptingu ráðuneytanna, þrátt fyrir flutninginn en einnig tókst þessi flutningur ekki að öllu leyti sem skyldi.

Ábyrgð á heimahjúkrun er sem fyrr hjá heilbrigðisráðuneytinu, enda stóð ekki annað til þegar breytingin var gerð árið 2008. Á hinn bóginn er það enn svo að hluti hjúkrunarrýma er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og ég þykist vita að rekstraraðilar í öldrunarþjónustu hafi ekki farið varhluta af þeim vandamálum sem fylgja þessu skipulagi, sem og fólkið sem þarf á þjónustunni að halda. Þetta fyrirkomulag hefur valdið togstreitu milli ráðuneytanna og staðið heildstæðri skipulagningu málaaflokksins fyrir þrifum.

Með sameiningu ráðuneytanna tveggja skapast allt aðrar og betri forsendur til þess að skipuleggja þjónustu við aldraða á heildstæðan máta og tryggja undirstöðurnar fyrir flutning málaflokksins til sveitarfélaganna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að ábyrgð á heimahjúkrun yrði flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, enda horft til þess hve sú þjónusta er mikilvægur hluti þjónustu við aldraða. Ég veit að Berglind Magnúsdóttir, forstöðumaður heimaþjónustu Reykjavíkur, fjallar nánar um þennan þátt hér á eftir, en hjá Reykjavíkurborg hefur félagsleg þjónusta og heimahjúkrun verið samþætt og er nú á hendi sveitarfélagsins. Þetta er sú leið sem ég tel að við eigum að fara á landsvísu. Með því móti eflast sveitarfélögin enn frekar og geta þeirra til að sinna samþættri velferðarþjónustu við íbúa sína eykst enn frekar.

Fyrir rúmu ári, 13. október 2009, samþykkti ríkisstjórnin að ráðast í byggingu hjúkrunarheimila samkvæmt svokallaðri leiguleið í samstarfi við níu sveitarfélög um slíkar framkvæmdir. Þessi samþykkt opnaði nýja leið til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunarheimila, þar sem heimamenn annast hönnun og byggingu húsnæðisins, fjármögnunin er tryggð með láni frá Íbúðalánasjóði en félags- og tryggingamálaráðuneytið greiðir viðkomandi sveitarfélagi hlutdeild í húsaleigu sem ígildi stofnkostnaðar. Nú þegar hafa verið undirritaðir samningar við sex sveitarfélög um framkvæmdir samkvæmt leiguleiðinni. Þetta er varða á vegi flutnings málefna aldraðra til sveitarfélaganna þar sem uppbygging hjúkrunarrýma samkvæmt þessari leið er gerð með beinum samningum við sveitarfélögin. Með þessu móti er vægi sveitarfélaganna aukið við stefnumótun og ákvarðanatöku um uppbyggingu hjúkrunarheimila, líkt og eðlilegt er og nauðsynlegt þegar stefnt er að því að þau taki að sér heildstæða þjónustu við aldraða.

Þegar fram líða stundir og sveitarfélögin ráðstafa sjálf tekjustofnum til fjölþættrar velferðarþjónustu, hvort sem það er félagsþjónusta, þjónusta við fatlaða eða aldraða eða önnur skyld verkefni fá þau mikilvæga möguleika til þess að stokka spilin upp á nýtt og endurskoða þjónustukerfið í heild sinni með þarfir íbúanna að leiðarljósi. Þarna skapast leið til þess að hverfa frá því fyrirkomulagi að flokka fólk í hópa og skilgreina þjónustu og rétt til þjónustu út frá slíkri flokkun. Til lengri tíma litið sé ég fram á að fólki verði veitt þjónusta í samræmi þarfir sínar, burtséð frá aldri eða annarri flokkun. Þannig skapast forsendur fyrir því að leggja niður sérlög um ákveðna hópa eins og lög um málefni fatlaðra og aldraðra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta