Hoppa yfir valmynd
15. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Leiðsögu- og hjálparhundar í fjölbýlum

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús þar sem meðal annars er kveðið á um sérstaka heimild fyrir fólk með fötlun til að halda leiðsögu- og hjálparhunda í fjöleignarhúsum. Með breytingunni verður því heimilt að halda leiðsögu- eða hjálparhund í íbúð sinni án þess að fyrir liggi samþykki annarra íbúðareigenda í húsinu, líkt og lög kveða annars á um vegna almenns katta- og hundahalds í fjölbýli.  

Til þessa hafa sömu lög gilt um leiðsögu- og hjálparhunda í fjölbýli og gilda um hundahald almennt. Því hefur fólk sem þarf á slíkum hundum að halda þurft samþykki allra íbúa viðkomandi húss og andstaða eins íbúa nægt til að hindra þessa mikilvægu aðstoð. Um þetta segir í greinargerð með frumvarpinu: „Með frumvarpi þessu er brugðist við þessari stöðu og er tekið almennt á hundahaldi í fjöleignarhúsum, sérstaklega er slegin skjaldborg um leiðsögu- og hjálparhunda og forgangsrétt þeirra sem þurfa á slíkum „hjálpartækjum“ að halda. Er fortakslaust neitunarvald annarra eigenda afnumið og réttur fatlaðs fólks settur í forgang.“

Samkvæmt frumvarpinu skal þinglýsa yfirlýsingu um það ef leiðsögu- eða hjálparhundur er í fjölbýlishúsi og vekja athygli á því í yfirlýsingu húsfélags við sölu. Einnig eru fyrirmæli um það hvernig tekið skuli á málum þegar leiðsögu- eða hjálparhundur veldur ofnæmi annars íbúa. „Ef að líkum lætur eru litlar líkur á slíkum árekstri en komi slíkt upp er hér vörðuð leið til lausnar“, segir í greinargerð.

„Í fyrsta lagi eru leiðsögu- og hjálparhundar mjög fáir og í öðru lagi er hundaofnæmi tiltölulega fátítt. Um 6% manna eru með dýraofnæmi og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er ekki nema lítill hluti þeirra með svo svæsið ofnæmi að lyf megni ekki að vinna á einkennum. Það er því mjög ólíklegt að til þess komi að andspænis standi í fjöleignarhúsi leiðsögu- eða hjálparhundur og íbúi með ofnæmi á háu stigi. Ef það gerist þá er í frumvarpinu lagt til úrræði til lausnar sem felur í sér að sértækra lausna er leitað með fulltingi sérfræðinga“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta