Flutningur málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga
Alþingi samþykkti í dag frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðra sem felur í sér flutning málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Samþykkt var breyting á heiti laganna og heita þau nú lög um málefni fatlaðs fólks.
Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlaða, þar með talið gæðum þjónustunnar og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögunum. Einnig skulu sveitarfélögin annast innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- og þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.
Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.
Velferðarráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks samkvæmt lögunum. Ráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokknum sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Ráðherra hefur einnig eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Markmið eftirlitsins er jafnframt að safna og miðla upplýsingum til að tryggja sambærilega þjónustu við fatlaða einstaklinga í ljósi ólíkra þarfa. Ráðherra skal gera tillögur til sveitarfélaga um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðla að samræmingu hennar. Enn fremur skal ráðherra hafa umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og að höfðu samráði við heildarsamtök fatlaðs fólks.
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að með samþykkt laganna í dag sé tekið stórt og mikilvægt skref til góðs fyrir fatlað fólk. „Ég er þess fullviss að sveitarfélögin eru vel í stakk búin til að takast á við þetta verkefni. Verkefnið hefur verið undirbúið af kostgæfni eins og fram kemur í heildarsamkomulagi ríkis og sveitarfélaga um flutninginn. Mynduð hafa verið þjónustusvæði þeirra sveitarfélaga sem munu annast verkefnið sameiginlega og hefur undirbúningur þeirra fyrir breytinguna 1. janúar verið til fyrirmyndar. Markmið laganna eru skýr, þ.e. að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Þá er sérstaklega tekið fram að mið skuli tekið af alþjóðlegum skuldbindingum sem stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég tel miklu skipta að þetta komi skýrt fram í lögunum og sömuleiðis ákvæði um að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumótun og ákvarðanir sem varða málefni fólks með fötlun.“