Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2018 Innviðaráðuneytið

Aðgerðir til að auðvelda ungu fólki sín fyrstu húsnæðiskaup

Ráðist verður í sértækar aðgerðir til að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um skipun starfshóps sem á að útfæra ákveðnar aðgerðir í þessu skyni sem gefist hafa vel hjá grannþjóðum.

 

Ákvörðunin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega kveðið á um að ríkisstjórnin muni fara í aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og endurskoða í því skyni stuðningskerfi hins opinbera þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verði skoðaðir möguleikar á því að nýta lífeyrissparnað til þessa.

Fyrir liggur að ójafnræði á húsnæðismarkaði hefur farið vaxandi hér á landi á síðustu árum og staða tekju- og eignalágra á markaðnum hefur versnað. Vísbendingar eru um að sá húsnæðisstuðningur sem stendur fólki til boða gagnist tekjulágum ekki sem skyldi. Vaxtabætur gagnist fólki til að mynda ekki við öflun eigin fjár en skortur á eign fé virðist vera stærsta fyrirstaða tekjulágra við húsnæðiskaup um þessar mundir. Tekjulágar fjölskyldur safna síður séreignasparnaði en tekjuháar og geta því síður nýtt sér heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar hans við íbúðakaup.

Velferðarráðuneytið í samvinnu við Íbúðalánasjóð hefur um skeið unnið að kortlagningu ýmissa úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar bjóða tekjulágum á húsnæðismarkaði og hafa gefið góða raun. Þessi kortlagning hefur beint sjónum sérstaklega að tilteknum leiðum sem farnar hafa verið í Sviss og Noregi.

Ásmundur Einar segir tíma aðgerða að renna upp: „Nú er mikil greiningarvinna að baki og komið að því að stíga fyrstu skref til aðgerða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að kalla fleiri að borðinu til að útfæra þær nánar og hrinda þeim í framkvæmd“ segir ráðherra.

Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%.

Husbanken, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs í Noregi, býður upp á sérstakan húsnæðisstuðning, svokölluð startlán, til að aðstoða afmarkaðan hóp tekjulágra heimila við að kaupa eigin íbúð. Startlán eru íbúðalán með lægri vöxtum og lægri eiginfjárkröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjármögnunar fyrir íbúð með hefðbundnum hætti. Stærsti hópur lántaka eru fjölskyldur sem búa við slæma fjárhagslega stöðu en startlán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaupenda, flóttafólks, fólks með fötlun og fólks sem býr við félagsleg vandamál.

Samkvæmt tillögu félags- og jafnréttismálaráðherra sem samþykkt var á fundi ríkisstjórnar í dag verður sem fyrr segir skipaður starfshópur til að útfæra sambærilegar lausnir og að ofan greinir hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta