Hoppa yfir valmynd
14. júní 2005 Forsætisráðuneytið

A-210/2005 Úrskurður frá 14. júní 2005

Úrskurður í málinu nr. A-210/2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. júní 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-210/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 27. maí s.l., kærði […] synjun landlæknisembættisins um afrit af kvörtunarbréfi sem embættinu hefði borist vegna meðferðar sem veitt væri af hálfu kæranda.

Með bréfi, dagsettu 31. maí s.l., var kæran kynnt landlæknisembættinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 10. júní s.l. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Landlæknisembættið svaraði með bréfi dagsettu 3. júní s.l. Þar kom fram meðal annars að athygli landlæknisembættisins var vakin á því með tölvupósti frá tannlækni nokkrum að í pósti frá kæranda hefði verið auglýst tannhvítun með hydrogen-peroxíði 35%. Hefði komið fram að umrætt efni væri sett á tennur af starfsmönnum stofunnar án þess að nokkuð væri gert til að verja tannhold. Væri þetta talið ólöglegt og óskað eftir því að landlæknir tæki málið til skoðunar. Einnig hefðu landlækni borist munnlegar ábendingar.

Þá kom fram að landlæknisembættið hefði ákveðið að taka málið til skoðunar með hliðsjón af eftirlitsskyldu sinni með heilbrigðisstéttum. Hefði kæranda verið skrifað bréf þar að lútandi hinn 7. apríl s.l. Því bréfi svaraði kærandi hinn 26. apríl s.l. og óskaði þá eftir afriti af kvörtunarbréfinu. Því synjaði landlæknir með bréfi dags. 3. maí s.l.

Bréfi landlæknis til úrskurðarnefndarinnar fylgdi í trúnaði afrit af umræddum tölvupósti dags. 16. mars s.l.

Niðurstaða

Ljóst er að kærandi sætir nú eftirliti af hálfu landlæknis á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga. Um aðgang hans að upplýsingum sem tengjast því stjórnsýslumáli fer því skv. 15.-19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þeim sökum fellur kæran utan við gildissvið upplýsingalaga og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem kæruheimild til nefndarinnar er einvörðungu bundin við synjun um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Kæru […] vegna synjunar landlæknisembættisins um aðgang að kvörtunarbréfi dags. 16. mars s.l. er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Páll Hreinsson,formaður
Friðgeir Björnsson
Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta